16.03.1982
Sameinað þing: 64. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3095 í B-deild Alþingistíðinda. (2636)

204. mál, vistun ósakhæfra afbrotamanna

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það eru ekki tök á að ræða þetta mál undir þessum kringumstæðum eins ítarlega og vert væri, en ég ætla að leyfa mér að fara örfáum orðum um þátt hv. fyrirspyrjanda og annarra hv. þm. í þessum umr.

Bent hefur verið á að geðsjúkir fangar á Norðurlöndum dveljist yfirleitt á sjúkrahúsum eða í sérstökum deildum við þau, þar sem þeir geta notið nauðsynlegrar meðferðar og aðhlynningar. Þetta er náttúrlega æskilegasta lausn mála og sú sem ber að vinna að, en hér á landi hefur hún strandað, eins og vikið hefur verið að, á árekstrum milli valdamikilla aðila í heilbrigðiskerfinu fyrst og fremst.

Hv. 10. landsk. þm. vitnaði í einhver ummæli mín í Dagblaðinu. Ég fer nærri um hvaða ummæli það voru. En sá blaðamaður, sem sérstaklega hafði gengið fram í að kynna sér þessi mál, sneri næstum öllu við. Það hefur aldrei verið ætlun mín né annarra í dómskerfinu að halda í þessa menn innan fangelsismúra hjá okkur. Vitaskuld viljum við að þeir komist á þann stað þar sem best er hlynnt að þeim og þar sem þeir njóta bestrar aðhlynningar. En ég hef á nokkuð löngum æviferli kynnst þessum málum talsvert vel. Ég man eftir því hér á árum áður, þegar ég var fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík, að lögreglan þurfti að vaka marga nótt yfir slíkum mönnum, sem þó voru ekki afbrotamenn, heldur geðveikir, af því að geðsjúkrahúsin gátu ekki tekið við þeim. En síðan er vitað að þessi mál hafa verið deilumál um langan aldur. Þess vegna hef ég sagt að ég tek ekki lengur þátt í að kasta þessum mönnum til og frá. Dómsmálayfirvöld eru sá aðili sem hefur orðið að sitja uppi með þessa menn. Við reynum að búa þeim sem besta dvöl innan okkar veggja. Eins og menn muna kannske frá því að verið var að undirbúa fjárlögin í vetur þá lagði ég mikla áherslu á að fá fjárveitingu í Tunguhálsfangelsið svokallaða, en það er fangelsi sem búið er að steypa grunn að og er í byggingu. Fyrirhugað er að þar verði gæsluvistarfangelsi. En ég hef látið mér detta í hug — til þess að losna við að standa í þessum vanda — að leggja lið mitt til þess, að þarna verði ætluð ein álma fyrir umrædda menn, þar sem þeim verði búin eins góð vist og við getum í té látið. En þetta er einungis vegna þess hvernig þessi mál standa.

Það hefur verið spurt um hvort ekki væri fyrirhugað að bæta úr þessu ástandi. Vissulega er það reynt eftir ýmsum leiðum. Ég held að ég hafi kynnt hér á hv. Alþingi snemma í vetur álitsgerð þeirra Jóns Thors deildarstjóra og Ólafs Ólafssonar landlæknis, þar sem þeir unnu sameiginlega að þessum málum og gerðu að tillögu sinni að reist yrði sérstök stofnun fyrir þessa menn. Sú tillaga hlaut nokkra áheyrn, og á fjárlögum þessa árs er heimild í 6. gr. fjárl. til að verja allt að 100 þús. kr. til greiðslu kostnaðar við undirbúning byggingar eða kaupa á húsnæði til vistunar fólks í öryggisgæslu, að fengnum tillögum heilbr.- og dómsmrh. Það fer þess vegna ekki á milli mála, að ég tel brýna nauðsyn bera til að greiða úr þessum málum og koma þeim í betra horf.

Ég fagna því, að svo margir hv. alþm. sýna þessu máli áhuga. Ég get upplýst að einmitt um þessar mundir er unnið af kappi að því af hálfu landlæknis, geðlækna og starfsmanna dómsmrn. að komast að sáttum og niðurstöðu til frambúðar í þessum málum. Ég held að það fari samt of langur tími í að ræða þau mál til nokkurrar hlítar á þessari síðdegisstund. En ég hef hér undir höndum nýja skýrslu, ekki ýkjalanga, sem ég fékk í hendur fyrir tveim dögum, þar sem bent er á athyglisverða lausn í þessum málum. Þar er einmitt vikið að því, að hin svokallaða fullnustumatsnefnd sem starfar á vegum rn., skuli vera til sérstaks ráðuneytis í þessum efnum. Þess skal getið, að nýbúið er að endurskipuleggja þessa nefnd sem á m.a. að fjalla um hvaða vist muni henta dómfelldum best. Hefur verið horfið að því ráði að skipa einnig varamenn í nefndina. Ég get nefnt nú í lokin hverjir eru í henni. Þeir, sem starfað hafa, eru prófessor Jónatan Þórmundsson, formaður, landlæknir Ólafur Ólafsson og lögregluvarðstjóri Jónas Jónasson. Til vara hafa verið skipaðir Eiríkur Tómasson lögfræðingur, Sigmundur Sigfússon geðlæknir og Páll Eiríksson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Ég fer ekki lengra út í þessi mál nú. Ég vil þó fullvissa hv. fyrirspyrjanda og hv. alþm. aðra um að unnið er að þessum málum með þeim hraða sem frekast eru föng á af hálfu ráðuneytisins.