16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2643)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil taka það fram, að ég tel mér skylt að gefa Alþingi skýrslu um hvernig framvinda þess máls, sem hér er um að ræða, hefur verið og í hvaða horfi það mál er. Það tel ég mér skylt vegna þess að ég hef byggt aðgerðir mínar á þál. frá Alþingi. Ég tel hins vegar ekki rétt eða heppilegt að gefa þá skýrslu í framhaldi af þeim umr. sem hér fara fram, enda var ósk um að ég gerði það síðar við þénanlegt tækifæri. Þess vegna ætla ég ekki nú að fara út í efnislegar umr. um þetta.

Út af orðum hv. síðasta ræðumanns um svar hæstv. forsrh. vil ég segja að hæstv. forsrh. neitaði því ekki. að það væri ágreiningur í ríkisstj., enda er það ekkert óeðlilegt og gamalkunnugt fyrirbæri að það er ágreiningur í ríkisstjórnum um ýmiss konar mál, bæði þessari og öðrum. En hæstv. forsrh. sagði að það hefði ekki verið ástæða til að kveða upp neinn úrskurð um það sem hann var spurður um. Menn geta kannske lagt misjafnan skilning í þessi orð. Ég legg minn skilning í þau. Ég er ánægður með þann skilning og læt það gott heita.