16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3100 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

Umræður utan dagskrár

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég tók eftir því á brosi hæstv. utanrrh., að hann gerði sér fulla grein fyrir hvar fiskur liggur undir steini hjá hæstv. forsrh. þegar hann kemur sér undan að svara. Ég hafði svolítið gaman af því satt að segja og hef alltaf gaman af því þegar hæstv. utanrrh. skensar þá, sem eiga það skilið, og klappar þeim góðlátlega á kinnina, eins og hann gerði núna við hæstv. forsrh. Auðvitað veit hæstv. forsrh. vel að með því að neita að svara spurningunni, sem var fram borin, er hann að taka undir þær ásakanir sem komið hafa fram á embættisfærslu hæstv. utanrrh. Það er alveg augljóst mál.

Við skulum aðeins rifja upp þá spurningu sem fram er borin, með leyfi hæstv. forseta — og ekki síður hæstv. forsrh. Það er alltaf gaman að geta spurt hann þegar hann er við. Spurningin er svona: Hefur utanrrh. tekið einhverjar þær ákvarðanir í svonefndu Helguvíkurmáli sem falla utan valdsviðs ráðh.? Af hverju er spurt? Það er spurt vegna þess að ráðh. í ríkisstj. fullyrðir í fjölmiðlum dag eftir dag að utanrrh. hafi brotið lög og reglugerðir. Þess vegna er spurt. Síðan er spurt hér á Alþingi hvort hæstv. forsrh. beri það traust til síns utanrrh. að hann þori að lýsa hér yfir að hann hafi ekki brotið landslög. Það er allt og sumt. Við erum að spyrja hæstv. forsrh. að þessu. Hefur utanrrh. tekið einhverjar þær ákvarðanir í svonefndu Helguvíkurmáli sem falla utan valdsviðs ráðh.? Við erum að spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort ummæli félmrh. í Þjóðviljanum í dag séu rétt. Í Þjóðviljanum í dag segir svo eftir félmrh., sem er á framkvæmdastjórnarfundi hjá Alþb. — er það ekki rétt? — með leyfi hæstv. forsrh. og forseta: „Þessi mál verða ekki til lykta leidd þótt utanrrh. komi með yfirlýsingar um valdníðslu annarra ráðuneyta og gefi út reglugerðir er brjóta í bága við gildandi reglugerðir. Orð Ólafs Jóhannessonar gilda ekki sem lög á Íslandi.“

Þarna segir félmrh. að hæstv. utanrrh. hafi gefið út reglugerðir er brjóti í bága við gildandi reglugerðir. Og hæstv. félmrh. segir enn fremur: „Ég held ég verði að taka mér í munn fyrri yfirlýsingu utanrrh. og segja að þessi vinnubrögð séu markleysa.

Þessi reglugerð er sett viku eftir að ný reglugerð var gefin út, sem öll sveitarfélög, sem eiga lögsögu á varnarsvæðunum, áttu aðild að. Sú reglugerð átti ekki að koma utanrrh. á óvart, þar sem hún var kynnt í ríkisstj. fyrir nokkrum vikum. Sú reglugerð hafði fulla stoð í reglum og venjum, og því er þetta offors algerlega fráleitt.“

Það er þar með ekki það einasta sem hæstv. félmrh. fullyrðir að hæstv. utanrrh. hafi brotið af sér í sinni embættisfærslu, heldur fullyrðir hann að ríkisstj. standi á bak við ummæli sín.

Þetta mál er svo hart sótt af ráðherrum Alþb. að þingflokkur Framsfl. sá ástæðu til þess í gær að gefa út sérstaka traustsyfirlýsingu á utanrrh. Að vísu er traustyfirlýsingin stutt. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forsrh. og forseta:

„Þingflokkur Framsfl. lýsir fyllsta stuðningi við meðferð utanrrh. á Helguvíkurmálinu.“

Ég hygg að það sé ekki oft sem þingflokkar hafa séð ástæðu til að gefa slíka traustsyfirlýsingu á sinn ráðh. (PP: Við erum alltaf að hæla okkar mönnum.) Ég held að formaður þingflokks Framsfl. ætti nú að manna sig upp og koma hingað og lýsa yfir trausti á meðferð utanrrh. síns á málefnum varnarliðsins og Helguvíkurmálinu og fylgja með þeim hætti eftir þeirri traustyfirlýsingu sem var gefin hér niðri í herberginu — eða formaður Framsfl. Kannske hann vildi nú lýsa því yfir hér í ræðustólnum að hann treysti utanrrh. — eða þá hv. 5. þm. Reykn. Ég held að þeir ættu að reyna að lýsa því yfir hér á Alþingi að þeir treysti ráðh. og standi á bak við sinn mann í utanrrn. Það er hálfkjánalegt að það skuli einungis gera sjálfstæðismenn og Alþfl.-menn. Það er náttúrlega betri helmingur Sjálfstfl. Ég tala ekki um hina. Þeir hafa misst tunguna einhverra hluta vegna.

Annars talar hæstv. forsrh. svo fallegt mál og er svo „sjarmerandi“ í ræðustól að það er synd hvað hann var stuttorður. Mér þykir svo gaman að hlusta á hann. En nú vill hann ekki tala. Nú er farið fram á að hann lýsi yfir stuðningi við utanrrh. Nú er honum það ekki þóknanlegt. Nú á að þegja. Af hverju skyldi hann þegja? Hvaða ástæðu skyldi hann hafa til að þegja? Er hann að reyna að fiska í gruggugu vatni? Ekki er það líkt honum. Er hann að hlífa sjálfum sér? Ekki er það líkt honum. Er hann að reyna að koma sér hjá því að svara einhverju óvenjulegu? Ekki er það líkt honum. Fáa menn veit ég eins og hann, sem eru fúsari til þess í erfiðri stöðu að taka á sig byrðarnar og hlífa sér hvergi, standa heldur í fylkingarbrjósti og bera skjöld yfir aðra. Það er hans „karakter“ eins og við sjáum í þessu.

Auðvitað er hæstv. forsrh. ekki að hlífa sér. Það er síður en svo. En hvers vegna vill hann þá ekki svara? Af hverju segir hann þá ekki já eða nei? Af hverju dregur hann þetta við sig? Um hvað er hann að hugsa? Er hann kannske í vafa um að hæstv. utanrrh. hafi haldið sig innan síns valdsviðs? Hvað er hæstv. forsrh. að gefa í skyn? Af hverju svarar maðurinn ekki? Já eða nei. Hæstv. forsrh„ já eða nei. Ekki eitt einasta hljóð. Þó veit hann, eins og við vitum öll sem hér erum inni, að ekki er aðeins spurt í dagblöðunum, það er ekki aðeins áhugi á þessu í sjónvarpinu, það er ekki aðeins spurt af fréttamönnum útvarpsins. Ef tveir menn hittast á götu spyrja þeir hvað sé að gerast, hvort hæstv. utanrrh. hafi brotið af sér, farið út fyrir sitt valdsvið, hvort það sé rétt, sem hæstv. félmrh. segir, að hæstv. utanrrh. sé farinn að tapa sér og viti ekki lengur hvað hann geri í rn. Það datt upp úr einum ráðh. áðan í einkasamtali að það væri búið að banna þeim að tala nema hæstv. forsrh„ sem ætlaði að hafa orðið fyrir þeim. Ætli það hafi verið eitt orð „per Stück“, eitthvað slíkt? Ég skal ekki segja um það. En ekki er nú mikil reisnin yfir þessum umr., að það skuli ekki vera hægt að spyrja um það á Alþingi í alvarlegri umr. hvort forsrh. standi á bak við utanrrh. sinn í því sem hann er að gera þegar hann er að fylgja eftir ályktun Alþingis.

Ef maður vill tala um þetta mál í alvöru er því ekki að leyna, að það er auðvitað mjög alvarlegt mál. Og það er auðvitað mjög virðingarvert, sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að hann muni gefa Alþingi skýrslu um hvernig þessi mál standa. Þá mun það verða Alþingi sjálft sem dæmir um hans verk. Ég efast ekki um að ef fram fari hér í þingsölum atkvgr. um það á meðal stjórnarandstæðinga, hvort þeir treysti þessum sérstaka ráðh. í hans embættisfærslu, þá mundi koma í ljóst að hann hefði miklu víðari og breiðari stuðning vegna frammistöðu sinnar í sínu rn. en nokkur annar ráðh. í þessari ríkisstj. Það segir sína sögu. Hitt er svo ekki nema eftir því stjórnleysi sem gert hefur vart við sig hér í landinu upp á síðkastið, að einföldustu spurningum, sem snerta stjórnarfarið sjálft, sem snerta sjálfa landsstjórnina, vinnubrögð þar og hvort starfað sé í samræmi við lög og reglur, þeim fæst ekki svarað af hæstv. forsrh. Þegar kemur að sjálfum kjarna málsins, hvort lög séu haldin, vill hann ekki svara, hvorki með jái né neii. Þetta er það dapurlega í þessu máli. Það er sitt hvað að vera stundum sniðugur, koma stundum á óvart og vera alvörumaður i sinni pólitík þegar hann býðst til þess að setjast í sæti sjálfs forsrh. Ég verð að segja það sem mína skoðun, eins og þetta mál er rekið, af slíku offorsi sem það er rekið af ráðherrum Alþb., að mér þykir litill sómi að þögninni eins og á stendur. Miklu meiri reisn og miklu meiri drengskapur hefði verið fólginn í því hjá hæstv. forsrh. ef hann hefði tekið af skarið hér í þinginu og haft kjark í sér til að segja hvað honum finnst um hvort hæstv. utanrrh. hafi haldið sig innan síns valdsviðs eða ekki. Um þetta er spurt og við þessu fæst ekki svar. Af hverju? Af því að það er óþægilegt. Það er kjarni málsins. Af því að það er óþægilegt. (Gripið fram í: Fyrir Alþb.) Ég tala nú ekki um lágkúruna á þm. Framsfl. ef þessari umr. lyktar svo að ekki einn einasti þeirra standi upp til að lýsa yfir trausti á fyrrv. formanni sínum og utanrrh. (PP: Við gerðum það í gær.) Þeir ættu að gera það í ræðustólnum. Það væri meiri drengskapur fólginn í því.

Ef maður veltir svo fyrir sér hvað það er sem t.d. varaformaður Alþb. brigslar hæstv. utanrrh. um, þá má lesa það í leiðara Þjóðviljans í dag að honum er brigslað um að hlaupa til stóra frænda vestur í Ameríku þegar honum finnst á hallað hér á landi. Í þessum brigslyrðum í Þjóðviljanum eru auðvitað fólgin viss landráðabrigsl, að hæstv. utanrrh. sé óþjóðhollur maður. Miklu fremur en allt annað gæfi það flokksbræðrum hans hér í þinginu tilefni til að lýsa því enn yfir skýrt og skorinort, að þeir beri fullt traust til hans í þessum málum og til embættisfærslu hans yfirleitt. Eins og ég sagði áðan veit ég ekkert dæmi þess nema þetta, að þingflokkur hafi séð ástæðu til að lýsa yfir trausti sínu á einum af ráðherrum sínum með sama hætti og Framsfl. gerði í gær. Það sýnir okkur auðvitað að framsóknarmenn meta ásakanirnar á hæstv. utanrrh. með allt öðrum og miklu alvarlegri hætti en hæstv. forsrh. virðist gera. Hann virðist lita svo á að hér sé venjulegt gamanmál á ferðinni sem hægt sé að hrista af sér eins og flugu. En auðvitað sækir þetta mál aftur á. Auðvitað hlýtur að koma að því að hann og aðrir menn, sem sitja í núv. ríkisstj., verða að svara til um hvernig þeim finnst þetta mál vaxið og hvernig þeim finnst hæstv. utanrrh. standa í sinni stöðu. Það er kjarni þessa máls.

Auðvitað er ekki ástæða til að hafa um þetta mörg fleiri orð. Við vitum öll, sem hér erum inni, að hæstv. forsrh. mun ekki svara þessari spurningu. Hann mun koma sér hjá því. Hann mun láta aðra geta í eyðurnar um það, hvers vegna hann kemur sér hjá því.

Hæstv. utanrrh. sagði brosandi áðan að hann mæti þetta svar á sinn hátt og væri ánægður með það. Ég segi nú eins og hæstv. utanrrh. Ég met þetta svar hæstv. forsrh. líka á minn hátt og það gerir allur þingheimur, og ég segi að það breytir ekki þeirri skoðun sem ég hafði áður á manninum.