16.03.1982
Sameinað þing: 65. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3117 í B-deild Alþingistíðinda. (2660)

Umræður utan dagskrár

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í lok þessarar löngu umr.

Ég vil leyfa mér að lýsa hneykslan minni á allri þeirri málsmeðferð sem hefur átt sér stað í dag. Ég átti þess kost ekki alls fyrir löngu að sitja kennslustund í smábarnaskóla hér í bæ í ræðumennsku, þar sem kennari var að kenna börnum að vita um hvað þau væru að tala og að halda sig við aðalatriði. Ég er alveg sannfærð um að hv. þingheimur fengi núll í þeim bekk.

Ég vil taka undir það sem hæstv. forsrh. hefur sagt hér í dag. Hér hefur verið beint til hans spurningu sem í raun og veru er óþörf og þingið á að geta sagt sér sjálft svarið við. Ég vænti þess, að þingheimur viti að ef hæstv. forsrh. treystir ekki ráðh. sínum hefur hann allt vald til að segja þeim upp störfum og fá sér aðra ráðh. í ráðuneyti sitt.

Annað er að ekki er að sjá að þingheimur kunni að lesa. Sú. þál. sem ég er með í höndunum, fjallar um að Alþingi feli utanrrh. að vinna að lausn á vandamálum vegna eldsneytisgeyma varnarliðsins. Það stendur ekki orð um hvaða lausn hann eigi að velja. Vandinn, sem hins vegar hefur verið á ferðinni innan ríkisstj., er hvort öll ríkisstj. felli sig við þá lausn sem hann hefur fundið og gerir tillögu um. Ég held að það fari ekki milli mála, að i ríkisstjórn þriggja stjórnmálaflokka, eins og hæstv. forsrh. réttilega benti á, hlýtur samstarfið að standa og falla með því. hvort lausn finnst á hverju máli. Ef hún finnst ekki hlýtur sú ríkisstjórn auðvitað að vera óstarfhæf og full ástæða til að lýsa á hana vantrausti.

Það undrar mig að hér skuli fara fram svo ruglingslegar og ómálefnalegar umr„ sem eru kannske alvarlegar vegna þess að þær fjalla ekki um málið sem deilt er um, heldur fyrst og fremst um hvort Alþb. sé á leiðinni út úr ríkisstjórn. Í fyrsta lagi er auðvitað vonlaust að því verði svarað hér. En hitt er öllu alvarlegra, að Alþingi Íslendinga skuli vera svo kærulaust um samskipti Íslendinga við erlent stórveldi og her þess, að aðalatriðið sé hvort þessi eða hin ríkisstjórnin situr einhverjum mánuðum lengur eða skemur. Það getur vel verið að menn sé farið að lengja eftir ráðherrastólunum, en ég held þó að sem lögkjörnir fulltrúar fólksins í landinu, fólksins á Suðurnesjum, ættu þeir að hafa það útsýni og þá víðsýni til að bera að leggja þessar langanir sínar til hliðar þegar um er að ræða mál sem varðar svo miklu hér á hinu háa Alþingi.

Ég vil leyfa mér í nafni þjóðarinnar að víta þingheim fyrir þessar umr. Þær eru henni til skammar og skapraunar. Ég vil vænta þess, að menn gæti sóma síns hér í þingsölum og ræði ekki málefni á svo gáleysislegan hátt. Hér hafa margar siðareglur verið brotnar í dag, m.a. að greint var frá umræðum í hv. utanrmn. þar sem ég sat fund í morgun. Ég harma að þurfa að gera það líka. Þar var beinlínis sagt að hér væru á ferðinni umfangsmestu hernaðarframkvæmdir sem hingað til hefðu átt sér stað hér á landi, og þetta segja menn glottandi til að, eins og það var orðað, „stríða ákveðnum þm.“ Þá held ég að við getum hætt að gera tilraun til að tala í alvöru hér á þinginu. Öllum landslýð er ljóst að málefni, sem fjalla um viðskipti Íslendinga og bandaríska hersins, eru eitt viðkvæmasta mál ríkisstj. Hver sá í ríkisstj. sem æðir áfram í þeim málum án samráðs er auðvitað að storka Alþb. í ríkisstjórnarsamstarfi. Það hljóta allir að vita. Því munum við Alþb.-menn að sjálfsögðu mótmæla. Við erum hins vegar og munum halda áfram að vera tilbúin að vinna í þessari ríkisstjórn. Við treystum því, eins og hæstv. forsrh. sagði réttilega, að á þessu máli finnist lausn. En vitanlega sættum við okkur aldrei við að einhver einn ráðh. sigli þar hraðbyri að því markmiði sem honum einum sýnist rétt. Ég hygg að ráðh. Alþb. hafi ekki unnið þannig, og ég ætla að vona að þau vinnubrögð verði ekki tekin upp í hæstv. ríkisstj.

En hinu hljóta menn að lýsa vanþóknun sinni á, að þingmenn séu að leika sér að slíkum málum hér á Alþingi og láta aðra sitja hér klukkutímum saman hlustandi á rugl sem væri ekki boðlegt í barnaskólabekk.