17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2665)

203. mál, Innheimtustofnun sveitarfélaga

Frsm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. hv. félmn. hefur tekið þetta frv. til athugunar og mælir með samþykkt þess. Frv. fjallar um breytingar á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga, en hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga er að innheimta hjá barnsfeðrum meðlög, sem Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt mæðrum óskilgetinna barna og fráskildum konum vegna barna þeirra, og að endurgreiða Tryggingastofnuninni innheimtuféð eftir því sem það innheimtist.

Innheimtustofnunin getur tekið að sér hvers konar innheimtur fyrir einstök sveitarfélög gegn greiðslu, einkum þó innheimtu á sveitarsjóðsskuldum manna sem fluttir eru brott úr sveitarfélaginu.

Það er þetta sem ég hef nú greint sem er hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga samkv. gildandi lögum.

Í frv. því, sem hér er til umr., er lagt til að hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga verði aukið, svo að stofnunin geti að beiðni ráðuneyta tekið að sér innheimtu meðlagsskulda erlendra ríkisborgara búsettra hér á landi og meðlög sem greidd eru erlendis vegna íslenskra ríkisborgara. Breytingin er ekki önnur en þessi, að útvíkkað er hlutverk Innheimtustofnunar sveitarfélaga að þessu leyti eða stofnuninni gefin heimild til að inna þessi verk af hendi samkv. sérstakri borgun.

Eins og ég sagði áðan mælir hv. félmn. deildarinnar með því, að þessi breyting verði gerð á lögum um Innheimtustofnun sveitarfélaga.