17.03.1982
Efri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3121 í B-deild Alþingistíðinda. (2676)

3. mál, Sinfóníuhljómsveit Íslands

Forseti (Helgi Seljan):

Ég sé að hér er úr vöndu að ráða, því að eins og till. er orðuð frá hv. þm. Þorv. Garðari Kristjánssyni og Salome Þorkelsdóttur er það auðvitað ótvírætt, að þarna kemur ekkert inn á milli um heimild til sveitarfélaga að rekstri hjómsveitarinnar. Sú setning er algerlega fallin úr vegna þess að samkv. brtt. á greinin að orðast nákvæmlega eins og þar segir. Hins vegar þykist ég vita að menn vilji gjarnan taka afstöðu til 2, mgr. í frv., þ.e. „Með samþykki rekstraraðila getur menntmrn. heimilað fleiri sveitarfélögum aðild að rekstri hljómsveitarinnar.“ Ef enginn mótmælir þeirri málsmeðferð væri eðlilegast að ég bæri nú upp, til þess að menn gætu þar á sæst, 1. og 2. mgr. 3. gr. eins og hún er í frv. Ég tel hins vegar að það sé bara gert til þess að sætta hv. þd. við þessa 2. mgr., en alls ekki vegna þess að formlega sé ekki fullkomlega eðlilegt að halda sig við brtt., enda hafa brtt. gefið fullt tilefni til þess. En ég held að þetta sé lausn á málinu, ef enginn mótmælir því, að bera upp 1. og 2. mgr. 3. gr. eins og þær eru í frv.