17.03.1982
Neðri deild: 52. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2698)

209. mál, sveitarstjórnarkosningar

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það frv„ sem ég mæli hér fyrir, er fylgifrv. með frv. til laga um breytingar á lögum um sveitarstjórnir sem hefur verið til meðferðar í hv. Ed. Það frv. er nú til 3. umr. þar og verður væntanlega lokið við hana á næsta klukkutíma eða svo. Þar sem skammt er til sveitarstjórnarkosninga er mjög æskilegt ef takast mætti að afgreiða þessi frv. bæði með hinum mesta hraða, enda hefur það mál þegar fengið verulega meðferð bæði hjá embættismönnum, hv. Alþingi og samtökum sveitarstjórnarmanna.

Frv., sem hér er um að ræða, hefur þegar sætt meðferð í hv. Ed. og er, eins og ég sagði, fylgifrv. með hinu. Það hefur að geyma tvö efnisatriði. Það er í fyrsta lagi að með tilkynningar um aðsetursskipti, sem berast sveitarstjórn eftir að kjörskrá er samin, verði farið eins og kjörskrárkærur, og í öðru lagi að kjörseðlar við kosningu sýslunefndarmanna skuli gerðir með sama hætti og kjörseðlar við hreppsnefndarkosningu, en með öðrum lit.

Fram hefur komið við meðferð þessara mála sú ábending frá Hagstofu Íslands, sem fer nú að verulegu leyti ásamt félmrn. með framkvæmd sveitarstjórnarkosninganna, að nauðsynlegt sé að setja inn í sveitarstjórnarkosningalög ákvæði til bráðabirgða á þessa leið: Við hinar almennu sveitarstjórnarkosningar, sem fram eiga að fara 22. maí 1982, skal leggja kjörskrá fram einum mánuði fyrir kjördag, og skal hún liggja frammi í tvær vikur. — Ég geri ráð fyrir að hv. allshn. sem kemur til með að fá þetta frv. til meðferðar, athugi þessa ábendingu Hagstofu Íslands um bráðabirgðaákvæði.

Herra forseti. Ég tel ekki þörf á að fjölyrða um þetta mál og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.