17.03.1982
Neðri deild: 53. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3134 í B-deild Alþingistíðinda. (2704)

208. mál, sveitarstjórnarlög

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér er á dagskrá frv. til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum. Í því eru nokkrar breytingar, ýmist stórar eða smærri eftir atvikum, og ég mun nú gera grein fyrir þeim.

Í 1. gr. frv. er sú breyting, að þar er gert ráð fyrir að sveitarstjórnarkosningar í bæjum og þeim hreppum, þar sem 3/4 hlutar íbúanna eru búsettir í kauptúni, fari fram síðasta laugardag í maímánuði, sem ekki ber upp á aðfangadag hvítasunnudags, en aðrar sveitarstjórnarkosningar síðasta laugardag júnímánaðar.

Verði þetta frv. samþykkt á þessa lund yrði kosið í vor 22. maí.

2. gr. frv. felur í sér nokkrar breytingar. Það er þá fyrst, að felld eru niður orðin í b-lið þar sem stendur i lögunum nú: „eru íslenskir ríkisborgarar, eða hafa jafnan rétt við þá“. Orðin „eða hafa jafnan rétt við þá“ eru felld út úr lögunum. Hér var átt við í gömlu sveitarstjórnarlögunum svonefnda jafnréttisdani. Ákvæði um þá komu í lög árið 1946, í 1. gr. laga nr. 85, og mun þetta vera eitt síðasta lagaákvæðið sem eftir er og snertir svonefnda jafnréttisdani.

2. mgr. frv. gerir ráð fyrir þeirri breytingu, að enda þótt maður hafi útfyllt svokallað samnorrænt flutningsvottorð teljist hann ekki hafa svipt sig kosningarrétti hér á landi, enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum 1. mgr.

Þriðja breyting þessarar greinar gerir ráð fyrir að hér geti átt kosningarrétt danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem fullnægja skilyrðum 1. mgr., enda hafi þeir átt lögheimili á Íslandi í þrjú ár samfellt miðað við 1. des. næstan fyrir kjördag.

4. mgr. hljóðaði á þessa leið í upphaflegri gerð frv. eins og ríkisstj. flutti það: „Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem hann á lögheimili þegar tvær vikur eru til kjördags.“ Hér væri um að ræða breytingu frá því sem nú er, þar sem í gildandi lögum er gert ráð fyrir að menn eigi kosningarrétt í því sveitarfélagi þar sem þeir eru búsettir á kjördag. Niðurstaða hv. Ed. varð að breyta þessu ákvæði og hafa það í rauninni óbreytt frá því sem verið hefur, enda segir í 4. mgr. frumvarpsgerðarinnar sem ég tala nú fyrir: „Hver maður á kosningarrétt í því sveitarfélagi, sem hann á lögheimili í, þegar framboðsfrestur rennur út.“ Hér er miðað við framboðsfrest, þann tíma sem þarf að líða frá því að framboðum er skilað hið skemmsta og til kjördags. Það er sem sagt breyting frá upphaflegri gerð frv. Ég vek athygli hv. þm. á því, að í upphaflegri gerð frv. var miðað við tvær vikur, en nú er miðað við framboðsfrest.

Síðasta ákvæði þessa frv. sem máli skiptir er að kjörstjórnir í þeim sveitarfélögum, þar sem kosningar fara fram síðasta laugardag í júní, skuli sérstaklega ganga úr skugga um að þeir einstaklingar, sem flutt hafa lögheimili sitt á tímabilinu milli kjördaga, hafi eigi neitt atkvæðisréttar í öðru sveitarfélagi. Hér er um að ræða nýtt ákvæði sem hv. Ed. setti inn og er sjálfsagt öryggisákvæði.

Ég hef farið fram á það við hæstv. forseta þessarar deildar að hann reyni að hlutast til um að þetta mál fái hina skjótustu afgreiðslu í þinginu þar sem frestir eru að verða mjög stuttir og nauðsynlegt er að vilji löggjafans liggi fyrir svo fljótt sem verða má til þess að undirbúningur sveitarstjórnarkosninganna geti hafist hjá þeim yfirvöldum sem með þessi mál fara, þ.e. Hagstofu Íslands, félmrn. og viðkomandi sveitarstjórnum.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.