18.03.1982
Sameinað þing: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3136 í B-deild Alþingistíðinda. (2708)

238. mál, mörk lögsagnarumdæma

Flm. (Böðvar Bragason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. um skipun nefndar til að endurskoða mörk núgildandi lögsagnarumdæma. Hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela dómsmrh. að skipa nefnd til að endurskoða núgildandi mörk lögsagnarumdæma. Nefndina skipi fjórir menn tilnefndir af þingflokkunum, einn tilnefndur af Sýslumannafélagi Íslands og einn skipaður af dómsmrh. án tilnefningar og sé hann jafnframt formaður nefndarinnar. Nefndin skili tillögum sínum fyrir árslok 1983.“

Með lögbókunum fornu; Járnsíðu og Jónsbók, voru stofnaðar landfræðilega afmarkaðar þinghár sem umboðsmenn konungs fengu til yfirsóknar. Þær voru 12 talsins og má ætla að takmörk þeirra hafi í stórum dráttum verið hin sömu og hin hefðbundnu takmörk hinna fornu vorþingháa. Vorþinghár þjóðveldisaldar voru ekki landfræðilega afmarkaðar með lögum, en hljóta eigi að síður að hafa öðlast hefðbundin takmörk nokkuð snemma eftir að þær urðu sérstök framfærsluumdæmi. þinghár þær, sem ákveðnar voru með lögbókunum, voru Múlaþing, Skaftafellsþing, Rangárþing, Árnesþing, Kjalarnesþing, Þverárþing, Þórsnesþing, Þorskafjarðarþing, Húnaþing, Hegranesþing, Vaðlaþing og Þingeyjarþing.

Þinghár þessar höfðu víða eðlileg landfræðileg takmörk og sumar þessara þingháa urðu að sýslum innan sömu takmarka ef ekkert hindraði eðlilegar samgöngur innan þeirra. Sýslurnar urðu þó með tímanum mun fleiri og núverandi sýslunafna er flestra í fyrstu getið á 16. öld. Breytingar á sýslumörkum hafa hins vegar verið óverulegar á síðari tímum og er svo komið að víða um land taka þau ekkert tillit til byggða- og þjónustukjarna sem hafa myndast, og þess eru dæmi, að menn þurfi að fara í gegnum eitt eða fleiri lögsagnarumdæmi til þess að komast til næsta yfirvalds. Í þessu sambandi má nefna að íbúar Mosfellshrepps þurfa að aka um Reykjavík og Kópavog til þess að komast til sýslumanns Kjósarsýslu, sem situr í Hafnarfirði, og íbúar Norður-Múlasýslu þurfa að aka um Egilsstaði til að komast til sýslumanns Norður-Múlasýslu sem situr á Seyðisfirði.

Þá er víða mjög langt að fara til viðkomandi sýslumanns þótt ekki þurfi að fara um önnur lögsagnarumdæmi til þess, en oft er þó mun styttra til yfirvalds í næsta lögsagnarumdæmi. Má nefna sem dæmi að íbúar norðanvert við Hvalfjörð þurfa að aka til Borgarness til að hitta sinn sýslumann, en mun styttra er til Akraness, þar sem bæjarfógeti situr, og íbúar austanvert við Eyjafjörð þurfa að fara til Húsavíkur, þar sem sýslumaður Þingeyjarsýslu situr, en mun styttra er til Akureyrar.

Þá er ótalið það óhagræði sem er varðandi alla löggæslu í landinu því að hún lýtur sömu skiptingu og ég hef verið að ræða um hér.

Þá má bæta því við, að mörk lögsagnarumdæmanna í óbyggðum eru víða mjög óljós, einkum á miðhálendinu, þar sem þau eru á reiki víða og oft ókunn með öllu. Sýslumörk á uppdráttum landsins eru og sett eftir misjafnlega öruggum heimildum og sums staðar af handahófi.

Um nokkurt skeið hafa verið uppi kröfur um úrbætur í þessum efnum. Nefni ég þar til kröfur um breytingar á Austurlandi aðallega. En það hefur orðið minna úr leiðréttingum eða athugun þessara mála og því hef ég leyft mér að flytja þessa tillögu. Nauðsynlegt er að nú þegar verði hafist handa við að koma fastri og bættri skipan á mörk lögsagnarumdæmanna um land allt í samráði við hagsmunaaðila og stjórnvöld, sem málið skiptir, og undirbúa lagasetningu um mörkin, eftir því sem nauðsyn ber til, en heildarlöggjöf um þessi efni er ekki fyrir hendi, eins og ég hef áður sagt. Því er lagt til að til þess að vinna að þessum málum verði sett á fót nefnd skipuð fjórum mönnum tilnefndum af þingflokkunum, einum manni tilnefndum af Sýslumannafélaginu og formaður nefndarinnar verði síðan skipaður af dómsmrh. án tilnefningar.

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að leggja til að að loknum þeim þætti umr., sem hér fer fram, verði máli þessu vísað til viðeigandi nefndar.