02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

14. mál, jarðalög

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 14 lýtur að þeirri einu breytingu á jarðalögum, nr. 65 frá 31. maí 1976, að eignaumsýsla þeirra jarða í eigu ríkissjóðs, sem keyptar hafa verið af Jarðasjóði ríkisins, verði flutt frá jarðadeild landbrn. til fjmrn. sem veitir fasteignum og ýmsum fasteignaréttindum hins opinbera umsýslu.

Út af fyrir sig þarf ekki að hafa langt mál um þessa till. Hugmyndin með henni er sú, að öll eignaumsýsla ríkisins sé á einni og sömu hendinni. Það er ekki eðlilegt og ekki ákjósanlegt að margir aðilar í ríkiskerfinu fari með eignaumsýslu á bújörðum og fasteignum og allra síst þegar fyrir liggur að ekki eru í gildi neinar samræmdar reglur um, hvernig með slíkar ríkiseigur skuli fara, né heldur eru tiltækar neinar upplýsingar í fjmrn., sem á að fara með alla eignaumsýslu hins opinbera, um það, hvaða afgjöld eru greidd af slíku jarðnæði né heldur hverjar fasteignir og jarðeignir ríkisins eru.

Frv. gerir sem sé ekki ráð fyrir neinni annarri breytingu á jarðalögum en þeirri einni, að eignaumsýslan með ríkisjörðum flytjist í fjmrn. Er það í samræmi við þá tillögu mína, sem ég hef lýst úr ræðustól áður, að einn og sami aðili í ríkiskerfinu eigi að fara með alla eignaumsýslu ríkissjóðs svo að hægt sé: 1) að skýra frá því, ef eftir því verður leitað, hvaða fasteignir og jarðeignir hið opinbera eigi — svar hefur ekki fengist við því enn þó oft hafi verið um það spurt — og 2) það liggi einnig fyrir, og þá að sjálfsögðu í því rn. sem fer með alla eigna- og fjárumsýslu ríkisins, hvaða tekjur hið opinbera hafi af þessu jarðnæði. Það má að sjálfsögðu deila um hvort réttara sé að fara heldur þá leiðina að einhver einn aðili í ríkiskerfinu, hvort sem það er fjmrn. eða aðrir, setji samræmdar reglur um hvernig með ríkiseignir skuli fara, bæði á bújörðum, jarðnæði og fasteignum, og síðan sé þeim, sem hafi umsýsluna með hendi, þó að þeir séu fleiri aðilar en einn, ætlað að fara eftir þeim reglum. Það er einnig hugmynd sem kemur vel til álita að athuga að mínu viti, einkum og sér í lagi ef það er eitthvert viðkvæmt atriði hvað sá aðili heiti sem með eignaumsýsluna fer. En það nær auðvitað ekki nokkurri átt, og þá á ég ekki bara við bújarðir, heldur almennar fasteignir ríkisins og ríkisstofnana sem leigðar eru m. a. út til ýmissa opinberra starfsmanna, að engar samræmdar reglur séu til um hvernig með slíkar eignir eigi að fara, hvaða leigugjalda eigi að krefjast fyrir slíkar eignir, og þá er ég ekki að tala um bújarðirnar, heldur um fasteignir, svo sem íbúðarhúsnæði, sem ríkið á víðs vegar um land, né heldur að það séu ekki tiltækar hjá neinum aðila neinar upplýsingar um hvaða fasteignir hið opinbera á né heldur hvaða tekjur hið opinbera hefur af fasteignum sinum.

Herra forseti. Þetta er hvorki stórt né flókið mál og því ástæðulaust að hafa fleiri orð um það í framsögu nema sérstök ástæða gefist til. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og væntanlega hv. allshn. Er það ekki sú nefnd sem frv. þetta ætti að fá til meðferðar? Mér sýnist það.