18.03.1982
Sameinað þing: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2711)

238. mál, mörk lögsagnarumdæma

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Í þeirri till., sem hér er til umr., er hreyft mjög merku máli sem ég tel að sé að vísu nokkru víðtækara en gerð hefur verið grein fyrir hér af framsögumanni. Komið hefur fram að það sé nokkuð óljóst, hver lögsöguskipting sé milli umdæma í landinu, og að nauðsynlegt sé að kveða skýrt á um hana í lögum. En ég vil minna á í þessu sambandi að í landinu dvelst erlendur her sem fer með lögsögu á ýmsum svæðum hér á landi án þess að þau hafi verið skilgreind að lögum og án þess að það liggi nokkuð ljóst fyrir, hver séu yfirráðamörk þess svæðis, sem herinn hefur yfir að ráða, eða með hvaða hætti það hafi verið ákveðið.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að á sínum tíma var ákveðið án samþykkis ríkisstj. og án samþykkis Alþingis að ákveðið landssvæði í Austur-Skaflafellssýslu væri tekið undan lögsögu sýslumannsins í Skaftafellssýslum og fært undir lögsögu Bandaríkjanna. Að vísu fer lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli með fulltrúavald á því svæði, en samkv. þeim venjum og reglum, sem tíðkast í samskiptum við bandaríska herinn, er það yfirhershöfðinginn á Keflavíkurflugvelli, fulltrúi Bandaríkjastjórnar og Pentagons á Íslandi, sem fer með æðstu lögsögu á því svæði. Í Austur-Skaftafellssýslu sem Bandaríkjunum var afhent á þessum tíma, án þess að það gerðist með lögformlegum hætti hér á Alþingi eða innan stjórnkerfisins væri skýrt kveðið á um það, hver þessi mörk ættu að vera og með hvaða hætti.

Ég held einnig að samskipti íslenskra yfirvalda á þessum svæðum og bandaríska hersins og íslenskra þegna séu mjög óljós. Ég vil í þessu sambandi geta þess, að fyrir utan girðingu á Keflavíkurflugvallarsvæðinu liggur vegur sem er um það bil 50 metrum fyrir utan hliðið á Keflavíkurflugvelli. Kringum þennan vegarspotta er algerlega opið svæði. Þar eru engar girðingar og ekki neitt. Þar geta sauðfé og hundar gengið um eins og þau ágætu dýr lystir. Ef hins vegar íslenskur ríkisborgari ætlar að labba niður þennan veg, sem ég endurtek að er utan girðingar, utan við það svæði þar sem lögreglumenn í hliðinu gæta umferðar, — ef íslenskur ríkisborgari ætlar að ganga niður þennan opna veg birtast lögreglumenn og banna honum það. Við veginn er að vísu skilti þar sem umferð er sögð bönnuð. Allt svæðið í kring er algerlega opið. Ef viðkomandi íslenskur ríkisborgari óskar eftir að fá að tala við lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli til að kanna það, hvort hann geti leyft honum að ganga niður þennan opna veg á þessu opna svæði, þá segir lögreglustjórinn á Keflavíkurflugvelli: Ég hef enga heimild til þess að leyfa þér það, því miður. Ég er ekki yfirvald á þessu svæði. Ég fer ekki með lögsögu á þessum opna vegi. — Það verður að spyrja æðstu yfirmenn bandaríska hersins hvort þessi íslenski ríkisborgari megi ganga niður þennan opna veg sem þarna er utan girðingar og fyrir utan hliðið. Það eru því ekki íslensk yfirvöld, sem geta leyft íslenskum ríkisborgara að ganga þennan opna veg, heldur verða yfirmenn bandaríska hersins að kveða upp úr með það og kannske yfirmenn þeirra í Pentagon, ef málið gengur upp eftir öllu bandaríska stjórnkerfinu og endar þá hjá forsetanum í Hvíta húsinu sem fer með lögsögu yfir þessum vegi fyrir utan hliðið, Ronald Reagan.

Ég held þess vegna að mjög nauðsynlegt sé að við meðferð þeirrar þáltill., sem hér er til umr., verði lögsaga á íslensku landi í heild tekin til meðferðar og skoðuð og að sú nefnd, sem hér er verið að leggja til að geri ítarlega úttekt á lögsögumálum á Íslandi, geri jafnframt skýra úttekt á því, hvaða svæði það eru á Íslandi sem íslensk yfirvöld hafa í dag enga lögsögu yfir og íslensk yfirvöld geta ekki leyft íslenskum borgurum að ganga um, svo að við fáum einnig við lok þessa nefndarstarfs skýra mynd af því, yfir hvaða hluta landsins Ronald Reagan hefur lögsögu.