18.03.1982
Sameinað þing: 66. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3139 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

239. mál, hafnargerð við Dyrhólaey

Flm. (Siggeir Björnsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fjórum öðrum hv. þm. af Suðurlandi að endurflytja till. til þál. um að fela ríkisstj. að láta fara fram fullnaðarrannsókn á hafnargerð við Dyrhólaey. Till. svipuð þessari var flutt á 102. löggjafarþingi, en fékk þá ekki afgreiðslu. Í trausti þess, að mál þetta nái nú fram að ganga, höfum við endurflutt till. Þetta er gamalt mál hér á hv. Alþingi og meira en aldargamalt áhugamál Skaftfellinga og Eyfellinga. Ég rakti sögu þessa máls að nokkru í framsögu fyrir málinu þegar það var flutt síðast og skal ekki endurtaka það hér.

Saga þessa máls sýnir að skaftfellskir bændur, sem hafa haldið þessu máli vakandi í meira en 100 ár, hafa ekki látið fátæktina smækka sig. Þeir hafa átt glæstar hugsjónir fyrir sitt hérað og fyrir framtíð þess. Nú hafa komið fram ný rök fyrir þessu máli þar sem erlendir aðilar hafa sýnt áhuga á að kaupa vikur, Kötlu- og Hekluvikur, til bygginga. Rannsóknir hafa leitt í ljós að vikurinn uppfyllir þær kröfur sem gerðar eru til léttsteypu t.d. í Þýskalandi. Byggingarefni í Evrópu eru að ganga til þurrðar, svo að lítill vafi er á að á næstu árum og áratugum verður vaxandi eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum til bygginga erlendis. Á Mýrdalssandi er talið að nýtanlegur vikur sé a.m.k. 300 millj. rúmmetra vestan og norðan Hjörleifshöfða, en talið er að á sandinum öllum sé e.t.v. þrisvar til fjórum sinnum meira magn af nýtanlegu byggingarefni.

Hafnargerð við Dyrhólaey er forsenda þess, að hægt sé að nýta þennan útflutning, afla þannig erlends gjaldeyris, auk þess að það mundi skapa mikla atvinnu heima fyrir við flutning vikursins til hafnar. Mætti gera ráð fyrir að í framtíðinni yrði unnið úr vikrinum hér á landi og fluttar út full- eða hálfunnar vörur til bygginga erlendis. Þegar þeirri kreppu, sem nú er í Evrópu, lýkur ber nauðsyn til að öllum rannsóknum á hafnargerð við Dyrhólaey verði lokið því að þá kynni að opnast mikill markaður fyrir þessi íslensku jarðefni sem við höfum nóg af.

Ég hef bent á að höfn við Dyrhólaey geti orðið undirstaða að nýjum gjaldeyrisskapandi útflutningi, gefið ný atvinnutækifæri. Ég held að allir séu sammála um að við verðum að leita nýrra leiða til að skapa atvinnu í landinu ef fólkið á ekki að leita burt úr landinu. Hinir hefðbundnu atvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, taka ekki við vaxandi fjölda ungs fólks sem leitar á vinnumarkaðinn á næstu árum. Komi höfn við Dyrhólaey kemur þar einnig útgerð, auk þess sem höfnin gefur fleiri tækifæri, t.d. stóriðju í einhverju formi í því héraði þar sem meginhluti rafmagnsins er framleiddur. Það er engin ofrausn þó að gerð sé höfn á Suðurlandi, miðsvæðis milli Þorlákshafnar og Hafnar í Hornafirði.

Því miður eru líkur á að draga muni verulega úr framleiðslu landbúnaðarafurða. Takmarkanir á því sviði hafa þegar verið teknar upp. Því er enn brýnna en áður að vinda bráðan bug að því að auka atvinnu á Suðurlandi, skapa ný atvinnutækifæri. Það er alvarlegt mál, hve fólksfjöldi á Suðurlandi stendur nánast í stað, einnig á Árborgarsvæðinu sem við kötlum svo, þrátt fyrir útgerð frá Þorlákshöfn. Nokkur hundruð manns hafa þó unnið við virkjunarframkvæmdir á hálendinu á undanförnum árum og gera enn. Það væri vitanlega glapræði að kippa þeirri vinnu burt í einu vetfangi án þess að skapa því fólki ný atvinnutækifæri. Hitt er jafnvitlaust, að líta á þá vinnu og stöðugar framkvæmdir þar sem atvinnuveg í framtíðinni, heldur verðum við að vinna að því að það afl, sem þar er framleitt, verði undirstaða nýrra atvinnugreina á Suðurlandi.

Bygging hafnar við Dyrhólaey er einn þáttur í því að svo megi verða. Verði ekki leitað nýrra leiða til aukningar atvinnu á Suðurlandi, ef við Sunnlendingar fáum ekki þann stuðning sem til þarf í þessu máli og öðrum, þá blasir við fólksflótti af Suðurlandi, úr sveitum og þorpum, þar sem landbúnaðurinn hlýtur, eins og ég áður hef sagt, óhjákvæmilega að dragast saman um sinn. Ef svo færi færu mikil verðmæti forgörðum: byggingar standa auðar, verðmæti verða að engu, eins og gerst hefur sums staðar annars staðar í harðbýlli og afskekktari sveitum þessa lands. Ef það ætti eftir að gerast á Suðurlandi væri eitthvað meira en lítið að þar sem veðurfar í þessum hluta landsins er þó einna mildast á þessu landi.

Það er fólksflótti af Suðurlandi. Hlutfallslega flest fólk hefur flutt burt úr Suðurlandskjördæmi á s.l. ári. Þessi fólksflótti mun halda áfram ef ekki verður unnið að því að skapa þar ný atvinnutækifæri. Fari fram sem nú horfir verður Árborgarsvæðið, sem við köllum svo, eins konar svefnstaður fyrir fólk sem vinnur sunnan heiða. Með óhjákvæmilegum samdrætti í landbúnaði er byggðin í Vestur-Skaftafellssýslu í hættu sé ekkert að gert. Það þarf vissan fjölda af fólki til þess að halda uppi samfélagi sem getur boðið upp á það lágmark félags- og menningarlífs sem hægt er við að una. Ef atvinnulífið er í lágmarki, framkvæmdir litlar, fer margt annað eftir því.

Samgöngumál í austurhluta Suðurlandskjördæmis eru á því stigi — eða voru s.l. sumar — að það var líkara því að þar væri um að ræða dýraslóðir en vegi, eins og einhver orðheppinn maður komst að orði. Er þetta þó stysta eða a.m.k. greiðfærasta leiðin til Austurlands. Höfn við Dyrhólaey yrði lyftistöng fyrir þessi héruð og Suðurland allt, auk þess sem útflutningur jarðefna getur orðið talsverður þáttur í gjaldeyrisöflun landsmanna. Það er sannfæring mín, að höfn við Dyrhólaey ásamt höfninni í Þorlákshöfn sé undirstaða þess, að iðnaður í verulegum mæli geti orðið í öllum þéttbýlisstöðum sunnanlands. Miklar vegalengdir til hafna hafa alltaf staðið Suðurlandi fyrir þrifum. Hér er því um mikið byggðamál að ræða, eins og ég hef bent á.

Eins og nú horfir liggur ekkert annað fyrir ungu fólki, sem elst upp á Suðurlandi, en að flytjast burt. Atvinnuástandið nú er þannig að fólksflótti úr héraðinu er hafinn. Ástandið í minni sveit er þannig, að jafnvel nokkrar húsmæður fóru s.l. vetur til Hafnar í Hornafirði í atvinnuleit um takmarkaðan tíma. Iðnaður í einhverju formi verður að taka við því fólki sem kemur á vinnumarkaðinn á komandi árum. Það verður því að vinna að því að búa þannig að iðnaðinum, að hann geti dafnað, að fólk vilji leggja fjármuni í slíkan atvinnurekstur og kannske ekki síst að iðnaðurinn geti borgað betra kaup en hann hefur gert á undanförnum árum. Allir vita hvað til þess þarf. Það þarf að vinna bug á verðbólgunni. Verðbólgan á Íslandi má ekki vera meiri en í okkar viðskiptalöndum. Þetta er raunar einnig aðalvandi landbúnaðarins í dag, auk þess sem fátæki maðurinn tapar mest á verðbólgunni, en þeir, sem kunna á bankakerfið, geta náð í fjármuni. Braskararnir græða.

Að síðustu, ef ég má leyfa mér að segja það: Eru þeir ekki of margir sem stjórna of fáum í þessu landi? Er ekki stjórnkerfið orðið of viðamikið? Er ekki kominn tími til að stjórna þessu landi af meiri alvöru og meiri festu en oft hefur verið gert.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þessi þáltill. um rannsókn á hafnargerð við Dyrhólaey fái afgreiðslu á þessu þingi. Ég vil leggja til að henni verði að lokinni þessari umr. vísað til atvmn.