02.11.1981
Neðri deild: 8. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (274)

14. mál, jarðalög

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Það er auðvitað alltaf viðkvæmt mál þegar gerð er till. um að flytja einhvern ákveðinn málaflokk eða umsjá hans til á milli stjórndeilda. Ástæðan fyrir því, að ekki er gert í þessu frv. ráð fyrir að flytja aðrar fasteignir á milli landbrn. og fjmrn. en jarðeignir ríkissjóðs, er mjög einföld. Í jarðalögunum er ekki ákvæði um annað, og þegar menn bera fram frv. til breytinga á jarðalögum geta menn auðvitað ekki ætlast til þess, að það frv. nái yfir önnur og óskyld atriði sem ekki er fjallað um í jarðalögum. Það hlýtur að vera mönnum augljóst. Það er ekki hægt með breytingu á jarðalögum t. d. að ákveða að allar kirkjujarðir skuli færast yfir til fjmrn. Það er ekki heldur með því að flytja frv. til breytinga á jarðalögum hægt að ákveða að ýmsar húseignir, sem eru í umsjá ýmissa ríkisstofnana annarra en fjmrn. og í bæjum og þorpum víðs vegar um land, skuli fara í umsjá fjmrn. eða annarra aðila í ríkiskerfinu. Ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt, er einfaldlega sú, að það rn. sem hefur með höndum eignaumsýslu yfir stærsta hluta þessara fasteigna, er einmitt landbrn. Ég legg áherslu á að ég geri ekki till. um neina breytingu á afskiptum landbrh. og landbrn. af bújörðum þessum aðra en þá eina, að eignaumsýslan, hin takmarkaða eignaumsýsla á þessum fasteignum, verði í umsjá fjmrn. sem á að sjá um alla eignaumsýslu fyrir hið opinbera. Að öllu öðru leyti er gert ráð fyrir því, að umsýsla landbrh. og landbrn. yfir þessum bújörðum ríkisins verði sú sama og hún er. Landbrn. mun því í öllum tilvikum, þó svo að þetta frv. verði samþykkt, hafa síðasta orðið um alla nýtingu á þessum bújörðum. Þar yrði engu breytt.

Varðandi upplýsingarnar um þær jarðeignir í eigu ríkisins, sem jarðadeild landbrn. fer með, þá fagna ég því, sem kom fram hjá hæstv. landbrh., að nú er verið að semja skrá um þessar eignir sem hæstv. ráðh. segir að sé endurskoðuð skrá sem samin hafi verið árið 1978. Það er rétt hjá hæstv. landbrh., að árið 1978 spurðist einn þm. Alþfl., Gunnlaugur Stefánsson, fyrir um það, hvaða jarðeignir væri hér um að tefla, hverjir hefðu þær á leigu og hvað þeir greiddu fyrir þessar jarðeignir. Það má vel vera að undirbúið hafi verið svar við þessari fsp. í rn., en það kom aldrei fram á Alþingi. Ég hef leitað sérstaklega að því í skjalasafni, hvort lögð hafi verið fram slík skýrsla eða svar við þessari fsp. Það var ekki gert. Hins vegar má vel vera, mér er ókunnugt um það, að svarið hafi verið undirbúið. Það er ekki meira en um það bil ein vika síðan ég átti viðræður við einn af yfirskoðunarmönnum ríkisreiknings, sem er líka þm. í þessari deild, og hann upplýsti mig um að þeir yfirskoðunarmenn ríkisreiknings hefðu þráfaldlega á undanförnum mánuðum óskað eftir einmitt þessum upplýsingum og hefði gengið mjög erfiðlega að fá skýr svör. Þessi skoðunarmaður ríkisreiknings, sem er þm. í þessari deild, sagði mér einnig að þeir hefðu tekið saman höndum um það, yfir skoðunarmennirnir, að hætta ekki fyrr en öll svörin lægju á borðinu. En ég fagna því sem sé mjög, að hæstv. landbrh. er að láta ganga frá þessu, því að ég hef sjálfur persónulega reynslu af því, að það hefur verið mjög erfitt að fá upplýsingar um þessi mál í landbrn.

Ég vil aðeins ítreka það sem hefur komið fram hjá mér áður, að það er aðeins eitt landssvæði sem er í sérstakri umsjá Alþingis. Það eru Þingvellir. Sú ákvörðun var tekin af umsjármönnum þessa þjóðgarðs fyrir nokkuð mörgum árum að veita ekki heimildir til byggingar sumarbústaða í þjóðgarðinum eða við Þingvallavatn, á því svæði sem umsjá Þingvallanefndar náði til. Um er að ræða tvær ríkisjarðir sem eiga þarna lönd að, Brúsastaði og Kárastaði. Okkur í Þingvallanefnd bárust fregnir af því, að búið væri að gera nýtt byggingarbréf fyrir aðra þessa jörð þar sem ábúanda væri heimilt að leigja út frá sér lönd undir sumarbústaði. Slíkt hefði verið algert brot á þeim reglum sem Þingvallanefnd var áður búin að setja. Við gerðum ítrekaðar tilraunir til að fá að sjá þetta byggingarbréf fyrir jarðnæði, sem ekki mátti byggja nema að höfðu samráði við Þingvallanefnd. Það tók okkur Þingvallanefndarmenn — og þá var formaður Þingvallanefndar sjálfur hæstv. forseti Sþ., Gils Guðmundsson — marga mánuði að fá að sjá þetta bréf.

Það er líka rétt hjá hæstv. landbrh., að það er til lítils að ætla að setja aðeins hluta af fasteignum ríkissjóðs undir sömu stjórn. Auðvitað verða aðrar fasteignir að fylgja þar á eftir. Ég get einnig tekið undir það með hæstv. ráðh., að ég býst við að reglur, sem settar hafa verið í rn. hans um leigur á ríkisjörðum til búskaparnytja, séu fyllilega samræmdar og hafi fylgt samræmdri stefnu á undanförnum árum. Ég er sannfærður um það. En sama máli gegnir ekki með ýmsar aðrar fasteignir ríkissjóðs. Hið opinbera, ríki og sveitarfélög, eru smátt og smátt að verða stærstu fasteignareigendur og eigendur íbúðarhúsnæðis í flestöllum sjávarþorpum og kaupstöðum hringinn í kringum landið. Það eru fjölmargar ríkisstofnanir sem formlega teljast eiga þar íbúðarhúsnæði, bæði einbýlishús og blokkaríbúðir, þótt allt þetta íbúðarhúsnæði sé keypt fyrir fé úr sameiginlegum sjóði þjóðarinnar. Ég leyfi mér að fullyrða að það eru engar reglur til um hvernig þessu húsnæði er ráðstafað. Einn aðili setur reglu um að þetta leigugjald skuli tekið hjá sér. Annar aðili í sama ríkiskerfi setur svo allt aðrar reglur. Það er ekkert samræmi þar á milli. Einnig geta menn verið að afgreiða og fallast á alls konar „norm“, sem í gildi skulu vera um gerð slíks íbúðarhúsnæðis, svo sem hvernig húsnæði eigi að vera úr garði gert til þess að það sé boðlegt læknum eða hjúkrunarfólki. Gilda þar allt aðrar reglur en t. d. þegar verið er að afla húss til nota fyrir kennara eða annað starfsfólk ríkisins.

Auðvitað nær það ekki nokkurri átt, og það er mergurinn málsins, að ekki séu einhvers staðar í ríkiskerfinu handbærar á einum stað allar upplýsingar um hvaða fasteignir— og þá er ég ekki bara að tala um jarðeignir, heldur einnig húseignir í bæjum og þéttbýli, — hvaða fasteignir ríkissjóður á, og það sé enginn einn aðili í ríkiskerfinu sem ætlað er að fylgjast með því, hvernig þessar eignir séu nýttar, né heldur sé neinn aðili í ríkiskerfinu, sem á að bera ábyrgð á því að setja samræmdar reglur um nýtingu þeirra, né heldur hafi til þessa tekist að fá upplýsingar um hverjir nýta t. d. jarðnæði ríkissjóðs, hvað þeir greiða fyrir og hvort hugsanlegt sé, eins og um hefur verið talað, að ýmislegt af mikilsverðum hlunnindum, sem eiga að fylgja ríkisjörðum, svo sem veiðiréttur og annað, sé látið fyrir kannske lítið fé til sérstakra vildarmanna ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja sem hafi þar aðgang að almannaeign umfram aðra þjóðfélagsþegna án þess að þurfa að greiða fyrir nema brot af því verði sem þeir mundu vera krafðir um ef annar aðili ætti þar í hlut.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Það er rétt h já hæstv. landbrh., að þetta frv. tekur aðeins á hluta þess vandamáls sem verið er að ræða um. En ástæðan fyrir því, að það tekur ekki til víðara sviðs, er einfaldlega sú, að það er ekki hægt með frv. til 1. um breytingu á jarðalögum að gera tillögur um breytingar á öðru en því sem jarðalögin ná yfir. Og jarðalögin ná í þessu sambandi ekki yfir annað en eignaumsýslu með bújörðum ríkissjóðs sem Jarðasjóður hefur keypt. Ef menn ætla að fylgja þessari stefnu, sem ég vil endilega að verði fylgt eftir, — ef menn ætla að fylgja henni eftir með því að aðrar fasteignir ríkissjóðs séu sömuleiðis settar undir eignaumsýslu fjmrn. eða einhvers eins aðila í ríkiskerfinu, þá verður að sjálfsögðu að gera það með breytingum á öðrum lögum og reglugerðum.

Herra forseti. Það er ekkert mál í mínum huga að það þurfi endilega að setja þetta allt saman í umsjá sama aðila, hvort sem það heitir fjmrn., landbrn. eða hvaða nafn menn vilja gefa því. Mergurinn málsins er að settar séu reglur af hálfu ríkissjóðs um það, hvernig eigi að nota þær jarðeignir og þær fasteignir, sem keyptar hafa verið fyrir opinbert fé, og jafnframt að tiltækar séu á einum stað í ríkiskerfinu upplýsingar um það, hverjar þessar fasteignir séu og hvernig þær séu nýttar.