22.03.1982
Neðri deild: 56. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3152 í B-deild Alþingistíðinda. (2747)

242. mál, orlof

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 87 frá 1971, um orlof, en það er 242. mál 104. löggjafarþings. Flm. ásamt mér eru hv. 7. landsk. þm., Halldór Blöndal, og hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson.

Hér er um að ræða tiltölulega mjög litla breytingu á hinum rúmlega áratugsgömlu lögum um orlof. Þessi breyting felur það eitt í sér að viðbót komi við 5. gr. orlofslaganna. Sú viðbót gengur út á það, að á tímabilinu annars vegar frá 2. maí og til 31. maí á ári hverju og hins vegar á tímabilinu 1. sept. til 15. sept., þ.e. bæði í upphafi og í enda orlofstímans, geti atvinnurekandi ekki ákveðið orlof launþega nema sérstakt samþykki hans komi til.

Svo sem kunnugt er voru núgildandi orlofslög sett árið 1971. Má vera að ýmsa þætti þar sé nú orðið tímabært að endurskoða. Það er alveg ljóst, að á mörgum vinnustöðum og einkum á vinnustöðum af stærri gerðinni háttar svo að sumarleyfi starfsfólks eru skipulögð yfirleitt með löngum fyrirvara. Það segir sig auðvitað sjálft að það veldur launafólki oft miklum óþægindum ef það er nauðbeygt til að taka sumarleyfi — það skal tekið fram að það á einkum við um fyrri hluta þessa tímabils — í maímánuði, þ.e. áður en hinn eiginlegi sumarleyfatími er hafinn.

Ég vil taka það fram, að við samantekt þessa frv. til laga hef ég haft samband við allmarga forustumenn í launþegasamtökum eða menn sem þar þekkja mjög gjörla til. Menn eru sammála um að í miðlungs- og þaðan af smærri fyrirtækjum sé þetta alls ekkert vandamál, þ.e. að orlof sé ákveðið í góðum samvinnuanda atvinnurekandans og launamannsins, í slíkum fyrirtækjum sé slíkt ekki vandamál og í raun og veru til fyrirmyndar. En það er hins vegar verra í hinum stærri fyrirtækjum. Þar gerist það, að menn eru skikkaðir til að taka sumarleyfi á tíma sem þeir í raun og veru hvorki vilja né raunverulega geta notað sumarleyfið eins og sumarsleyfi eru hugsuð. Þetta frv. til laga er flutt til að freista þess að ná fram leiðréttingu á þessu.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn„ og ég vænti þess, að gott samkomulag geti orðið um þetta litla mál.