23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2764)

213. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans. Vissulega hefur húsnæðismálastjórn gert margt vel í þessum málum. En ég get tekið undir það sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl„ að mikið vantar á enn að fullnægjandi sé. Það verður að leggja enn þá meiri og þyngri áherslu einmitt á þennan þátt í sambandi við húsnæðismálin sem gert er ráð fyrir í lögum um Húsnæðisstofnunina að hún eigi að annast. Við hljótum öll að vera sammála um að tækninýjungar til að lækka byggingarkostnað eru það sem hefur mest áhrif, um leið og við hljótum að leita að nýjungum til þess að nýta betur innlend byggingarefni sem við hljótum að-vera sammála um að séu næg til í okkar landi. Ekki síst er vert að minna á það nú þegar miklar umræður fara fram um steinullarverksmiðju o.s.frv. Þá hljótum við að leiða hugann að því, að við eigum ýmsa ónýtta möguleika í landinu sjálfu sem við þurfum að taka til athugunar. Ég tel að bæði Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og húsnæðismálastjórn þurfi að gera betur í þessum málum.

Ég vil minna á að hér var samþykki þál. fyrir nokkru um að gerðar yrðu tilraunir til þess að byggja hús úr innlendu byggingarefni, svokallaðri léttsteypu. Þetta er mál sem þarf að sinna, en ég hef ekki orðið var við að það væri gert.

Ég vil koma því hér að, að ég tel að Sturla Einarsson byggingameistari, sem hefur komið fram með nýja aðferð við uppsteypu húsa í sambandi við burðarveggi og einangrun, hafi alls ekki fengið þá fyrirgreiðslu, sem hann þyrfti að fá, og jafnvel neyðst til að setja eigið íbúðarhús að veði eða í sölu til þess að standa undir þeim kostnaði sem hann hefur þegar orðið fyrir. Svo er einnig um Magnús Thorvaldsson blikksmið í Borgarnesi.

Ég hrökk örlítið við ekki alls fyrir löngu þegar ég rakst á grein í Dagblaðinu eftir formann húsnæðismálastjórnar, Ólaf Jónsson, þar sem hann er að gera grein fyrir starfsemi stofnunarinnar. Hann telur að tækninýjungar og rannsóknir í byggingariðnaði séu fyrirferðarmikill þáttur í þessari stofnun, þessum síðasttalda lið hafi þó verið allt of lítið sinnt á síðustu árum og þurfi þar að verða breyting á. Svo segir hann: „Í fjárhagsáætlun stofnunarinnar á þessu ári“ — þetta var fyrir s.l. áramót — „eru ætlaðar 2 millj. kr. til rannsóknastarfa og tækninýjunga, en ekki eru horfur á að unnt verði að nóta það fjármagn vegna skorts á rannsóknaraðstöðu og starfsmönnum með sérþekkingu á verkefninu.“ Þetta finnst mér vera athyglisverð yfirlýsing og benda til þess, að nauðsynlegt sé að taka þennan þátt í stofnuninni sérstaklega til meðferðar, því að það er sorglegt ef stofnunin getur ekki eytt þeim peningum sem hún hefur yfir að ráða til að sinna þessu nauðsynlega verkefni.

Hins vegar var önnur frétt í Morgunblaðinu sem ástæða er til að gleðjast yfir. Það er viðtal við Edgar Guðmundsson verkfræðing. Hann hefur ásamt fleirum beitt sér fyrir verksmiðjuframleiðslu á vissri byggingarnýjung og er að kynna hana og búin að fá einkaleyfi víðs vegar um lönd fyrir þessari nýjung. Þar stendur:

„Í öllu þessu höfum við fengið afburðaþjónustu hér innanlands. Við hófum fengið alla þá fyrirgreiðslu sem við höfum þurft. Við höfum fengið afburðaþjónustu hjá Iðnþróunarsjóði, Landsbankanum, einnig hjá Norræna iðnþróunarsjóðnum, og við höfum fengið sérstaka fyrirgreiðslu hjá iðnaðarráðuneyti og Húsnæðisstofnun ríkisins.“

Þarna kveður við nýjan tón og er ekki nema gott um það að segja og undirstrika það, að í þessu tilfelli virðist hafa verið sinnt því hlutverki, sem Húsnæðisstofnunin hefur og aðrar lánastofnanir, að taka rösklega undir slíkar nýjungar og tilraunir. Það er einmitt það sem við erum að leita eftir. Ég vænti þess, að þessi litla fsp. verði til þess, að Húsnæðisstofnunin sinni þessu enn betur en gert hefur verið og ekki þurfi að lesa greinar um það í blöðum að hún hafi ekki nýtt það fjármagn sem hún hefur yfir að ráða í þessu skyni.