23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2774)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Það var stórkostlegt að hlusta á hæstv. ráðh. flytja þessa ræðu. Þetta er sá hæstv. ráðh. sem stendur að því að leggja nýja skatta á bankakerfið. Hver greiðir þá að lokum? Þetta er sá hæstv. ráðh. sem segir í skýrslu til Alþingis að nú eigi innlenda bankakerfið að taka meiri þátt í innlendum framkvæmdum til að spara megi erlend lán. Þetta er sá hæstv. ráðh. sem hefur staðið að því að hækka vexti af spariskírteinum ríkissjóðs þannig að peningarnir streyma úr bankakerfinu til kaupa á slíkum bréfum, fjármagnið sogast til ríkisins. Og þetta er sá hæstv. ráðh. sem í fyrra lét gera samninga við bankakerfið og sparisjóðina um að þeir tækju þátt í að fjármagna það sem á vantaði í húsnæðiskerfinu. Í nýjustu yfirlýsingu ríkisstj., í skýrslu um efnahagsmál, kemur fram að nú eigi að breyta þeim lánum í ný lán. Og þá spyr ég: Hvað er eftir fyrir hina nýju húsbyggjendur sem þurfa að koma í þetta sama bankakerfi sem búið er að ræna og rupla af núv. hæstv. ríkisstj.? Hvað um þessa nýju húsbyggjendur? Þessu svaraði hæstv. ráðh. ekki. Hann kaus að fara fram hjá þessu atriði í ræðu sinni vegna þess að þar stendur hann á gati. Þar getur hann ekki svarað. Þar er hans málstaður slæmur.