23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3169 í B-deild Alþingistíðinda. (2775)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Mér þykir hæstv. félmrh. vera kokhraustur um ágæti sitt sem yfirmanns húsnæðismála í landinu sömu dagana og stjórn verkamannabústaða hér í Reykjavík situr sveitt yfir því að úthluta íbúðum. Ég hygg að það sé rétt hjá mér, að það sæki fjórum sinnum fleiri um íbúðir en möguleiki er að veita fyrirgreiðslu. Ég veit ekki eftir hvaða reglum hæstv. félmrh. hugsar sér að stjórnin fari, og væri skemmtilegt að fá um það upplýsingar hjá honum núna hverjir eigi að sitja fyrir eða hvaða hugmyndir hann hefur um hvað bíður þeirra rétt um 1000 manns sem enga úrlausn fá núna í sambandi við úthlutun verkamannabústaða. Hvenær mega þeir vænta þess að fá íbúðir? Getur hæstv. félmrh. svarað því, hann sem svo mjög ágætti dugnað sinn í þessum málum þegar hann settist í stólinn?

Svo kemur hann hér upp og segir að aðalvandi okkar í húsnæðismálunum sé sá, að hið almenna bankakerfi geti ekki lánað. Segir ekki hæstv. landbrh. að aðalvandamál Bjargráðasjóðs sé það í sambandi við harðindin fyrir norðan og hallæri bændanna þar, að hið almenna bankakerfi vilji ekki lána? Hvað segir hæstv. sjútvrh. þegar hann er spurður að því, hvernig togararnir eigi að ganga? Hann segir að hið almenna bankakerfi eigi að standa undir hallarekstrinum. Hvað segir iðnrh. þegar talað er um SÍS-verksmiðjurnar á Akureyri og þær eigi að ganga? Er það þá ekki hið almenna bankakerfi sem á að standa undir öllum hallanum? Og á sama tíma og bankakerfið á að standa undir æ þyngri kröfum vegna óstjórnar þessarar ríkisstj. eru hæstv. ráðherrar að reyna að afsaka sig með því, að bankakerfið geti ekki spýtt út peningum hér og þar eftir þeirra geðþótta. Ríkisstjórninni væri nær að reyna að tryggja einhvern grundvöll atvinnulífsins og gera mögulegt að einhvers staðar myndist hagnaður í þessu þjóðfélagi þannig að annaðhvort fólkið sjálft eða atvinnureksturinn eigi eitthvað afgangs til að leggja inn í bankana. En auðvitað getur fólk þetta ekki, af því að skattarnir hafa þyngst, álögurnar hafa aukist og óstjórnin magnast, báknið þanist út.