23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3171 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þau orð sem hér hafa fallið um peningamál og bankana.

Ég hef nýlega fengið í hendur skýrslu frá Seðlabanka Íslands um framvindu peningamála á árinu 1981. Samkv. þeirri skýrslu kemur fram að sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hækkaði meðaltal heildarinnlána um 3.5% á árinu 1981 og náði hærra en það hefur áður gert síðan 1973. Það kemur einnig fram í þessari skýrslu, að á árinu í heild nam aukning útlána 69% og innlána 71%. Lausafjárstaðan féll nokkuð frá apríl til nóvembermánaðar, eða um 158 millj., og í árslok var hún orðin 259 millj. kr. samanborið við 319 millj. í ársbyrjun. Ýmislegt fleira kemur fram í þessari skýrslu, en þetta eru kannske þau atriði sem ástæða er til að nefna að gefnu tilefni.

Til viðbótar vil ég upplýsa það, að ég átti í viðræðum við Seðlabankann og Landsbankann og bankakerfið um möguleika á að bankarnir tækju frekari þátt í fjármögnun húsnæðismála. Þeim viðræðum er ekki að fullu lokið, en það hefur komið fram, að bankakerfið lánar til húsnæðismála um það bil 100 milljarða gkr. þegar allt er lagt saman, bankarnir og sparisjóðirnir. Þetta eru ekki skipulagsbundin lán, heldur er þetta lánastarfsemi sem fer fram í bankakerfinu í sambandi við húsnæðismálin, sjálfsagt langsamlega mest til að brúa bil sem fólk þarf að brúa í sambandi við húsbyggingar, og sumt meira og minna varanleg lán. Í fyrra gerðist það, að bankarnir skuldbreyttu, eins og kunnugt er, lausaskuldum húsbyggjenda í nokkrum mæli. Eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. hafa þeir tekið vel í að athuga slík mál ef þau berast þeim, en hafa að vísu bent á að það sé örðugt að hefja allsherjarskuldbreytingu ár eftir ár því að það muni hafa í för með sér vaxandi vanskil manna.