23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3172 í B-deild Alþingistíðinda. (2780)

226. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér þykir hæstv. félmrh. vera kokhraustur hér í umr. En það virðist svo með suma einstaklinga að þeir kunni ekki að fyrirverða sig, og það á við um hæstv. ráðh.

Hann vék hér að því, að sparifjáraukning hefði orðið mest í tíð núv. ríkisstj., og mátti á honum skilja að það væri vegna aðildar Alþb. að ríkisstj. Ekki er þetta svo. Þetta hefur gerst þrátt fyrir að Alþb. hefur beitt sér gegn þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið til að fá sparifjáreigendur í landinu til að ávaxta fé sitt með eðlilegum hætti. Mönnum er öllum ljóst að Alþb. hefur barist gegn vaxtahækkun á innlánsfé. Það er því afskaplega sérkennilegt að verða vitni að því, að hæstv. ráðh., formaður Alþb., skuli koma upp í ræðustól á Alþingi og í raun og veru hæla sér og sínum flokki fyrir það sem vel hefur tekist, þrátt fyrir að sá flokkur hefur barist gegn því og það lengi. En svona virðist málum komið í íslenskri pólitík. (Gripið fram í.) Ég var ekki á Alþingi, því miður, þegar þetta gerðist. Ég er að tala um þá stefnu Alþfl. sem hafði aukin sparnað í för með sér. Hæstv. ráðh. barðist gegn henni alla tíð og hefur gert enn, en kemur svo hér upp og hælir sér af því, hvernig hún hefur reynst.

En þetta er ekki einsdæmi. Það er öllum ljóst, sem til þekkja og vilja þekkja, að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hefur það gerst í byggingarmálum, í Byggingarsjóði ríkisins, í verkamannabústaðakerfinu, að það fer minna raunverulegt fjármagn til þessara framkvæmda en verið hefur. Og enn skal hert á þessari ól. Ég veit ekki betur en uppi séu hugmyndir í ríkisstjórnarflokkunum um að skerða enn frekar framlög til verkamannabústaðakerfisins með afgreiðslu lánsfjárlaga hér á Alþingi, væntanlega á næstu dögum. Það er einn sjóðurinn, verkamannabústaðasjóðurinn, sem á að skerða enn. Svona mun haldið áfram þangað til rjúkandi rústir eru í þessum þætti í stjórn efnahagsmála eins og í öðrum þáttum þjóðmála í tíð núv. ríkisstj. En vei yður, hræsnari! má segja við hæstv. félmrh. þegar hann kemur hér upp og ætlar að hæla sér af því hvernig hefur þróast í innlánsaukningu peningastofnana í landinu.