23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3178 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir svör hans þó að mér þyki þau duga skammt við þeim meginatriðum sem ég hef viljað fá svör við.

Ég vil upplýsa það strax, að ég verð að hryggja aðstandendur bókasafns Seðlabankans með því, að ég mun ekki senda þeim eintök af mínum bókum vegna þess að þær eru skrifaðar til að verða lesnar. Ég gæfi þá frekar aukaeintök til annarra bókasafna þar sem þjóðin kemur og les þær bækur sem hún á.

Sannleikurinn er þó sá, að margt af þeim upplýsingum, sem fram komu, var harla áhugavert. Það kemur fram að við getum ekki fengið að vita hvað þessi stofnun kostar, hvað hefur verið miklu fé í hana eytt. Það er kannske ekki að furða. Þegar lesin eru lög um Seðlabanka Íslands er fyrst sagt í VII. kafla að yfirstjórn Seðlabankans sé í höndum ráðh. þess, sem fer með bankamál, og bankaráðs, en síðan segir: „bankastjórn ber ábyrgð á rekstri Seðlabankans og fer með ákvörðunarvald í öllum málefnum hans sem ekki eru öðrum falin með lögum þessum,“ segir hér. Síðan segir um arðinn af starfsemi Seðlabankans, með leyfi forseta:

„Af tekjum ársins skal greiða allan rekstrarkostnað svo og tap sem bankinn hefur orðið fyrir á árinu. — Af tekjuafgangi þeim, sem þá er eftir, skal greiða 5% arð af stofnfé bankans, enda nemi arðgreiðsla aldrei hærri upphæð en helmingi tekjuafgangsins. Bankaráð getur þó eftir tillögu bankastjórnar ákveðið hærri arðgreiðslu, ef aðstæður leyfa. Þeim hluta tekjuafgangsins, sem ekki er greiddur út sem arður, skal bankaráð ráðstafa til varasjóða bankans og deilda hans eftir tillögu bankastjórnarinnar.“

Ég hlýt að halda að m.a. sé þetta fé notað til að reka þetta myndarlega bókasafn, sem því miður er ekki opið eins og segir í Tímanum í viðtali við formann bankaráðs, hv. þm. Halldór Ásgrímsson. Þar er fyrirsögnin: „Þetta er ekki lokað safn.“ Þetta er lokað safn, herra formaður. Hér kom að máli við mig maður áður en þingfundur hófst sem hafði reynt að komast inn í safnið, en var sagt að hann gæti kannske hringt eftir helgi. Það kalla ég lokað bókasafn, herra formaður.

En það er lítill tími hér. Meginspurningarnar má taka saman í örfá orð: Hverjir annast verðveislu bóka á Íslandi lögum samkvæmt? Er það Seðlabanki Íslands? Hér var mikil umr. um húsnæðismál áðan og hæstv. félmrh. kvartaði yfir því að bankarnir vildu lítið til þeirra leggja. Það væri kannske ráð að leggja eitthvað af þessu fé til húsnæðisbygginga fyrir almenning en ekki í pjattbókasafn, sem enginn veit fyrir hvern er. Ég hef talað við æðimarga starfsmenn Landsbanka og Seðlabanka sem hafa aldrei stigið fæti inn í þetta safn, og ég efast um að þeir fengju að koma þar þó þeir færu þangað.

Hér er um að ræða heila stofnun sem hefur slíkt húsnæði að einn stór salur þar stendur galtómur. Þar stendur að vísu eitt langborð með heldur nöturlegum stólum í kring. Ég spurði hvað ætti að gera við þennan sal? — Jú, hann á að hýsa bókasafnið ef það stækkar, en þangað til er hann fundarsalur bygginganefndar húsbyggingar Seðlabankans. Ég gæti rekið sem borgarfulltrúi í Reykjavík tvö dagheimili í þessum sal. Ég vil ekki láta fara svona með peninga þjóðarinnar. Það hefur enginn hér inni á hinu háa Alþingi gefið bankaráði Seðlabankans umboð til þess. (Forseti hringir.) Augnablik forseti. Ég skal rétt ljúka máli mínu.

Út er gefin samskrá Landsbókasafns, Háskólabókasafns og 10–11 annarra bókasafna þar sem eiga að vera upplýsingar um allar bækur sem til eru í opinberum bókasöfnum. Seðlabanki Íslands hirðir ekki um að taka þátt í þessari samskrá. Þegar beðið var um það kom það, sem keypt hafði verið 1980 af erlendum tímaritum og er niðri í Austurstræti 11. þ.e. eitthvert tímaritarusl sem starfsfólkinu er ætlað að lesa.

Það er engar upplýsingar hægt að fá um hvað í þessu safni er. Bókavörður taldi að ekki væri þar undir 14–15 þús. bindum, en inni í Dugguvogi 9–11 eru bækur, sem ekki eru komnar í þetta safn, ásamt geymslu Háskólabókasafns.

Í Finnlandi t.d. hygg ég að arður af seðlabanka renni að hluta beint í ríkissjóð. Við getum hæglega notað þessa peninga, ef við fengjum að ráða hvað við gerum við þá.

Menn segja: Þetta er opið fræðimönnum. Vill ekki formaður bankaráðs Seðlabankans, sem ætlar að standa hér upp, sé ég er, fræða mig um hvernig Seðlabankinn skilgreinir orðið fræðimaður. Það væri fróðlegt að vita.

Mig langar líka að vita hvort þeir fimm starfsmenn, sem vinna við bókasafn Seðlabankans. hafa verið ráðnir til þeirra starfa gegnum ráðninganefnd ríkisins. Það væri fróðlegt að vita.

Sannleikurinn er sá, að upplýsingarnar, sem koma frá bönkunum, eru kannske ekki ósannar, en þær eru ekki nema hálfur sannleikur. Þarna er stofnun, sem ekkert okkar hefur hugmynd um, nema örfáar manneskjur sem hafa kynnt sér málið, og kostar hundruð gamalla milljóna. Þarna eru dýrgripir fyrir guð má vita hve mikið fé, enda er augljóst að þarna er lagt kapp á að ná í sjaldgæfa gripi. Mér var raunar sagt í leiðinni, til þess að ég vissi alveg hvar ég stæði, að félagi Karl Marx, sem var þó hagfræðingur hvað sem öðru líður, yrði ekki bundinn í skinn því að safnmenn væru á móti honum.