23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3181 í B-deild Alþingistíðinda. (2787)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég var satt að segja hálfundrandi á þeim pjatttón sem var í ræðu hv. fyrirspyrjanda, hv. 8. landsk. þm., sem hefur þó gefið sig út fyrir að vera menningarsnobb. Sannleikurinn er auðvitað sá, að það er til mikils vansa fyrir okkur, hversu margvíslegum menningarverðmætum er litill gaumur gefinn í þessu þjóðfélagi. Á undanförnum áratugum hefur ómetanlegur skaði verið unninn vegna hirðuleysis ekki aðeins ríkisvaldsins, heldur einnig einstakra bankamanna, kaupmanna, kaupmannasamtaka, verkalýðsfélaga og þar fram eftir götunum.

Hins vegar hefur það orðið gifta okkar, að óvenjulegur hirðumaður hefur orðið bókavörður í bókasafni Seðlabankans sem ekkert lætur framhjá sér fara og er vakinn og sofinn í því starfi að gera sem mest og best úr þeim fjármunum sem hann fær til að byggja þetta safn upp. Hv. þm. var að reyna að gera litið úr því þó stjórn Seðlabankans og Landsbankans sýndi þessum manni traust, en það er einungis eðlileg afleiðing af því, að maðurinn hefur reynst starfi sínu vaxinn.

Ég vil benda á að það er ekki aðeins að bankarnir hafi komið sér upp myndarlegu bókasafni og safni handrita, heldur kaupa þeir á ári hverju töluvert mikið af málverkum, svo að ég nefni dæmi. Á hverju ári getum við séð merkilegar málverkasýningar sem ríkisbankarnir halda og raunar aðrir bankar á sínum listaverkum, og hefur ekki verið talið eftir hér á Alþingi. Þessi hreyfing er ekki einungis þarna og tek ég undir það með hv. 5. þm. Vestf. Það er gáman að vita til þess, að til skuli vera stofnanir í þjóðfélaginu sem eigi fé aflögu til menningarstarfsemi. Ég vil þar einnig nefna Alþýðusamband Íslands, en það hefur orðið ríkinu fyrirmynd að því, hvernig reka eigi listasafn, svo að ég taki annað dæmi, færa það út til fólksins og á vinnustaðina. Á hinn bóginn er svo vesældarlega búið að Listasafninu að það hefur engin starfsskilyrði til þess að rísa undir nafni, hvað þá meir.