23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3183 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

234. mál, bókasafn Landsbankans og Seðlabankans

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég vil þakka þeim hv. alþm. sem tekið hafa til máls í þessari umr. Ég vísa því beint heim til föðurhúsanna að hér hafi farið fram eitthvert last um starfsmenn bókasafns Seðlabankans. Það er með öllu ósatt, og var skýrt tekið fram að þeir inntu sitt starf af hendi af hinni mestu prýði. Hins vegar hefur því ekki verið svarað, hvort ráðning þeirra hafi farið fram gegnum ráðninganefnd ríkisins.

Ég vil taka undir það sem hv. þm. Albert Guðmundsson, 3. þm. Reykv., sagði áðan. Það er mál til komið að lögin um Seðlabanka Íslands verði endurskoðuð. Það er mál til komið að bókasafn Seðlabankans láti frá sér fara ársskýrslu eins og aðrar opinberar stofnanir, svo að hægt sé að sjá hvað mikið fé er í þetta veitt, jafnframt því sem gefin verði út bókaskrá.

Ef hver einasta ríkisstofnun í landinu, þar sem fagurkerar kunna að sitja við stjórn, getur freistast til að stofna söfn um hitt og þetta, þá veit ég ekki hvar það gæti endað. Mér verður hugsað til Framkvæmdastofnunar ríkisins í glæsilegu húsi sem reka mætti í hvaða deild bankanna sem er, flóðlýstu til yndis og ánægju vegfarendum. Ég ætla að vona að sá ágæti maður, framkvæmdastjóri hennar sem er yfirlýstur unnandi fagurbókmennta, taki sig ekki til og verði gripinn af þeirri áráttu að safna dýrmætum bókum. Það er ekkert svar að hér sé verið að amast við bókasöfnun. Hér er verið að amast við því, að stofnanir eins og Seðlabankinn fari sínu fram, fram hjá öllum, ráðskist með fé landsmanna án þess að spyrja kóng eða prest. Því hlýt ég að mótmæla sem alþm. hér á Alþingi. Við það verður ekki unað. Stofnanir eiga ekki að fá að ráðskast með fé á þennan hátt. Ég held að margir væru mér sammála um að stofnun eins og Framkvæmdastofnun ríkisins mætti að skaðlausu leggja niður. Enginn mundi nokkru sinni sakna hennar. Síðan á að fara að byggja hér annað eins stórhýsi eða meira utan um Seðlabanka Íslands. Það skal tekið fram, að ég spurði hvort bókasafnið flytti þá í hina nýju byggingu. Svarið var nei.