23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (2796)

360. mál, fjáröflun fyrir Bjargráðasjóð

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að umr. verði um mál af þessu tagi eins og það liggur fyrir núna. Við höfum átt því að venjast, að horft hafi til vandræða þegar Bjargráðasjóður hefur þurft að hlaupa undir bagga vegna skaða sem orðið hefur. Er skemmst að minnast þess, að á s.l. ári, þegar foktjónin urðu sem mest 17. febr., stóð lengi á því í Alþingi að útvegað væri fjármagn til að koma þar til hjálpar, því að tryggingar voru ekki fyrir hendi í þessu tilfelli.

Fjármögnun sjóðsins, eins og hann hefur verið upp byggður, er greinilega orðin ónóg. Er því mikil nauðsyn að taka það kerfi allt til endurskoðunar sem við getum kallað að sé eins konar tryggingarkerfi fyrir ekki einungis landbúnaðinn, heldur landsbyggðina á ýmsum sviðum.

Ég minntist áðan á foktjónið sem varð í fyrravetur. Það má nefna harðærið í vor og sumar sem hér hefur verið minnst á. Það má líka minna á óhöpp sem hafa orðið viðvíkjandi uppskeru, uppskeruóhöpp getur maður kallað það, bæði kartöflurnar í Eyjafirðinum, sem fóru undir snjó, og mikið um að gulrófuakrar hafi orðið ónýtir á Suðurlandi.

Ég vil því spyrja hæstv. landbrh. hvort ekki væri á áætlun í ráðuneyti hans að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Mér er óhætt að greina frá því, að á Búnaðarþingi var þetta mál mikið til umræðu og þar var hvatt til þess að raunar tekin ákvörðun um að beita sér fyrir því, að endurskoðun yrði gerð á þessum tryggingarmálum. Hefði mátt vænta að hún mundi tryggja framgang málsins ef hæstv. landbrh. hefði talið ástæðu til að leggja hönd að því verki eða styðja að því.