23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (2800)

235. mál, menntun fangavarða

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á Alþingi var s.l. vor samþykkt ályktun um nefndarskipan í menntunarmálum fangavarða. Þetta var gert eftir miklar og fróðlegar umr. hér á Alþingi um úrbætur í þeim málum og það sem brýnast mætti þar telja til úrbóta.

Viðbrögð ráðh. voru mjög lofsverð og skjót og nefndarstörf hygg ég að hafi verið mjög til fyrirmyndar um flýti og góð vinnubrögð. Slíkt ber sannarlega að þakka og meta, enda ekki oft sem það kemur fyrir, að nefndir skili áliti áður en maður á von á.

Ég taldi rétt að hér á Alþingi yrði gerð grein fyrir því af hæstv. dómsmrh., hverjar eru helstu niðurstöðurnar í nefndarálitinu, þó að ég sjái raunar að því hefur verið dreift á borð þm. sem skýrslu, ágætu plaggi sem ég er með í höndunum og vissulega ágætt að fá í hendur, svo að allir þm. geti gert sér grein fyrir hvaða tillögur nefndin hefur gert.

Mér finnst hins vegar ástæða til að kynna hinar helstu niðurstöður fyrir Alþingi og þá um leið almenningi sem fær þá af því gleggri tíðindi, hvað þessi skýrsla hefur inni að halda og hvað sé til ráða.

Í öðru lagi er fullljóst að ráðuneytið þarf við ýmsu að bregðast í ljósi þessara niðurstaðna. Ég sé raunar fyrstu viðbrögðin hér í dag í frv. um ákveðin atriði varðandi fangelsi og vinnuhæli, starfslið þessara stofnana. En mörg viðamikil mál bíða úrlausnar. Það sést best við að lesa þessa skýrslu og líta á það námsefni og það námsfyrirkomulag sem þar er gert ráð fyrir. Því er spurt á þskj. 435: Hverjar eru helstu niðurstöður úr áliti þeirrar nefndar sem lauk störfum í jan. s.l. og fjallaði um menntun fangavarða? Í öðru lagi: Hvað hyggst ráðuneytið gera í framhaldi af þessu ítarlega nefndaráliti?