23.03.1982
Sameinað þing: 67. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3190 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

235. mál, menntun fangavarða

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Í dag var skýrslu nefndar til að endurskoða menntun fangavarða dreift um borð hv. alþm. Skýrsla þessi hefur og verið kynnt ríkisstj. fyrir skömmu. Hefur hún væntanlega að geyma fullnægjandi svör við spurningum hv. 2. þm. Austurl. Ég mun þó í fáum orðum svara fsp. hans á þskj. 435.

1. Hverjar eru helstu niðurstöður úr áliti þeirrar nefndar sem lauk störfum í jan. s.l. og fjallaði um menntun fangavarða?

Svar: Umrædd nefnd skilaði áliti 12. jan. s.l. Tillögur hennar varðandi menntun fangavarða eru í stuttu máli þessar:

1. Varðandi grunnmenntun leggur nefndin til að gera skuli þá kröfu til þeirra, sem sækja um fangavarðarstarf, að þeir hafi lokið grunnskólaprófi og tveggja ára viðbótarnámi eða menntun eða starfsþjálfun sem meta má að jöfnu.

2. Nefndin leggur til að þeir, sem ráðnir eru til fangavarðarstarfa, sæki þriggja vikna fornámskeið áður en þeir hefji starf. Á því námskeiði séu þeim kynntir ýmsir þættir í starfi fangavarða og þær reglur sem í fangelsi gilda.

3. Nefndin leggur til að úr hópi þeirra, sem slíku fornámskeiði ljúka og hafa síðan starfað við afleysingar á orlofstíma, séu árlega valdir 6–8 menn í námsstöður sem þeir gegni í eitt ár. Að þeim tíma liðnum eigi þeir kost á að sækja eins vetrar námskeið, er standi frá því í október þar til í apríl, 25 vikur eða samtals 750 kennslustundir. Á því námskeiði verið kennd tungumál, fangelsisfræði, afbrotafræði, samfélagsfræði, heilsufræði, hvers konar líkamsrækt og sjálfsvarnartækni og ýmislegt fleira sem að gagni er talið koma í starfi fangavarða. Þeir, sem námskeiðinu ljúka teljast fullmenntaðir fangaverðir. Meðan þeir sækja námskeiðið fá þeir full fangavarðarlaun.

4. Nefndin leggur til að þeir fangaverðir, sem þegar eru í starfi, eigi kost á að sækja framhaldsnámskeið. Árlega verði fjórum fangavörðum heimilað að sækja námskeiðið.

5. Nefndin gerði kostnaðaráætlun um framkvæmd tillagnanna og hljóðar sú áætlun upp á 1.4 millj. kr. á ári miðað við verðlag í des. s.l.

2. Hvað hyggst ráðuneytið gera í framhaldi af þessu ítarlega nefndaráliti?

Svar: Í fyrsta lagi hyggst ráðuneytið leita eftir lagaheimild til þess að stofna til slíks námskeiðahalds með því að bera fram frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og vinnuhæli og ef slík lagaheimild fæst að leita eftir nauðsynlegum fjárveitingum til að stofna til námskeiðanna.

Því má svo loks bæta við, að frv. af þessu tagi, frv. til laga um breytingu á lögum um fangelsi og vinnuhæli, nr. 38 frá 24. apríl 1973, hefur verið dreift á borð hv. alþm. í dag.