23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

Umræður utan dagskrár

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Vestf„ leiðarljós stjórnarandstöðu Sjálfstfl. í orkumálum, hefur látið það ljós skína hér úr ræðustól og með málflutningi sem oft heyrist frá honum þegar hann tekur til máls um orkumál og atriði þeim skyld. Ég skal reyna, þrátt fyrir það að hans fyrirspurnir væru reifaðar mjög í þoku og leiðarljósið væri þoku umvafið, að veita honum úrlausn þó að ég geri mér enga von um að hann telji það fullnægjandi frekar en það sem okkur ber á milli í sambandi við orkumál.

Hv. þm, byrjar á að gefa sér forsendur og spyrja síðan. Og annað atriði, sem hann lætur koma fram í máli sínu, er að honum sé alveg sérstaklega umhugað um verkefni og hlutverk stjórnar Orkustofnunar, en hann gagnrýndi mig mjög harðlega fyrir tæpu ári fyrir að ég skyldi hafa sett hana á laggirnar. Nú er þessum hv. þm. mjög í mun að hún hafi hvergi verið sniðgengin í þessu máli.

Það er víða leitað fanga hjá hv. stjórnarandstæðingum þessa daga og þeir reyna mjög að nýta meginmálgagn sitt, Morgunblaðið, í því samhengi. Þannig reiðir hv. 4. þm. Vestf. fram þá staðhæfingu sem hann hefur úr Morgunblaðinu, sem ég efast ekkert um að hann lesi mjög vandlega. Þó virðist ekki hafa nægt honum að hann hafi fengið skýringar af hálfu iðnrn. sem birtar voru í Morgunblaðinu í dag í sambandi við þetta mál. — En forsendan, sem hann sækir sér í Morgunblaðið og það birtist laugardaginn næst liðinn var þess efnis, að rift hefði verið samningum milli Orkustofnunar og Almennu verkfræðistofunnar.

Það er meginatriði í þessu máli, að engum slíkum samningum hefur verið rift fyrir tilstuðlan iðnrn. Það, sem gerðist í þessu máli, var að fimmtudaginn 10. mars óskaði ég eftir því — og raunar degi fyrr, miðvikudaginn 9. mars — að sjá samninga sem þá voru í undirbúningi milli Almennu verkfræðistofunnar og Orkustofnunar. Ég fékk þá fimmtudaginn 10. mars og óskaði þá eftir því, kom þeim tilmælum á framfæri við orkumálastjóra, að dokað yrði við með framkvæmd samninganna á meðan litið yrði yfir þá í iðnrn. (GeirH: Var samningsgerðin í undirbúningi þá?) Samningurinn var undirritaður þegar ég fékk hann í hendur fimmtudaginn 10. mars. (GeirH: Ráðh. sagði áðan að hann hefði verið í undirbúningi.) Ég óskaði eftir því miðvikudaginn 9. mars að fá að sjá samninga sem þá væru á döfinni í sambandi við þetta mál, og fékk þá í hendur degi síðar. (GeirH: Voru þeir á döfinni eða voru þeir undirritaðir?) Mér þykir leitt ef hv. 1. þm. Reykv. er farinn að tapa heyrn. Ég hef tvívegis svarað því sem hann spyr hér um. (Gripið fram í. — Forseti: Ég bið þm. um að vera ekki með samtöl í þingsal.) Þessir samningar voru síðan til athugunar á vegum iðnrn. um vikutíma og sú athugun lá fyrir fimmtudaginn 18. mars. Um þetta efni gaf iðnrn. út fréttatilkynningu í gær um leið og bréf var sent orkumálastjóra um niðurstöður rn. Vegna þess að í þessa fréttatilkynningu hefur verið vitnað hér af hv. 4. þm. Vestf., en mjög á dreif, ætla ég að leyfa mér að lesa hana eins og hún liggur fyrir, en hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Iðnrn. lauk hinn 18. mars s.l. við athugun á samningum, sem gerðir voru milli Almennu verkfræðistofunnar og Orkustofnunar. Í framhaldi af því hefur iðnrh. falið Orkustofnun að safna saman öllum tiltækum upplýsingum um jarðfræði, grunnvatnsrennsli og mengunarhættu í nágrenni Keflavíkurflugvallar og gera tillögur til iðnrn. um frekari rannsóknir er æskilegar geti talist.

Þann 10. mars s.l. voru gerðir samningar milli Almennu verkfræðistofunnar og Orkustofnunar um jarðfræðirannsóknir í Helguvík í Keflavíkurkaupstað og jarðboranir á Hólmsbergi í Gerðahreppi. Iðnrn. taldi nauðsynlegt að athuga lögmæti þessara samninga í ljósi margháttaðrar óvissu varðandi skipulags- og byggingarmál og fleira í Helguvík og grennd. Hefur gagna verið aflað frá öðrum ráðuneytum og stofnunum og umrædd samningagerð verið metin.

Niðurstöður rn. eru þær, að samningarnir séu haldnir þess háttar annmörkum að gera þurfi á þeim breytingar eða auka við þá áður en Orkustofnun er unnt að hefjast handa um vinnu samkvæmt þeim.

Annmarkar þessir felast m.a. í því, að greiðslur samkv. samningunum skulu fara fram í erlendri mynt, en til þess skortir lagaheimild og er því andstætt lögum nr. 13/1979, um verðlagsmál o.fl., svonefndum Ólafslögum. Áhersla er jafnframt á það lögð af hálfu rn., að opinberar stofnanir gangi ekki á undan öðrum og áskilji sér greiðslur í erlendri mynt í samningum við íslenska aðila.

Þá þykir og rétt að setja í samningana fyrirvara, sem fela það í sér að Almenna verkfræðistofan hf. og viðsemjandi hennar geti ekki byggt neinn rétt á því síðar, að opinber stofnun hefur tekið að sér rannsóknir á hafnarstæði í Helguvík og svæði fyrir olíutanka á Hólmsbergi, í því felist engin fyrirheit af hálfu íslenskra stjórnvalda um að veita leyfi til byggingarframkvæmda síðar.

Einnig er talið rétt að kveða á um það í samningum aðila, að verkkaupa, Almennu verkfræðistofunni hf., sé ljóst að með samningunum er engin afstaða tekin til ágreinings sem uppi er um skipulag á umræddum svæðum.

Jafnframt er lögð sú skylda á Almennu verkfræðistofuna hf. að kynna hinum erlenda viðsemjanda sinum framangreint svo og að afla leyfis réttra umráðamanna til umferðar um rannsóknarsvæðin.

Fallist er á að Orkustofnun byrji vinnu samkvæmt samningunum þegar Almenna verkfræðistofan hefur samþykkt framangreindar breytingar á samningunum og viðauka við þá.

Bréf rn. til Orkustofnunar er dags. 18. mars s.l., en var ekki sent Orkustofnun fyrr en í dag vegna fram kominna krafna og eindaga af hálfu bandaríska sjóhersins, er fram komu s.l. fimmtudag, en eru nú liðnir hjá.

Í tilefni af ásökunum í garð iðnrh. um valdníðslu vegna athugunar á samningum þessum þykir rétt að taka fram að Orkustofnun heyrir stjórnarfarslega undir iðnrh. og hann hefur eftirlitsskyldu með þeirri stofnun eins og öðrum undirstofnunum rn. Framangreind athugun og breytingar á samningunum og viðauka við þá, sem af henni leiðir, sýna að slíkra athugunar var full þörf.“

Hvað snertir stjórn Orkustofnunar starfar hún á ábyrgð iðnrh. og er m.a. falið að vinna að stefnumörkun varðandi Orkustofnun. Stjórnin hefur fylgst með þessu máli, orkumálastjóri hefur gert henni grein fyrir því á tveimur fundum og hún hefur fengið öll málsgögn í hendur frá iðnrn.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál, það liggur skýrt fyrir eins og það hefur verið afgreitt af hálfu iðnrn., en ítreka það aðeins að lokum, að aldrei stóð til að rifta þessum samningum af hálfu rn. Það var málflutningur sem upp var tekinn af Morgunblaðinu til að reyna að blása þetta mál út og efna til úlfúðar vegna þess. Sú fyrirætlan mun ekki heppnast Morgunblaðinu og ég óska því til hamingju með það.