23.03.1982
Sameinað þing: 68. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

Umræður utan dagskrár

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Hér hafa allmörg þung orð fallið af munni hæstv. utanrrh. í þessum umr., mjög óvenjuleg, verð ég að segja, í umr. um mál af þessu tagi, þegar um er að ræða samráðh. í ríkisstj. Það er auðvitað ekki að furða þó að stjórnarandstaðan spyrji spurninga í tilefni af slíkum ummælum, þegar hæstv. utanrrh. lætur sér ekki nægja að viðhafa allsérkennileg orð um hæstv. iðnrh., heldur kallar á „alla heilaga“ sér til hjálpar og aðstoðar í glímunni við þann voðamann sem hæstv. iðnrh. er.

Hér er talað um valdníðslu, hér er talað um valdþurrð og hér er talað um að ranglega hafi verið að málum staðið, í miklum hneykslunar- og vandlætingartón af hæstv. utanrrh., sem er einn af ráðh. Framsfl., og af hv. stjórnarandstæðingum. Í þessum umr. hefur það þó ekki komið fram, sem kannske mætti verða mönnum nokkurt umhugsunarefni í þennan hóp, einnig þeim hv. alþm. sem kjósa að styðja hersetuna á Íslandi, að s.l. fimmtudagskvöld gerðust þau tíðindi, að yfirmaður varnarmáladeildar utanrrn., sem læðist hér um baksali þessa stundina, ef mér sýndist rétt, lét það koma fram sem upplýsingar frá sér, að bandaríski sjóherinn hefði í hótunum við íslensk stjórnvöld og ef þau væru ekki búin að gera eins og bandaríska sjóhernum þóknaðist fyrir kl. 4 daginn eftir yrði tilteknum samningum rift. Hér var um að ræða hótanir frá bandaríska sjóhernum. Hér hefur verið ráðist á ráðh. og hér hafa embættismenn verið gagnrýndir líka. Í þessum efnum gerist það, að bandaríski sjóherinn hefur í hótunum við íslensk stjórnvöld þegar það gerist að íslenskur ráðherra óskar eftir að yfirfara þau verk sem stofnun á hans ábyrgð er að vinna að á svæði og í máli sem er deilumál innan hæstv. ríkisstj. Hér gerist það, að bandaríski sjóherinn, bandarísk stjórnvöld eru að blanda sér í íslensk innanríkismál. Ég hygg að slíkt athæfi hljóti að teljast fordæmanlegt af öllum sanngjörnum mönnum og að allir sanngjarnir menn hljóti að viðurkenna að það sé eðlilegt af íslenskum stjórnvöldum, stjórnvöldum í fullvalda, sjálfstæðu ríki, þótt smátt sé, og sjálfsagt að slík stjórnvöld neiti að beygja sig fyrir slíkum hótunum. Þessar hótanir voru með þeim hætti, að það var vitaskuld alveg útilokað á þeirri stundu, sem þær komu fram fyrir íslensk stjórnvöld, að hrökkva undan þeim. Það, sem gerist í málinu, er að hæstv. iðnrh. neitar að hlýða þessum hótunum og gengur ekki frá málinu á þeim tímafresti sem bandaríski sjóherinn hafði sett, heldur kýs að taka sér þann tíma sem hann telur nauðsynlegan í verkið. Þar með er tímafrestinum hafnað, hótuninni hafnað og hún brotin niður.

Í sambandi við vinnubrögð bandaríska sjóhersins mættu menn gjarnan tala um valdníðslu eða valdþurrð eða hvað? — Dettur einhverjum manni í hug í þessum sal að bandaríski sjóherinn sé með einhverjum hætti valdaaðili í þessu fullvalda ríki? Hefur hann vald, hefur hann heimild, hefur hann stöðu til að hafa í hótunum við íslensk stjórnvöld? Getur verið að svo sé komið að engum öðrum en okkur Alþb.-mönnum í þessum sal detti í hug að nefna orðið valdþurrð þegar bandaríski sjóherinn gengur fram með þessum hætti, hvað þá heldur orðið valdníðsla?

Hér erum við vitaskuld komnir að kjarna þessa máls, sem er sá, að bandarísk stjórnvöld eru vísvitandi og sjóherinn í þeirra umboði að reyna að reka fleyg í þá pólitísku samstöðu sem myndast hefur um núverandi ríkisstj. Við stjórnarandstöðuna og við bandaríska sjóherinn mundi ég vilja segja á þessari stundu: Það er ekki ætlunin að láta það takast að sú samstaða bresti. Það er ekki ætlunin að láta bandaríska sjóhernum takast að reka fleyg í þann meiri hl. sem hefur skapast á Alþingi Íslendinga og staðið hefur að núv. hæstv. ríkisstj. undanfarin tvö ár.