24.03.1982
Efri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

230. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 52 14. ágúst 1959, sbr. lög nr. 90 31. des. 1981. Allshn. hefur rætt þetta frv. Í grg. með frv. kemur fram að rn. hafi haft lög nr. 90/1981 til athugunar og komið hafi í ljós að hæpið sé að það takist að festa kaup á nægilegu magni af stimplum í tæka tíð fyrir sveitarstjórnarkosningar á vori komanda. Nefndin hefur eftir atvikum fallist á samþykkt frv., en þó aðeins sem bráðabirgðaúrræði sem gildi til ársloka 1982, og flytur brtt. þess efnis á þskj. 515. Brtt. eru á þann hátt, að það komi ný grein sem orðist þannig að ákvæði 1. gr. frv. gildi til ársloka 1982, síðan bætist við 3. gr. sem orðist svo:

„Frá 1. jan. 1983 skal 65. gr. laganna orðast svo: Kosning utan kjörfundar fer svo fram, að kjósandi stimplar á kjörseðilinn bókstaf þess lista sem hann vill kjósa, og má hann geta þess, hvernig hann vill hafa röðina á listanum.“

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir afgreiðslu allshn. á þessu frv., en vil bæta hér við nokkrum aths. sem 1. flm. þess frv. sem samþykkt var sem lög frá Alþingi í des. s.l., lög nr. 90 31. des. 1981, og nú er verið að gera breytingu á áður en lögin eru komin til framkvæmda.

Sú breyting á kosningalögunum, sem hér er um að ræða, þ.e. að nota þar til gerða stimpla við utankjörfundarkosningu, er talin skapa aukið öryggi, fækka vafaatkvæðum og ógildum og flýta talningu. En veigamesta atriðið við þessa breytingu í hugum flestra og a.m.k. allra flm. á sínum tíma var að með þessu lagaákvæði er verið að færa blindum og öðrum, sem erfitt eiga með að kjósa án aðstoðar, þann rétt að geta kosið hjálparlaust, þ.e. stuðning til sjálfshjálpar. Þegar frv. varð að lögum töldu þessir aðilar, samtök blindra, að með því hefði verið stigið eitt skref í átt til jafnréttis og réttlætis hvað þeirra hagsmuni varðar. Að vísu vissum við að nokkur tregða var og efi hjá einstökum embættismönnum um að framfylgja þessu ákvæði. Auðvitað er ekki fyrirhafnarlaust að fá umrædda stimpla. Það þarf að panta þá utanlands frá, flytja þá inn og síðan að fullvinna þá hér heima, festa á þá stafi og það sem tilheyrir. En með góðum vilja er þetta sannarlega yfirstíganlegt.

Flm. vissu einnig að þetta mundi kosta nokkurt fjármagn. En við vorum öll sammála um að því fjármagni væri vel varið, enda um stofnkostnað að ræða sem fljótlega skilaði sér í betri kosningum. Þá má einnig benda á það, að á ári fatlaðra fór ekki mikið fyrir lagasetningu til handa fötluðum, svo að það var ekki um neina ofrausn að ræða þó að þeim væri fært þetta réttlætismál á ári fatlaðra.

Eftir að þing kom saman eftir áramót fór að kvisast hér að við hefðum aldeilis verið flott í okkur með þessa stimpla því að þeir kosti of fjár. Og þar stendur kannske hnífurinn í kúnni. Í grg. frv. kemur nefnilega fram að með þessu frv., sem hæstv. dómsmrh. mælti hér fyrir 10. mars s.l., eigi að spara því að stimplarnir séu dýrir og með því að fækka þeim samkv. þessu frv. hæstv. ráðh. geti ríkissjóður sparað. Ekki er ég að gagnrýna það, að farið sé varlega og sparlega með skattpeninga þegnanna, síður en svo. En einhvern veginn finnst mér að þarna hafi verið ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, að fara að skerða þennan rétt til handa blindum og bera því svo við, að samráð hafi verið haft við blinda þegar frv. var samið. Auðvitað sætta þeir sig við þetta. Þeir eiga ekki annarra kosta völ. Og það gerðum við nefndarmenn einnig því að við áttum ekki annarra kosta völ. Okkur er stillt upp við vegg, það er svo skammur tími til stefnu.

Það væri kannske ekki úr vegi að minnast hér á frv. sem nýlega hefur verið til umr. í þessari hv. deild, þ.e. frv. til l. um Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þá kom fram hjá hv. 4. þm. Reykn., Geir Gunnarssyni, að hæstv. menntmrh. hafði ekki lagt fram tölur um þann kostnaðarauka sem frv. mundi hafa í för með sér. Auðvitað vissu allir að það mundi hafa í för með sér kostnaðarauka. En ég held að allir hafi samt sem áður verið sammála því, að nauðsynlegt væri að frv. færi í gegnum þingið. Nú vill svo til að þessi kostnaðaráætlun eða kostnaðarmat liggur fyrir og það kostar ríkissjóð á ári samkv. þeirri skýrslu 1.2 millj. Ég hef ekki heyrt neinn mann kvarta undan því. Á hverju eigum við von næst? Að það komi fram frv. til að lækka þennan kostnað? Það má t.d. benda á að þarna er einn nýr kostnaðarliður sem verður vegna stjórnar- og nefndarstarfa, en ekki hefur verið áður. Þau störf hafa verið ólaunuð, en eru nú áætluð 92 þús. á ári. Ef þessum lögum stimplana hefði verið framfylgt eins og til var ætlast hefði sá kostnaður verið í eitt skipti fyrir öll 450 þús. — ekki á ári. Þetta má gjarnan koma fram til samanburðar.

En það, sem ég vil fyrst og fremst gagnrýna í sambandi við þetta mál allt, eins og það er til komið, er að mér finnst það óvenjulegt — e.t.v. er það vegna þess að ég þekki ekki enn þá nógu vel til — að embættismennirnir ráði hvort lögum sé framfylgt eða ekki og það sé bara komið með nýtt frv. til að breyta lögunum ef þeim þóknist ekki lögin sem löggjafinn hefur sett á hinu háa Alþingi.