24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. meiri hl. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Í málefnasamningi hæstv. ríkisstj. segir í upphafi samningsins um efnahagsmál, um hjöðnun verðbólgu: „Ríkisstj. mun vinna að hjöðnun verðbólgu, þannig að á árinu 1982 verði verðbólgan orðin svipuð og í helstu viðskiptalöndum okkar.“

Þannig hefst málefnasamningurinn þegar farið er að ræða um ákveðin mál. Fjárlög og lánsfjárlög eru spegilmynd af efnahagsstefnu ríkisstj. á hverjum tíma.

Fjh.- og viðskn. Nd. hefur haft frv. til lánsfjárlaga til athugunar síðan skömmu fyrir jól. Það var afgreitt frá fjh.- og viðskn. Ed. 17. des. Ætlun ríkisstj. og stuðningsmanna hennar á Alþingi var að afgreiða málið þá þegar frá Nd. Stjórnarandstaðan í báðum deildum gagnrýndi þessa málsmeðferð og sýndi fram á að víða væru lausir endar í lánsfjáráætluninni, mörg mál lægju fyrir sem ekki hefði verið tekin afstaða til og enginn vissi hvernig með ætti að fara. Ríkisstj. og stuðningslið hennar á Alþingi lét sér loks segjast við þessa gagnrýni. Samið var milli stjórnar og stjórnarandstöðu um að málið skyldi afgreitt þegar eftir jólahlé, en eigi síðar en 27. jan. s.l.

Stjórnarandstaðan hefur verið reiðubúin til að afgreiða málið á tilsettum tíma. Stuðningsmenn ríkisstj. hafa hins vegar verið ráðvilltir í málinu. Fundir hafa ekki verið boðaðir langtímum saman í fjh.- og viðskn., og nú við afgreiðslu málsins flytur minni hl. n., sem styður ríkisstj., á þriðja tug brtt. Þetta gerist þegar næstum því tveir mánuðir eru liðnir frá því að ætlunin var að afgreiða málið eftir jólaleyfi. Fjmrh. ræðst svo að formanni nefndarinnar í fjölmiðlum þó að hæstv. ráðh. viti gjörla, að það hefur staðið á ríkisstj. í mörgum tilfellum með upplýsingar, og í raun og sannleika eru fjölmargar upplýsingar ekki komnar enn þá, eins og síðar verður að vikið.

Öll þessi vinnubrögð sýna glöggt þann hringlandahátt sem einkennir störf og stefnu ríkisstj. og stuðningsliðs hennar á Alþingi um þessar mundir.

Enn þá hefur ekki verið tekin afstaða til fjöldamargra mála sem borist hafa til ríkisstj. og fjh.- og viðskn. beggja deilda Alþingis og varða lánsfjárlög. Þar má nefna mál eins og erindi Landsvirkjunar, Rafmagnsveitu Reykjavíkur, vanda járnblendiverksmiðju. Til uppbyggingar á aðstöðu skipasmíðaiðnaðarins er ekkert ætlað umfram hluta ríkissjóðs, sem er 17 millj. kr„ en heildarfjárfesting er talin verða um 40 millj. kr. Þessar hafnarframkvæmdir vegna skipaiðnaðar skiptast á átta verkefni samkv. fjárlögum: Akranes 2 millj., Stykkishólmur 600 þús., Ísafjörður 2 millj„ Skagaströnd 2 millj., Húsavík 500 þús„ Vestmannaeyjar 4 millj., Garðabær 4.4 millj. og Reykjavík 1.5 millj. Hvernig afla á þeirra 23 millj., sem á vantar í þessar framkvæmdir, er ekki vitað. Það er vitað mál, að þessir aðilar hafa ekki nema litinn hluta af þessu fjármagni, og því var reiknað með að tekin yrði inn í lánsfjárlögin heimild til lántöku. Sennilegasta skýringin á því, að stuðningslið ríkisstj. hefur enga skoðun á þessu máli og hefur ekkert fengist til að segja, er að það ætlar sér, ef eitthvað verður úr þessum framkvæmdum, að benda þessum aðilum á að leita til svokallaðrar langlánanefndar til þess að fá þar heimild til lántöku utan við fjárfestingarlánaáætlun. Það er þá ekki gert nema í einum tilgangi, ef þessi tilgáta mín er rétt. Það er gert til þess að fela eða láta ekki koma fram meira en orðið er þá óhóflega miklu erlendu skuldasöfnun sem á sér stað undir forustu núv. hæstv. ríkisstj.

Síðast en ekki síst nefnum við Byggingarsjóð ríkisins. Hann skuldar í Seðlabankanum vegna yfirdráttar 40 millj. kr. auk þess sem vantar 90 millj. á að áætlanir hans standist á yfirstandandi ári. Engin skýring fæst gefin, ekkert liggur fyrir um hvernig eigi að mæta óskaplega miklum vanda Byggingarsjóðs ríkisins.

Það er athyglisvert, að eftir allan þann tíma, sem stjórnarliðar hafa haft frv. þetta að lánsfjárlögum til athugunar, fjalla langflestar tillögur þeirra um smávægilegar orðalagsbreytingar eða frekari skerðingar á framlögum til stofnlánasjóða atvinnuveganna, nokkrar brtt. eru um aukin útlán og þar með aukna innlenda og erlenda lánsþörf, en reynt er að komast hjá að taka afstöðu til stórmála, eins og ég vék að áðan.

Engin samstaða er lengur til innan stjórnarliðsins. Það höfum við þm. séð á undanförnum dögum. Síðast í gær var haldinn opinn ríkisstjórnarfundur hér í sölum Alþingis, til tilbreytingar frá öðrum ríkisstjórnarfundum, þar sem utanrrh. rassskellti iðnrh. allmyndarlega. A.m.k. situr ekki iðnrh. hér núna. Honum er kannske eitthvað illt í bossanum.

Stjórnarandstaðan í Ed. gerði ítarlega grein fyrir áliti sínu þegar frv. var afgreitt frá deildinni. Skal hér minnt á nokkur aðalatriði sem einkenna öðru fremur afgreiðslu þessa frv. til lánsfjárlaga.

Innlend fjáröflun er að öllum líkindum stórlega ofmetin, svo að ekki sé meira sagt. Ætlunin er t.d. að selja spariskírteini á yfirstandandi ári fyrir 150 millj. kr., en salan í fyrra varð aðeins 43 millj. kr.

Úr lífeyrissjóðunum er ætlað að afla 460 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs, húsnæðismálasjóða, Stofnlánadeildar landbúnaðarins og ríkissjóðs, en í fyrra var þessi fjáröflun um 270 millj. kr. innlánsaukning í banka og sparisjóði fyrstu mánuði ársins er nú miklu minni en á sama tíma í fyrra.

Þá hafa engar upplýsingar komið fram um álagningu byggðalínugjalds sem afla átti 40 millj. kr. samkv. skýrslu ríkisstj. um lánsfjáráætlun.

Í aths. við lánsfjárlagafrv. segir um 1. og 2. gr.: „Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 kemur fram að heildarlánsþörf A- og B-hluta ríkissjóðs nemur 1 135 970 kr. Nú er ráðgert að afla 40 millj. kr. með sérstöku stofnlínugjaldi og kemur sú upphæð til lækkunar á heildarlánsþörf.“

Ég spyr: Hvað liður þessu frv.? Hvað líður því frv. sem boðað er á s.l. hausti að eigi að leggja fram og eigi að afla ríkissjóði 40 millj. kr. tekna? Nú er senn liðinn fyrsti ársfjórðungur af þessu ári, en þetta frv. eða þessi lög áttu að afla ríkissjóði 40 mill j. kr. tekna miðað við heilt ár. Er ríkisstj. hætt við þetta frv.? Er hún hætt við að flytja það? Ef svo er ekki, hvað er það þá sem tefur ríkisstj. í.að leggja þetta frv. fram? Ég spyr hæstv. fjmrh. ef hann má vera að því að hlusta. (Fjmrh.: Já, já, hann hlustar.) Já það er gott að hafa margar hlustir. Ég spyr hann: Hvernig á að afla þessa fjár? Hvert er efni þessa frv. og hvað er það sem tefur að það sé lagt fram? Er allt á sömu bókina lært?

Erlend fjáröflun er aukin gífurlega. Frá frv. má gera ráð fyrir að hún aukist um allt að 200 millj. kr. Erlend fjáröflun er þó ærin fyrir ef haft er í huga að orkuframkvæmdir dragast saman milli 40 og 50% að magni til á yfirstandandi ári. Það var þó sá málaflokkurinn sem ríkisstj. ætlaði að leggja mesta áherslu á og hún valdi í starf iðnrh. mann sem hefur getað dregið þessi mál það lengi að nú er sumum stjórnarliðum þegar nóg boðið og hefði mátt vera það fyrr. Skuldastaða erlendra lána í árslok er áætluð af Seðlabankanum a.m.k. 39% af þjóðarframleiðslu og hefur aldrei verið hærri í sögu þjóðarinnar. Greiðslubyrði af útflutningstekjum er áætlað að verði 19% samkv. væntanlegum lánsfjárlögum, en í stjórnarsáttmála núv. ríkisstj. segir svo um þetta orðrétt:

„Erlendar lántökur verði takmarkaðar eins og kostur er og að því stefnt, að greiðslubyrði af erlendum skuldum fari ekki fram úr u.þ.b. 15% á útflutningstekjum þjóðarinnar á næstu árum.“

Finnst hv. þm. ekki ríkisstj. hafa staðið sig vel í þessu fyrirheiti, að setja sér markmið um 15% af útflutningstekjum þjóðarinnar og vera eftir tveggja ára setu þegar komin upp í 19% eða 1/5 af útflutningstekjunum?

Það er eftirtektarvert, að erlend lán hafa hækkað gífurlega nú að undanförnu. Árið 1979 voru ný erlend lán 563 millj., 1980 1032 millj., samkv. áætlun 1981 1735 millj. og samkv. lánsfjáráætlun 1982, áður en tekið er tillit til þeirra brtt. sem nú liggja fyrir, fara erlendu lánin upp í 2050 millj. kr.

Alger óvissa er um fjármögnun Framkvæmdasjóðs í ár í kjölfar þess, að hann skortir helming þess fjármagns úr lífeyrissjóðum sem lánsfjáráætlun gerði ráð fyrir í fyrra, eða 53 millj. af 123 millj. kr. Þetta hefur í för með sér fyrirsjáanlegan fjárskort atvinnuveganna og áframhaldandi samdrátt í fjármunamyndun á þessu ári. Í yfirliti Seðlabankans, hagfræðideildar, sem hann gaf út 8. jan., segir að Framkvæmdasjóður hafi samkv. lánsfjáráætlun átt að fá 123 millj., en í reynd voru það 70 millj. eða 1 millj. lægri upphæð en á árinu 1980. Byggingarsjóður ríkisins átti að fá samkv. lánsfjáráætlun 153 millj., en í reynd fær hann 120 millj. Þetta er það sem mestu máli skiptir. En ríkissjóður, sem var ekki inni á þessum markaði fyrr en lítillega á árinu 1980 eftir að núv. stjórn kom, hafði þá 12 millj., hann reiknaði með í lánsfjáráætlun 34–60 millj. á s.l. ári. Í reynd er ríkissjóður með 57 millj. kr. Þarna er komin nokkur skýring á því sem hæstv. fjmrh. hefur verið að gorta af að undanförnu, að skuldir ríkissjóðs við Seðlabankann hafi lækkað. Það er hægt að lækka þær með því að ráðast á þann markað sem þessir sjóðir hafa haft á undanförnum árum, með því að fara inn á hann í samkeppni og skilja þá eftir peningalausa. Seinna kem ég að því, hver úrræði hæstv. fjmrh. eru í þessu sambandi.

Samkv. lánsfjáráætlun fyrir s.l. ár var gert ráð fyrir að lífeyrissjóðirnir keyptu skuldabréf af Framkvæmdasjóði, eins og ég sagði áðan, að fjárhæð 123 millj. kr. En í reynd voru kaupin 70 millj. og því vöntunin 53 millj. Ástæðurnar fyrir því, að þetta brást með jafnhörmulegum hætti, eru að ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna og jafnframt 40% kaup þeirra samkv. lánsfjáráætlun eru ofmetin í framkvæmdaáætlun, eins og fulltrúar Framkvæmdasjóðs héldu fram við gerð þeirrar áætlunar. Síðan gerist það, að fjmrn. skiptir lífeyrissjóðunum milli Byggingarsjóðs ríkisins, Byggingarsjóðs verkamanna, Framkvæmdasjóðs og ríkissjóðs og mun hafa greint viðkomandi lífeyrissjóðum bréflega frá því, hvert þeir skyldu snúa sér með þessi viðskipti. Ráðuneytið úthlutar samkv. þessu Framkvæmdasjóði viðskiptum sem nema 1 17.8 millj. kr. þó að lánsfjáráætlun geri ráð fyrir 123 millj. kr. En í rauninni er samtala þessarar úthlutunar 97.7 millj. kr. eða 25.3 millj. kr. undir áætlun lánsfjáráætlunar.

Undanfarin ár hefur verulegur hluti viðskipta Framkvæmdasjóðs við lífeyrissjóðina byggst á viðskiptum við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Við úthlutun fjmrn. þessu ári eru þessi viðskipti Framkvæmdasjóðs við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins felld niður, en í stað þess er gert ráð fyrir að þessi skerti lífeyrissjóður kaupi skuldabréf af ríkinu sem áætluð eru 40 millj. kr., en urðu í reynd um áramót 57 millj. kr. Framkvæmdasjóði er vísað á viðskipti við ýmsa smásjóði sem margir hverjir hafa lítið eða ekkert keypt af skuldabréfum fjárfestingarlánasjóða að undanförnu eða þá beint viðskiptum sínum til annarra sjóða sem lánsfjáráætlun gerir ráð fyrir. Á þessu sést að ríkisstj. eða fjmrh. hefur brugðist skyldu sinni varðandi lánsfjárútvegun til Framkvæmdasjóðs á þessu ári með þeim árangri, að atvinnuvegasjóðirnir hafa þegar fyrir lok síðasta árs gefið lánsloforð fyrir þessum lánum, en eftir var í lok ársins að standa við að útvega atvinnusjóðunum verulegan hluta þess fjár. Þegar þetta var séð sneri stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins og forstjóri hennar sér til ríkisstj., til fjmrh„ og lýsti áhyggjum sínum af þessum málum. Eftir að hafa rætt við fjmrh. er lögð fram tillaga í stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins svohljóðandi:

„Með því að staðfest hefur verið af fjmrh., að ekki geti orðið af þeirri tilfærslu lífeyrissjóðafjár milli ríkissjóðs og Framkvæmdasjóðs sem um er fjallað í orðsendingu Framkvæmdasjóðs til fjmrh. 20. nóv. 1981, og þar eð fjmrh. fyrir hönd ríkisstj. leggur til, að Framkvæmdasjóður afli erlends láns til að leysa hluta þeirrar fjárvöntunar er um ræðir, samþykkir stjórn Framkvæmdastofnunar ríkisins að Framkvæmdasjóður leiti eftir erlendu láni að fjárhæð um 25 millj. kr.“

Lengra vildi Framkvæmdasjóður eða meiri hluti stjórnar Framkvæmdastofnunar ríkisins ekki ganga. Við Steinþór Gestsson greiddum atkv. gegn þessari tillögu. Við létum það koma fram í okkar áliti, að við greiðum atkv. gegn þessari till. og gerum þá kröfu að ríkisstj. standi við samþykkt Alþingis um að Framkvæmdasjóði verði útvegað það fjármagn sem honum er ætlað samkv. lánsfjárlögum fyrir þetta ár, samtals 123 millj. kr. Ef það fjármagn fæst ekki af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða, m.a. vegna aðgerða fjmrh., þá er skylda ríkisstj. að útvega það með öðrum hætti innanlands. Hér má ekki hafa á frekari tafir. Atvinnuvegasjóðirnir hafa þegar byggt á lánsfjáráætluninni og gefið út lánsfjárloforð til atvinnufyrirtækja í landinu.

Ég minni á að þegar gortað er af aukningu fjár innlánsstofnana, sem var töluverð á s.l. ári, kemur ekki fram að áætlanir, sem gerðar eru við samþykki lánsfjáráætlunar fyrir árið 1981, sýna að ákveðnir lífeyrissjóðir hafa ekki lagt það fjármagn til sem þeim var ætlað. Það er vitað mál að margir lífeyrissjóðir eiga fé inni í bönkum. Og hvað skyldi inneign hinna ýmsu lífeyrissjóða vera mikill hluti af þessari aukningu? Það væri fróðlegt að vita, ef nokkur veit það. Þetta er e.t.v. ein sennilegasta skýringin á aukningunni. En eftir sitja bæði húsbyggingasjóðirnir og Framkvæmdasjóður með tóman kassa, með loforð sem þeir gefa út í trausti þess, að farið sé eftir samþykktum Alþingis, sem svo er engan veginn staðið við. Á sama tíma, eftir að búið er að bregðast atvinnuvegasjóðunum og húsnæðissjóðunum með þessum hætti, eru einu viðbrögð núv. ríkisstj. að skerða það fjármagn sem ríkið veitir til atvinnuvegasjóðanna og m.a. er fjallað um í þeim brtt. sem formaður nefndarinnar mun mæla fyrir hér á eftir.

Fjármögnun húsnæðismálasjóðanna er mikið áhyggjuefni um þessar mundir. Þeim er ætlað að afla hjá hjá lífeyrissjóðakerfinu tæplega 300 millj. kr., en fengu í fyrra rúmlega 130 millj. kr. Skyldusparnaður er auk þess ofáætlaður, ef marka má reynsluna frá því á síðasta ári, en hún er sú, að nær ekkert fékkst nettó af skyldusparnaðarfé. Verst er þó að lausaskuld Byggingarsjóðs ríkisins við Seðlabankann um áramót, sem nam, eins og ég sagði áðan, 40 millj. kr., er í lausu lofti. Að auki skortir sjóðinn 90 millj. til þess að geta framfylgt útlánaáætlun sinni, sem er þó niðurskorin. Þess má geta, að sú áætlun gerir einungis ráð fyrir að lána 1100 frumlán til nýrra íbúða á vegum einstaklinga, en 1978 voru slík lán tæplega 1900.

Þróun fjárfestingar samkv. áætluninni og reynslu fyrri ára er uggvænleg. Framkvæmdir á sviði stóriðju og stórvirkjana dragast saman um 43.5% að magni til frá fyrra ári, framkvæmdir í hitaveitum um 31.5% og fjárfesting atvinnuveganna dregst saman um 9.1%, auk þess sem fyrirsjáanlegt er að samdráttur verður í íbúðabyggingum fimmta árið í röð, en sá samdráttur er að magni til um 15% síðan 1978. Aftur á móti er meiri gróska í fjárfestingu í opinberum byggingum, því að hún eykst um 6.8%.

Erlend lántaka til að fjármagna rekstrartap ríkisfyrirtækja og undirstöðuatvinnugreina setur vægast sagt dökkan svip á þetta frv. og væntanleg lánsfjárlög. Þar má nefna kreppulán, sem Byggðasjóður hefur verið látinn veita fyrirtækjum í sjávarútvegi í því góðæri sem ríki hefur, lán til að fjármagna rekstrartap orkufyrirtækja, Sementsverksmiðju ríkisins, svo að ég nefni aðeins örfá dæmi.

Mig langar í sambandi við orkumálin að nefna hvað risastór vandi er víða þar á ferðinni. Þá veiti ég mér þau forréttindi að nefna það orkufyrirtæki sem mér er e.t.v. skyldara en öll önnur, Orkubú Vestfjarða. Þegar það var stofnað lágu fyrir skýlaus fyrirheit og loforð þáv. iðnrh. og, þáv. ríkisstj., sem sat 1974–1978, eins og greint hefur verið frá í skýrslu þessa fyrirtækis til iðnrh., um lagningu Vesturlinu, en hún tafðist verulega. Þetta fyrirtæki hefur látið reikna út tjón sem það hefur orðið fyrir vegna seinkunar Vesturlinu, orkuskorts og söluskilmála. Þetta tjón er reiknað sem kostnaðarauki af þessum sökum á verðlagi 1. febr. á þessu ári. Orkuvinnsla í dísilrafstöðvum á árinu 1979 vegna seinkunar Vesturlinu er hvorki meiri né minni en um 7 millj. kr. Orkuvinnsla í dísilrafstöðvum 1980 var 21 millj. og 69 þús., óhagstæð orkukaup um Vesturlínu 1980 869 þús., orkuvinnsla í dísilrafstöð vegna orkuskorts 1981 7 millj. 685 þús., orkuvinnsla í dísilrafstöð vegna viðgerða á Vesturlínu, sem frægt er orðið, 1 millj. 155 þús. og óhagstæð orkukaup um Vesturlinu á árinu 1981 um 4 millj. 15 þús. kr. Samtals er þessi vandi þessa eina orkufyrirtækis 41 millj. 793 þús. kr.

Þessi mál hafa verið send til ríkisstj., til iðnrh., fjmrh. og hæstv. forsrh., sem var iðnrh. þegar þessi fyrirheit voru gefin á stjórnarárunum 1974—1978. Þetta er ekki nýtt vandamál. Þetta hefur legið fyrir iðnrn. og ríkisstj. frá 1979, 1980, 1981 og nú er það með þessum hætti. En ekkert hefur gerst. Nú vil ég spyrja hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. hvort eitthvað sé að gerast í þessu máli. Mér leikur forvitni á að vita það. Það er mikið í húfi fyrir þennan landshluta. Og það er líka mikið atriði, þegar ríkisstjórnir fara og aðrar koma, að skuldbindingar eru í gildi þó að ný ríkisstj. taki við. Það á að standa við þær skuldbindingar. Ég nefni eitt dæmi sem er táknrænt fyrir efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj., en ég gæti tekið þau mörg. Það er Sementsverksmiðja ríkisins. Ég held meira að segja að einn hæstv. ráðh. eigi sæti í stjórn Sementsverksmiðjunnar. Í bréfi Sementsverksmiðju ríkisins til fjh.- og viðskn. Ed., dags. 27. nóv. á s.l. ári, segir m.a.:

„Ljóst er að rekstrarhalli verksmiðjunnar á þessu ári, 1981, verður milli 6 og 7 millj. kr., sem að mestu leyti er til kominn á fyrri hluta ársins þegar eðlilegar verðhækkanir voru ekki heimilaðar.“

Hvað sagði ríkisstj.? Við verðum að standa á bremsunni. Við megum ekki hleypa öllu út í verðlagið. Það verður að gæta aðhalds, sagði hún alltaf. Aðhaldið var það, að fyrirtæki eins og þetta, ríkisfyrirtæki — hvernig hefði verið farið með einstaklinga og félagasamtök? — þetta fyrirtæki var rekið með 6–7 millj. kr. halla af því að ríkisstj. var að falsa verðbólguna. Það var þetta sem ríkisstj. var að gera allt s.l. ár. Á árinu 1980 lét hún gengið ráða. Þá hélt hún framleiðslukostnaði þannig að hjól atvinnulífsins snerist með sæmilega eðlilegum hætti í flestum tilfellum, en engan veginn öllum. Svo fór hún í gengisbindindi á gamlársdag 1980. Þetta bindindi stóð allt s.l. ár, en tvisvar sinnum datt ríkisstj. í það að vísu. En það birti upp, þetta voru tiltölulega stuttir túrar báðir og litlir. En núna hefur hún heldur betur lagst í það frá því í janúar og liggur í því enn.

Niðurstaðan í sementsverksmiðjumálinu er þessi að því er segir í bréfi Sementsverksmiðju ríkisins: Snemma í haust heimilaði ríkisstj. verksmiðjunni að taka 10 millj. kr. erlent lán til að losna úr þeim miklu greiðsluerfiðleikum sem skapast höfðu síðasta árið, þannig að greiðslustaða verksmiðjunnar er nú viðunandi. M.ö.o.: fyrst er hún látin tapa, svo eru tekin lán, lán til þess að greiða með hallareksturinn sem varð, en síðan kemur aftur að því að greiða þetta lán upp og þá þarf að hækka sementið. Það var bara verið að fresta verðhækkunum á sementi eins og fjölmörgum öðrum greinum á s.l. ári, allt í einum og sama tilgangi: að blekkja fólk, að halda niðri öllu því sem snerti vísitöluna. Annað mátti æða áfram og þurfti ekki að hafa þar neinar hömlur á, eins og allir vita.

Í 4. gr. frv. til lánsfjárlaga segir: „Iðnrekstrarsjóði er heimilt að taka lán á árinu 1982 að fjárhæð allt að 10 mill j. kr., eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt, til endurlána til athugunar á sviði orkufreks iðnaðar.“ Þrátt fyrir athugun, sem málið fékk í Ed., fékkst ekki, í öllu því óðagoti sem var á ráðamönnum þar, skýrt neitt nánar hvað hér er átt við og hvað hér er að gerast. Við sjálfstæðismenn í nefndinni óskuðum því eftir að rætt yrði við stjórn Iðnrekstrarsjóðs og spurt hvort það sé að beiðni Iðnrekstrarsjóðs að verið sé að taka þetta erlenda lán til athugunar á sviði orkufreks iðnaðar og hvort þetta væru ekki stóraukin umsvif hjá Iðnrekstrarsjóði. Jú, það mátti segja að það hafi komið út, að hér væri um stórkostlega aukin umsvif Iðnrekstrarsjóðs að ræða, því að á árinu 1981 námu allar styrk- og lánveitingar Iðnrekstrarsjóðs tæplega 10.7 millj. kr. samtals. Eigið fé sjóðsins var 30. des. 1980 8.6 millj. kr. Og það kom fram hjá þeim, að það skapaði sjóðnum allt of mikla áhættu ef sérstök endurlán til athugunar á orkufrekum iðnaði, sbr. 4. gr. frv. sem ég gat um áðan, 10 millj. kr., væru ekki tryggð á fullnægjandi hátt. Það kemur því fram nú, einmitt fyrir þessa athugun, að hér bætist við 4. gr. í brtt. heimild fyrir fjmrh. að ábyrgjast endurlánin með sjálfskuldarábyrgð. Ef þetta atriði hefði farið í gegn eins og Ed. gekk frá því í dansinum fyrir jólin hefði Iðnrekstrarsjóður orðið gjaldþrota.

Nú spyrja menn: Til hvers á að nota þetta fjármagn? Það eru 3 millj. inni í fjárlögum til athugunar á orkufrekum iðnaði, en samkv. þessu er gert ráð fyrir 10 millj. kr. Ef þetta verður samþykkt er hér um að ræða hvorki meira né minna en 13 millj. kr. í þessu skyni. Eftir nokkra fyrirhöfn tókst að fá þær upplýsingar, að í megindráttum væri gert ráð fyrir þessari uppskiptingu á þessu fjármagni: Kísilmálmverksmiðjan 2 millj., magnesíumverksmiðja 1 millj., natríumklóratverksmiðja 1 millj., trjákvoðuverksmiðja 2 millj., álverksmiðja 3 millj., staðarvalsrannsóknir 2.5 millj. og aðrar rannsóknir 1.5 millj.

Ég er ekki fær um að meta hvort hér er um brýna nauðsyn að ræða. En ef ríkisstj. vill fylgja öllu eftir með gát, þá finnst mér ívið mikið í lagt með þessar svokölluðu staðarvalsrannsóknir að sú nefnd eigi að kosta 2500 millj. gkr.

Eins og ég hef áður sagt er mestur fjöldi brtt. minni hl. n., sem styður ríkisstj., fólginn í frekari niðurskurði á framlögum til sjóða atvinnuveganna, en þessir sjóðir voru skornir niður miðað við lög meira en nokkru sinni fyrr við síðustu fjárlagagerð. Þetta hlýtur að hafa í för með sér sérstakan vanda atvinnuvegasjóðanna, einkum í ljósi þess, að fjármögnun þeirra á s.l. ári var mjög í molum, eins og ég hef áður sagt.

Um aðrar brtt. stjórnarsinna vill meiri hl. n. taka fram: 4. brtt. er um að hækka heimild til lántöku fyrir Byggðasjóð úr 50 millj. í 60 millj. í því skyni að veita fyrirtækjum í sjávarútvegi svokölluð kreppulán. Forráðamenn ríkisstj. hafa látið í veðri vaka að þessi fyrirgreiðsla yrði miklum mun meiri í ljósi þess taprekstrar sem orðinn er í sjávarútveginum þrátt fyrir mikinn afla og yfirleitt gott verð á erlendum mörkuðum. Hætt er því við að þann vanda, sem stefna ríkisstj. í atvinnumálum hefur leitt yfir eina undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, verði erfitt að leysa með þessari fyrirgreiðslu.

Á stjórnarfundi Framkvæmdastofnunar ríkisins 25. nóv. var lögð fram svohljóðandi samþykkt frá ríkisstj. varðandi þessi svokölluðu kreppulán:

Ríkisstj. samþykkir að beita sér fyrir því, að lán, sem veitt verða Byggðasjóði til að endurlána fiskvinnslu- og útgerðarfyrirtækjum vegna rekstrarerfiðleika, verði 10–15 ára innlend lán, afborgunarlaus fyrstu þrjú árin, með sömu kjörum og lán Framkvæmdasjóðs til Stofnlánasjóðs. Aflað verði heimildar Alþingis til að veita Byggðasjóði ríkisábyrgð á hálfri upphæð þessara lána.“

Stjórn stofnunarinnar leit svo á, að átt væri við með þessari samþykkt að umrædd ríkisábyrgð verði á helmingi endurlána Byggðasjóðs. Á þessum fundi kvað ég nauðsynlegt að fá nánari skýringar á orðalagi í bréfi ríkisstj. um að hún muni beita sér fyrir að útvega Byggðasjóði fé. Ég minnti í því sambandi á efndir varðandi fé frá lífeyrissjóðum til Framkvæmdasjóðs samkv. lánsfjáráætlun 1981 sem ég gerði hér að umræðuefni. Ég taldi orðalag þessarar samþykktar ófullnægjandi, því þurfti að liggja fyrir hve háa fjárhæð ríkisstj. ætlaði að útvega til þessa verkefnis, hvenær Byggðasjóður fengi þetta fé og með hvaða lánskjörum, áður en sjóðurinn hæfi lánveitingar. En það lá mikið við. Fyrirtæki voru stöðvuð og menn gátu ekki beðið og það var farið í að lána. Formaður stjórnarinnar, Eggert Haukdal, lét bóka að hann ítrekaði að hann samþykkti ekki að gengið yrði á framlög Byggðasjóðs til þess að leysa þennan vanda. Hann tók fram að samfara umræddum lánveitingum væri töluverð áhætta, en eitthvað mundi þó verða endurgreitt til sjóðsins. Færi það eftir því, hversu há fjárhæð yrði útveguð úr Byggðasjóði í þessu skyni. Benti hann á að um það yrði fjallað á Alþingi í umr. um lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1982.

Þórarinn Sigurjónsson kvaðst líta á umrædda aðstoð sem alger bráðabirgðalán og yrði Byggðasjóði útvegað sérstakt fé til þeirra. Síðar, þegar svonefnd úttektarnefnd hefði unnið sitt verk,yrði gengið frá endanlegum lánum. Þetta var það helsta sem þá kom fram.

Það voru útvegaðar 30 millj. kr. í Seðlabankanum og síðar 10 millj. Það er búið að lána, að mig minnir, rúmlega 43 millj. eða nokkuð umfram þetta. Nú gerir þessi brtt. ráð fyrir aðeins 10 millj. kr. hækkun frá því sem búið er að ákveða áður, en á fundi, sem öll stjórnin var á með fjmrh. og sjútvrh., varpaði sjútvrh. því fram, að hann teldi að þessi upphæð mundi sennilega fara í 200 millj. kr.

Benedikt Bogason, sem er formaður þeirrar nefndar sem vinnur að úttekt á fjárhagsstöðu fiskvinnslufyrirtækja, gerði grein fyrir störfum nefndarinnar fyrir nokkru á fundi Framkvæmdastofnunar. Hann taldi nefndina ekki á þessu stigi geta lagt fram tölur um heildarfjárvöntun, en ljóst væri að fjármagn þyrfti að koma frá fleiri aðilum en Byggðasjóði, t.d. eigendum, viðskiptabönkum o. fl. Að því tilskildu er stærðargráðan áætluð 150–250 millj. kr. Og hann áætlar að nefndin muni ljúka starfi sínu í maí til júní s.l. Sami maður sendi orðsendingu til forsrh. þar sem hann skilgreinir hlutverk sitt í þessari nefnd og segir:

„Nefndin mun gera tillögur um fjárhagslega endurskipulagningu þeirra fyrirtækja sem þess þurfa við. Endurskipulagning gæti falist m.a. í aukningu á eigin fé, nýju fé í formi lána til langs tíma eða breytingu á skammtímaskuldum til langs tíma.“

Hann segir í lok þessa bréfs eða orðsendingar til forsrh.:

„Ég vil svo lýsa þeirri skoðun, að ég tel brýna nauðsyn bera til að einhver heimild komi inn í lánsfjáráætlun. Stærðargráða þessarar heimildar gæti að mínu mati verið 150–250 millj. kr. og eru þá meðtalin áðurnefnd lán, sem þegar hafa verið veitt í þessu skyni, að upphæð 43 millj. kr.“

Í byrjun janúar eða nánar tiltekið 12. jan. fara forstjóri, formaður og varaformaður þessarar stjórnar á viðræðufund við forsrh., fjmrh. og sjútvrh. um fjárhagsvanda útgerðar og fiskvinnslu og nauðsyn þess, að Byggðasjóði yrði útvegað viðbótarfjármagn ef sjóðurinn ætti að leysa úr þessum vanda. Þar er talað um að heildarfjárhagsvandinn sé um 200 millj. kr. Á þessum fundi kom fram hjá fjmrh. að hann treysti sér ekki til að taka þessar 150 millj. kr. inn á lánsfjáráætlun 1982 þar sem það þýddi meiri erlendar lántökur. Að öðru leyti tók hann jákvætt undir beiðni stofnunarinnar og samþykkti að það væri hlutverk ríkisstj. að útvega viðbótarfjármagn til þess að leysa þann vanda. Mundi ríkisstj. beita sér fyrir því, að fjár yrði aflað innanlands á þessu ári.

Nú skulum við líta á möguleikana á því að afla þessa fjár innanlands. Ég hef áður gert að umræðuefni útboðin, þá miklu aukningu sem hefur orðið frá árinu á undan. Það kemur einnig fram, að forsrh. lagði áherslu á að haft yrði samstarf við viðskiptabankana til lausnar á þessum fjárhagsvanda og þeir yrðu þátttakendur í því. Á sama tíma og talað er um að það eigi að fá fjármagn í viðskiptabönkunum er verið að banna viðskiptabönkunum að lána. Það er verið að taka af þeim meiri fjárráð en áður með því að binda innlánsfé þeirra. Og þetta segir ríkisstj. að sé gert til þess að koma í veg fyrir aukningu útlána. Ef aukning útlána til hins frjálsa atvinnurekstrar er nú meinið, á þá aðeins ríkisstj. að fá alla peninga að láni, sem til eru í landinu, og á aðeins að lána þeim sem eru búnir að stöðva atvinnureksturinn, en refsa hinum sem hafa staðið sig eilítið betur?

Formaður stjórnarinnar, Eggert Haukdal, skýrði á þessum sama fundi frá því, að í ofangreindum viðræðum hefði verið margítrekað að Byggðasjóður gæti ekki leyst umræddan fjárhagsvanda nema fá til þess viðbótarfé. Sjóðurinn gæti þó sjálfur tekið þátt í skuldbreytingum á lánum fyrirtækjanna og e.t.v. aðstoðað eigendur til þess að auka eigið fé fyrirtækjanna gegn góðum tryggingum. Og það hefur sjóðurinn sannarlega gert. Ég held að ég muni rétt að það sé búið að skuldbreyta í veiðum og vinnslu milli 23 og 24 millj. í lok nóv. á s.l. ári, og þær skuldbreytingar halda áfram. En þær gera það að verkum, að sjóðurinn hefur auðvitað minna fé á milli handanna.

Stefán Guðmundsson alþm. benti á að í viðræðunum hefðu tekið þátt þrír ráðherrar svo að að hans áliti væri öruggt að sjóðnum yrði útvegað viðbótarfjármagn í þessu skyni. Hann benti einnig á, að ekki yrði langt þar til lánsfjáráætlun ríkisstj. yrði afgreidd, og lagði til að afgreiðsla frekari lánveitinga biði þangað til. Eftir mikið jaml og japl ákveður ríkisstj. að heimila hásetum sínum í fjh.- og viðskn. að flytja brtt. um að hækka þessi lán um 10 millj. M.ö.o.: það eru eftir tæpar 7 millj. þó að þetta komi. Nú spyr ég hæstv. ráðh.: Hvar hyggst hann útvega innanlands þetta fjármagn? Og ég spyr stuðningsmenn ríkisstj. hvort þeir sætti sig við eftir sínar yfirlýsingar að ganga þannig frá lánsfjáráætlun eftir allar fullyrðingarnar og eftir margendurtekið álit þeirra að ekki komi til greina annað en stórauka þessi útlán.

Ég er ekki eins frjálslyndur og hæstv. sjútvrh. Það stendur aldrei á honum að nefna háar tölur. En ég hefði verið ánægður fyrr sem stjórnarmaður þó að við hefðum ekki fengið 200 millj. Ég hefði gjarnan viljað ganga til samkomulags bara um helming af þessari upphæð, en að við það væri staðið. Ég tel að það hafi líka margt breyst til batnaðar. En sumt hefur líka orðið til hins verra og skuldbreytingin er ærið verkefni fyrir Byggðasjóðinn einan að taka á sig, því að hún verður í auknum mæli, og það eru ekki heldur litlar skuldbreytingar sem Fiskveiðasjóður hefur verið að gera að undanförnu.

Það er ein tillaga hér líka sem kemur frá ríkisstj. og kom inn löngu eftir að afgreiðslufresturinn var útrunninn. Það er till. um að fjmrh. sé heimilt að fella niður eða endurgreiða aðflutningsgjöld og sölugjald af vélum, tækjum og varahlutum til ylræktarvers sem komið verður á fót vegna útflutningsframleiðslu. Fjmrh, setur reglur um framkvæmd þessa ákvæðis og aðra þætti er varða aðflutnings- og sölugjöld af efnum og aðföngum til ylræktarversins.

Þetta mál kom okkur á óvart. Við höfðum ekki hugmynd um að búið væri að stofna nýtt félag. Við höfum heyrt mikið um nauðsyn þess að byggja slíkt ylræktarver. Ég hygg að ég muni það rétt, að það var Steinþór Gestsson sem á sínum tíma flutti þáltill. í þessum efnum, og síðan hefur mikið verið um þessi mál rætt, en litið að undanförnu. Nefnd var að sjálfsögðu sett í þetta mál eins og öll önnur, og í flestum málum eru nú margar nefndir.

Eftir að hafa rætt við ráðuneytisstjóra landbrn. fengum við í hendur ljósrit af bréfi til landbrh. um þetta mál frá þessari nefnd. Vilhjálmur Lúðvíksson var formaður nefndarinnar og hann segir í lok bréfsins: „Reiknað er með að leita að hluta til erlendra sérfræðinga um markaðsleit fyrir ylræktarafurðir. Það er ekkert ákveðið, það eru engin samtök stofnuð enn, það er enginn markaður öruggur eða í sjónmáli.“ Og í bréfinu segir: „Hæpið er að reikna með neinum framkvæmdum vegna þessa máls fyrr en 1983 og því tæplega nauðsyn að gera ráð fyrir því í lánsfjáráætlun nú. En ofangreindur kostnaður gæti greiðst af fjárlögum eða úr sjóðum ráðuneyta. Í von um að ofangreindar ábendingar verði að gagni og að landbrn. og iðnrn. sjái til að niðurstöður fáist um ofangreind atriði sem fyrst.“

Það þarf auðvitað ekki að taka fram að iðnrh. fékk afrit af þessu bréfi. M.ö.o.: það skeður ekkert að dómi þessarar nefndar á árinu 1982. Hvers vegna er þá verið að flytja þessa brtt.? Hvers vegna er þá verið að taka ákvörðun fyrir fram? Við skulum segja að úr því verði og að það verði reist á nokkurn veginn traustum grunni að byggja slíkt ylræktarver. Þegar það liggur fyrir, þegar hægt er að meta hvort það á rekstur fram undan og það eru öruggir aðilar sem að því standa, þá finnst mér alveg sjálfsagt að taka með fullri vinsemd á þessari tillögu. En ég sé enga ástæðu til að Alþingi fari að gefa svona yfirlýsingar fyrir fram, þvert ofan í það sem það fólk, sem hefur verið að kanna þessi mál, er að leggja til. Hvað er hér á bak við? Er einhver feluleikur á bak við þetta? Eru kannske einhverjir nýir að koma inn í dæmið sem kannske er óþægilegt að nefna? Þetta vekur vissar grunsemdir. (Gripið fram í.) Kannske Iscargo ætti að fara í ylræktarver næst, ég veit það ekki.

Þá stendur hér í tillögu minni hl.: Fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs er heimilt á árunum 1982–1985 að ábyrgjast, gegn þeim tryggingum sem hann metur gildar, með einfaldri ábyrgð lán til smíða á fiskiskipum innanlands sem nemi allt að 80% smíðaverðs samkv. mati Ríkisábyrgðasjóðs. Og hér er sagt að þessi skip megi vera allt að 35 m löng og að ábyrgð miðist við að skip sé óselt við veitingu ríkisábyrgðar og ríkisábyrgðin falli niður við sölu skipsins. Mér finnst undarlegt ef það er ætlun ríkisstj., ef hún meinar eitthvað með því að stuðla að raðsmíði, sem átti að gera á s.l. ári, að tala þá um einfalda ábyrgð. Hvar ætlast ríkisstj. til að þessir aðilar fái lán, 80% lán í þessum skipum með einfaldri ábyrgð? Það væri fróðlegt að heyra það af vörum þessara hæstv. ráðh. hvaða lánastofnanir það eru sem eru opnar fyrir tugmilljóna eða hundraða milljóna lánum gegn einfaldri ábyrgð. Það var búið að segja í fjh.- og viðskn. að hér ætti að vera um sjálfskuldarábyrgð að ræða. Þegar nefndin klofnar er ekki vitað annað en að svo sé. Síðan er þessu breytt. Hefði verið hægt að afgreiða lánsfjárlögin fyrr? Það er allt svona í lausu lofti. Vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri gerir á þessu kærleiksheimili. Ég spyr því: Hverjum er ætlað að lána skipasmíðastöðvunum á smíðatímanum gegn einfaldri ríkisábyrgð? Er þar átt við bankana sem er alltaf verið að skerða og hafa ekki fé til nema taka erlent fé að láni til að lána?

Svo er hitt atriði málsins. Nú sækja margir um bæði að kaupa fiskiskip til landsins og byggja innanlands. Fjárráð Fiskveiðasjóðs eru takmörkuð og hann er m.a. skorinn niður. Á sama tíma koma skip inn á færibandi og eftir ákveðnum reglum, og þau eru að verða sum nokkuð skrýtin í laginu sem eru að koma síðustu dagana. En það kvað vera allt gert eftir skipun hæstv. sjútvrh. að hafa lagið skrýtið. Mér sýnist vera komið hálfgert Framsóknarlag á fiskiskipin sem eru að koma.

Það er talað um að gæta hófs í fjárfestingum, en það er haldið áfram viðstöðulaust í skipabyggingum og kaupum á skipum til landsins. Í sambandi við skipakaup til landsins ráða algerlega geðþóttaákvarðanir tveggja ráðh.

Ég ætla að geta hér um eitt atriði. Útgerðarmaður sótti um heimild til þess að kaupa línu- og netaskip frá Noregi og skrifaði viðskrn. um heimild til erlendrar lántöku vegna kaupa á því. Um var að ræða skip 31.20 m á lengd, búið til línu- og netaveiða og með flatningsvél. Verð skipsins var 12 millj. 365 þús. norskar kr. og reiknað með afhendingu í sept. á þessu ári. Skipið, sem hann átti fyrir, var orðið úrelt og hefði annaðhvort verið tekið úr notkun eða selt úr landi fyrir litið verð. Loksins eftir að sá frestur, sem viðkomandi maður hafði, er útrunninn skrifar rn. honum bréf þar sem það heimilar erlenda lántöku sem nemur alls 67% heildarverðs. Þó er heimildin því skilyrði bundin, að lán, sem nemur 50% heildarverðs, verði samþykkt og afgreitt í Fiskveiðasjóði. Heimildin gildir til 1. febr. 1982. Heilt eintak lánsskjala skal afhenda gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 1. febr. 1982.

Gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hringdi oft og spurði manninn hvað liði að afhenda gjaldeyriseftirliti bankans lánsskjölin, sem átti að gera fyrir 1. febr., en hann hafði ekki fengið svar frá Fiskveiðasjóði fyrir þann tíma af þeirri einföldu ástæðu að Fiskveiðasjóður hafði enga peninga að lána. M.ö.o. er leyft að taka erlent lán, en sett að skilyrði að fá lán innanlands hjá sjóði sem hefur enga peninga til að lána. Þetta eru hundakúnstir í lagi. Hér á hlut að máli maður sem búinn er að vera sjómaður, skipstjóri og útgerðarmaður allt sitt líf og er nú kominn í land. Hann fær þessa afgreiðslu. En svo fá ýmsir aðrir kúnstuga afgreiðslu hjá þeim félögum sitt á hvað, hæstv. viðskrh. og hæstv. sjútvrh.

Mér er alveg ljóst að það er mjög vandasamt mál hvernig á að taka á vanda innlendra skipasmíðastöðva. sem þjóð getum við ekki lagt niður skipasmíðina. Það verður að halda henni áfram. En það verður einnig að fara hægt í sakirnar og ekki hægt að velta því öllu yfir á sjávarútveginn, enda er sjáanlegt að þau nýju skip, sem hafa verið að koma á undanförnum árum, geta engan veginn staðið undir vöxtum og afborgunum af stofnlánum sínum.

Í lauslegri rekstraráætlun, sem gerð var í ágústlok á s.l. ári, þar sem gerð er grein fyrir rekstrarframlagi skuttogara af minni gerð til greiðslu afborgana og vaxta af stofnlánum nýs skips miðað við rekstrarskilyrði þá, þegar horft er til eins árs, þyrfti þetta skip að fiska um 16 535 tonn, en skipin með hámarksafla nú eru með rétt innan við 6 þús. tonn. Sjá allir hvert er verið að fara, og ekki hefur ástandið batnað síðan. Að vísu hefur fiskverð hækkað, en gengi hefur líka fallið að sama skapi og verðbólgan æðir áfram.

Á sama tíma sem ríkisstj. tekur ekki alvarlega á iðnaðarvandamálinu fer ríkið sjálft í skipabyggingu. Það leitar til Bretlands þar sem breska ríkisstj. greiðir niður fyrir breskum skipasmíðaiðnaði. Þá á ég við það skip sem Skipaútgerðin er nú að láta smíða í Bretlandi. Mér er ljóst að það voru ýmis vandkvæði á því að smíða þetta skip hér innanlands. En það hafa verið fluttir inn skrokkar fiskiskipa sem hafa verið innréttaðir hér að öllu leyti og hafa skapað íslenskum iðnaðarmönnum mikla vinnu. Af hverju var ekkert gert í því að auka atvinnu Íslendinga sjálfra? Það er ekki vitað að það hafi verið gert á einn eða annan hátt.

Það er vitað mál, að þeir, sem fyrst og fremst ráða stefnunni í peningamálum í þessu landi, eru Allaballarnir. Þeir eru mestu ráðamenn í ríkisstj., eins og allir vita, frá haustinu 1978 og til þessa dags, að undanskildum einum ársfjórðungi. Þeir lögðu fram mjög viðamikla stefnu þar sem þeir töluðu um sjúkdómseinkenni efnahagslífsins. Þeir segja í þessari stefnu sinni frá 1978:

„Erlendar skuldir hafa hlaðist upp í ríkum mæli á seinustu þremur árum og nema nú meira en hálfri millj. kr. á hvert mannsbarn. Íslenskir atvinnuvegir þróast ekki með eðlilegum hætti, heldur hafa staðnað á ýmsum sviðum, en erlend stóriðja sækir á. Framleiðsla landsmanna og gjaldeyrisöflun er ófullnægjandi. Margvísleg fjármálaspilling grefur um sig og siðferðileg upplausn verður æ greinilegri. Verðbólgan hefur um árabil verið helsta gróðamyndunaraðferð íslenskra fjáraflamanna og flytur stöðugt fjármuni frá allri alþýðu til verðbólgubraskara. Verðbólgan fer eldi um fjárfestingarsjóði landsmanna og hvers konar tryggingarsjóði alþýðu, svo að eigin fé þeirra rýrnar verulega á hverju ári. Verðrýrnun peninga ýtir undir fjárfestingarkapphlaup og stuðlar að óarðbærri fjárfestingu í stórum stíl, ekki síst á sviði verslunar og viðskipta.

Þrátt fyrir hagstæðar ytri aðstæður eiga Íslendingar nú við margþættan vanda að etja. Sjúkdómseinkenni birtast með ýmsum hætti. Hér verða nefnd nokkur þau alvarlegustu. Verðbólga, sem nemur þreföldun vöruverðs á rúmum þremur árum, hefur neytt samtök launamanna til látlausrar varnarbaráttu og leitt til endurtekinna stórátaka á vinnumarkaði með skömmu millibili.“ — Þar er átt við útflutningsbannið á íslenskar afurðir. — „Ýmsir þættir atvinnurekstrar og þá einkum útflutningsframleiðslan hafa lent í heimatilbúinni kreppu aftur og aftur vegna sívaxandi rekstrarkostnaðar innanlands.“

Þeir segja að svona sé ástandið í þessu landi 1978 og fyrstu aðgerðirnar þurfi að vera veruleg lækkun söluskatts með annarri tekjuöflun á móti, sparnaði í ríkisrekstri og niðurfellingu útgjalda, lækkun verslunarálagningar og vaxta á afurða- og rekstrarlánum, breyttri stefnu í gjaldeyrismálum. Markmiðið er að endurheimta þann kaupmátt launa, sem náðist í seinustu kjarasamningum, og bæta síðan lífskjör almennings stig af stigi. Það hafa þeir gert með því að skerða verðbætur á laun 10 eða 11 sinnum síðan.

Orsakir vandans, segja þessir herrar, eru að aðgerðir, sem þá voru gerðar, felast í skefjalausum gengisfellingum, sem nú svara til 170% hækkunar á erlendum gjaldeyri síðan ágúst 1974, og stórfelldri hækkun á óbeinum sköttum. Hugsið ykkur það. 170% hækkun á erlendum gjaldeyri á fjórum árum. Og nú koma þeir og stjórna, þessir frelsandi englar, og þeir hafa stillt svo trommuna að dollarinn hefur hækkað úr 2.60 frá 1. sept. 1978, þegar þessir herrar tóku við, miðað við nýkr. í 10.11 kr. Á þremur og hálfu ári hefur dollarinn hækkað um 288% á móti 170 á fjórum árum. Það er von að sakleysinginn úr Alþb. segi að þetta sé miklu betra, því að þetta er hærri tala. Svona er farið að ráðast að vandanum, svona var farið að því að lýsa ástandinu sem var á þessum árum, og svona er staðið að málum þegar þessir menn komast í ráðherrastóla og ráða.

Hvað segja þeir um vaxtamálin þarna? Vextir hafa verið hækkaðir gífurlega og verið tengdir við hraða verðbólgunnar. Hækkun vaxta er sögð afleiðing verðbólgunnar, en óneitanlega eru háir vextir um leið ein af orsökum hennar. Af hverju hækka vextir á hverju einasta ári? Af hverju er verið að hækka vexti nú á þessu ári? Því er lýst yfir, að ríkisstj. vilji lækka vextina. Og þeir lækkuðu að vísu, víxilvextir, um 1%, en þá hættu bankarnir að mestu að lána víxla, en hækkuðu líka þóknunina á móti. En verðtrygging lána á sér stað. Vaxtakostnaður eða lántökukostnaður hefur aldrei verið meiri en eftir veru Allaballanna í ríkisstj. Og hverjir fara verst út úr vöxtum? Hverjir fara verst út úr þessari miklu verðbólgu? Það er fyrst og fremst fólkið sem hefur lægst launin. Verðbólgubraskararnir geta þrifist. Þeir hafa margir haft gott upp úr myntbreytingunni. Þeir hafa ekki skammað ríkisstj. Þeir hafa þagað.

Stuðlað sé að sem stöðugustu gengi íslensku krónunnar, segir Alþb. 1978, og horfið af braut gengisstefnunnar sem ríkt hefur í gjaldeyrismálum Íslendinga að undanförnu. (Gripið fram í: Hvað er þm. að lesa?) Nei, þetta var allt brennt í skrifstofu Alþb. og ekki einu sinni Hjörleifur getur fengið eintak, hvað þá einkavinur hans úr Vestmannaeyjum. Getur nokkur maður hugsað sér ómerkilegri menn en þessa menn? Er til annað eins í víðri veröld? Hugsið ykkur smekkleysuna að geta setið með þessum kauðum í ríkisstj.

Ríkisstj. talar alltaf um aðhald. Það er eitt af því fáa sem forsrh. kann að tala um. Rétt um það bil sem sex ráðherrar voru að fara á þing Norðurlandaráðs í Finnlandi skrifaði Ragnar Arnalds fjmrh. bréf, sparnaðarbréf til allra í ríkiskerfinu. Þar segir hann: Útgjaldalækkun er í meginþáttum tvíþætt. Í fyrsta lagi er um að ræða 6% lækkun allra framlaga til framkvæmda fjárfestingarlánasjóða svo og tilfærslu til stofnana og samtaka. Í öðru lagi er stefnt að lækkun rekstrarútgjalda stofnana í samvinnu við rn. og stofnanir með auknu eftirliti og aðhaldi. Nær þetta m.a. til endurráðninga, yfirvinnu og utanlandsferða starfsmanna. Eftir þetta sparnaðarbréf fóru þeir sex til Finnlands og fimm höfðu konurnar með. Flokkurinn, sem fór á vegum ríkisstj., var yfir 20 manns auk hinna kjörnu þingfulltrúa, sem eru ákveðnir hér af Alþingi, sex að tölu. Það vita allir. Nú hef ég ekki á móti því, að ráðh. sæki slíka fundi, en ég tel enga ástæðu til að þeir stökkvi sex úr landi í einu á kostnað þjóðarinnar, á sama tíma og þeir eru alltaf að tala um aðhald og sparnað í rekstri. Það er ekkert að marka þessa menn, ekki neitt.

Það frv., sem hér er til afgreiðslu, til lánsfjárlaga gerir ráð fyrir að það verði 33% verðbreyting milli áranna 1981 og 1982 en það þýðir 25–27% verðbólgu frá ársbyrjun til ársloka á þessu ári. Þetta er sama grundvallarforsenda og „reiknitala“ fjárlaga frv. Frá því að þessi „reiknitala“ var ákveðin á haustmánuðum hefur orðið veruleg launabreyting. Grunnkaup hækkaði um 3.25% umfram forsendur fjárlagafrv. fyrir síðustu áramót, og í kjölfar meiri fiskverðshækkunar en gert er ráð fyrir í þessum forsendum varð stórfelld gengisbreyting í janúar. Gengi Bandaríkjadollars hefur hækkað um 33.2% síðan 9. okt í fyrra, þegar frv. til lánsfjárlaga var lagt fram, og er þá meðtalin 12% gengisbreyting í jan. s.l. Og eins og ég sagði áðan, frá því að Allaballaáhrifa fer að gæta á stjórn landsins 1. sept. 1978 til 25. mars 1982 hefur gengi dollarans hækkað um aðeins 288%, og þeir eru býsna hrifnir af.

Verðbólgan verður augljóslega meiri en 25–27% á þessu ári, en það þyrfti hún að verða ef forsendur lánsfjárlaga ættu að standast. Jafnvel ríkisstjórnin í sinni draumórakenndu óskhyggju segist ætla að festa bót á efnahagsstefnu sína síðar á þessu ári með því að draga úr hraða verðbólgunnar í 30%. Ríkisstj. er nú í virkum verðbólgudansi og getur hver sem er spurt sjálfan sig að því, hvernig muni takast til að festa nýja bót á verðbólgubuxur ríkisstj. á þeirri fleygiferð og húlahoppi sem hún stundar í vaxandi mæli. Ég er hræddur um að nálin, sem festa á með bótina, muni fara inn úr buxunum og ekki verði það til þess að draga úr hávaðanum.

Nú fyrir nokkrum dögum voru tvær vísitölur reiknaðar. Seðlabankinn hefur reiknað út lánskjaravísitölu fyrir aprílmánuð og hækkaði hún um 3.71 á þeim mánuði. Það jafngildir 54.9% á 12 mánuðum. Hagstofan hefur reiknað út vísitölu byggingarkostnaðar eftir verðlagi í fyrri hluta mars. Hún reyndist vera 1015 stig og hafði hækkað um 11.7% frá síðasta útreikningi, þ.e. frá byrjun des. 1981.

Á einu ári hefur byggingarvísitalan hækkað úr 681 stigi í 1015 stig eða um liðlega 48.8%. Sé hins vegar 11.7% hækkun byggingarvísitölunnar framreiknuð næstu 12 mánuði þýðir það 55.67%.

Sé litið á hækkun framfærsluvísitölunnar óniðurgreiddrar reyndist hún 12.7% 1. febr. s.l., og spár Hagstofunnar og Þjóðhagsstofnunar benda til þess, að svipuð hækkun verði 1. maí. Þetta jafngildir um 58% hækkun á 12 mánuðum. Jafnvel þótt niðurgreidd framfærsluvísitala sé lögð til grundvallar í verðbólguútreikningum, sem augljóslega er misvísandi mælikvarði, svo að ekki sé meira sagt, reiknast verðbólguhraðinn á þann mælikvarða 45% á 12 mánuðum.

Það er því deginum ljósara, miðað við þá þróun, sem við blasir í verðbólguhraða, og hið öra gengisfall krónunnar frá því að frv. til lánsfjárlaga var lagt fram, að lánsfjárlög, ef afgreidd verða á þann hátt sem lagt er til í till. minni hl. fjh.- og viðskn., verða byggð á forsendum sem brostnar eru fyrir löngu. Á það skal bent og það undirstrikað, að lánsfjárlög, sem byggð eru á svo röngum forsendum um verðbólgu og gengisskráningu, en fastri krónutölu til ýmissa framkvæmda, þýða raunverulega stórfelldan sjálfvirkan niðurskurð á framkvæmdum og leiða til algers glundroða í fjármálakerfi landsins. Hér er um miklu meira alvörumál að ræða en að því er varðar fjárlög, vegna þess að tekjur fjárlaga hækka með aukinni verðbólgu, en í lánsfjárlögum er miðað við ákveðna krónutölu til hinna ýmsu framkvæmda sem fyrirhugaðar eru samkv. þeim.

Hér skal ítrekað, að það frv. til lánsfjárlaga sem hér er til afgreiðslu og áætlunin, sem því fylgir, einkennast af óraunsæi í innlendri fjáröflun, mikilli erlendri skuldasöfnun og mörgum óleystum vandamálum sem einfaldlega eru skilin eftir vitandi vits af hálfu stjórnarsinna. Með afgreiðslu frv. er því hvorki verið að marka stefnu né taka ákvarðanir um hvernig staðið skuli að málum, heldur einungis verið að fullnægja gersamlega misskildum sjálfsmetnaði sem núv. ríkisstj. hafði í upphafi. Frv. og þau lánsfjárlög, sem hér er verið að afgreiða að tillögu minni hl. n., bera með sér sama bráðabirgðabragðið og aðrar aðgerðir ríkisstj. Meiri hl. n., fulltrúar stjórnarandstöðunnar, er andvígur þessum vinnubrögðum og þeim leikaraskap sem í þeim felst.

Það, sem þessi þjóð þarf á að halda, er að fá alvöruríkisstjórn og alvöruforsætisráðherra, ekki mann sem lifir í hugarheimi og tekur ekki tillit til þess sem er að gerast í kringum hann. Og það má segja að eftir höfðinu dansa limirnir, þó að höfuðið ráði þarna í raun og veru engu, því að það eru limirnir sem sprikla, eins og við sáum hér í gær. Það er þetta sem þessa þjóð vantar til þess að snúa við af þeirri ógæfubraut sem hún er á. Og það er mikið sem Allaballarnir geta lært — því að þeir geta lært ef þeir vilja læra — að taka upp þann sið að segja satt um málin. Til eru menn í Allaballaflokknum sem eru ábyrgir menn og hafa sýnt að þeir geta verið ábyrgir, en því miður er enginn þeirra í ríkisstj.