24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3249 í B-deild Alþingistíðinda. (2849)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Aðalerindi mitt er það, að ég vildi mega draga 21. brtt. á þskj. 503 til baka til 3. umr. Ég gat þess í framsögu með nál., að við teldum nauðsynlegt að athuga hana betur milli 2. og 3. umr. Þess vegna finnst mér eðlilegt að till. verði dregin til baka milli umr.

En ég vil taka fram vegna fyrirspurnar hv. þm. Karvels Pálmasonar um Skipaútgerð ríkisins, að ég átti satt best að segja von að þm. Vestfirðinga hefði meiri áhuga á eflingu Skipaútgerðar ríkisins en svo, að hann væri að draga í efa að heimilt væri að endurnýja skipakost hennar. Eins og allir vita þjónar þetta fyrirtæki fyrst og fremst þeim stöðum á landinu sem búa við erfiðustu samgöngurnar, ekki síst Vestfjörðum, og ég átti von á að hann fagnaði því, að nú væri fram undan miklar framfarir hjá þessu fyrirtæki. En í athugasemdum við fjárlög stendur eftirfarandi:

„Á árinu 1982 er áformað að afla heimilda til lántöku alls að fjárhæð 40 millj. kr. til endurnýjunar skipastóls fyrirtækisins. Fjárhæðin er við það miðuð að lánsfé áranna 1981 og 1982 renni til smíði sem svarar eins skips og kaupa á öðru.“

Samgrn. ritaði fjh.- og viðskn. bréf, dagsett 2. nóv., — það er greinilega ritvilla, það á að vera 2. des. vegna þess að með því er bréf frá Skipaútgerð ríkisins dagsett 1. des. 1981, — þar sem rakið er að í þessu bréfi frá Skipaútgerðinni sé áætluð fjárfesting á árinu 1982 eftirfarandi:

Nýsmíði 39.6 millj. kr. eða 2465 þús. pund. Kaup á Lynx (það er norskt skip) 21.8 millj. kr. Bygging vöruskemmu 6.5 millj. kr. og tækjabúnaður 2 millj. Þetta eru samtals 69.9 millj. Frá því dregst lántökuheimild frá árinu 1981 11 millj. og áætlað söluverð m/s Heklu 6.5 millj. Lántökuþörf 1982 er því 52.4 millj. kr.

Hinn 20. jan. 1982 ritaði samgrn. eftirfarandi bréf til Skipaútgerðar ríkisins:

„Ráðuneytið hefur að undanförnu haft til athugunar ósk Skipaútgerðar ríkisins um heimild til þess að kaupa norska skipið Lynx. Á fjárlögum fyrir yfirstandandi ár er 40 millj. kr. lántaka til þess að fjármagna m.a. kaup á skipi fyrir útgerðina. Með vísun til þessarar heimildar á fjárlögum samþykkir rn. hér með kaup Skipaútgerðar ríkisins á norska skipinu Lynx.“

Síðan leggjum við til í brtt. okkar að Skipaútgerðin fái heimildir til þess að taka lán allt að 53 millj. kr. á árinu 1982. Með þessu held ég að ljóst megi vera að viðkomandi rn. og Skipaútgerð ríkisins hafa haft fullar heimildir til þeirra athafna sem framkvæmdar hafa verið.