03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 365 í B-deild Alþingistíðinda. (285)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í upphafi 1. umr. um frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 vil ég fara nokkrum orðum um meginmarkmið ríkisstj. sem hafa verður í huga þegar rætt er um fjárlagafrv. og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982. Í sem fæstum orðum sagt lúta þessi markmið að því að reka þjóðarbúskapinn á heilbrigðan hátt og án teljandi viðskiptahalla: að tryggja afkomu atvinnuveganna og fulla atvinnu um land allt; að draga verulega úr verðbólgu; að reka ríkissjóð hallalaust; að halda uppi viðunandi kaupmætti ráðstöfunartekna almennings; að efla íslenska menningu og auka félagslegt réttlæti í landi okkar.

Þetta eru mikilvæg markmið, en ekki skal því neitað að þegar þeim er lýst í örfáum orðum, eins og hér er gert, er hætt við að þau hljómi innantóm nema ítarlegri grein sé fyrir þeim gerð. Þess vegna vil ég ræða hér í upphafi um þessi sex markmið í ljósi fenginnar reynslu af bráðum tveggja ára starfi núv. ríkisstj.

Fyrsta meginmarkmiðið, sem ég nefndi, er heilbrigður og hallalaus rekstur þjóðarbúsins. Vissulega er æskilegast að fullur jöfnuður sé á viðskiptum landsins við önnur ríki. En á þeim tímum, þegar fjárfesting þjóðarinnar í mannvirkjum og nýjum atvinnutækjum nemur fjórðungi af þjóðarframleiðslu, er erfitt að ná jöfnuði að fullu, og minna má á að gífurlegar olíuverðshækkanir hafa valdið stórfelldum halla á viðskiptajöfnuði flestra nálægra þjóða. Áætlaður viðskiptahalli íslenska þjóðarbúsins er hins vegar aðeins 0.5% á þessu ári, en á seinustu tíu árum hefur viðskiptahallinn átta sinnum verið 5–20 sinnum meiri en nú.

Viðskiptahalli, sem nemur aðein 0,5% af þjóðarframleiðslu, táknar með öðrum orðum sagt, að nær öll fjárfesting landsmann á þessu ári í nýju og glæsilegu orkumannvirki við Hrauneyjafoss, í nýjum hitaveitum víðs vegar um land, í stórfelldum framkvæmdum við Suðausturlínu og í margvíslegum fjárfestingum, t. d. skipa- og flugvélakaupum, sem munu koma okkur til góða um langt skeið, sumar jafnvel í marga tugi ára, — að nær öll þessi fjárfesting er borguð á borðið af þjóðarbúinu þegar nánar er að gáð.

Menn spyrja vafalaust í þessu sambandi hvað eigi þá að segja um miklar erlendar lántökur þjóðarbúsins á þessu ári. Þær eru talsvert miklar, það er rétt. Erlendar lántökur umfram afborganir á þessu ári nema rúmlega 1000 millj. kr. En um hitt er minna rætt, að á sama tíma er áætlað að gjaldeyrisstaða landsmanna muni batna um 400 millj. kr. Menn kunna að spyrja í framhaldi af þessu hvort ekki væri rétt að draga úr erlendum lántökum úr því að ekki er bein gjaldeyrisleg þörf á svo miklu fjármagni erlendis frá. Gjaldeyrisstaðan héldist þá óbreytt, en innflutningur erlends fjármagns yrði að sama skapi minni, sem aftur á móti myndi draga úr þenslu og peningaveltu og stuðla að minnkandi verðbólgu.

Svar mitt við þessari spurningu er tvímælalaust jákvætt. Æskilegast er að draga úr erlendum lántökum að því marki að gjaldeyrisstaðan haldist óbreytt. En þetta verður ekki gert með því að skera niður framkvæmdir, eins og sumum dettur kannske fyrst í hug. Eina ráðið, sem tiltækt er, er að efla skipulagðan innlendan sparnað í þágu lánsfjáráætlunar, annaðhvort úr bankakerfinu, frá lífeyrissjóðunum eða frá skattgreiðendum og neytendum. Aukin innlánsbinding bankakerfis í þágu lánsfjáráætlunar, aukið lánsframboð lífeyrissjóða til fjárfestingarsjóða og sérstök fjáröflun til að standa undir fjármagnskostnaði byggðalína, — allt eru þetta leiðir að þessu sama marki: að draga úr erlendum lántökum og efla innlendan sparnað. En hitt er víst, að engin þessara leiða er vinsæl og öll viðleitni í þessa átt mun kalla á hávær mótmæli frá ýmsum aðilum.

Þessi mál verða til nánari athugunar næstu vikur og endanlegar ákvarðanir hafa ekki verið teknar. En ég ítreka þá athyglisverðu staðreynd, sem skiptir hér mestu máli, að halli á viðskiptajöfnuði er bersýnilega langtum minni en nemur tölum um erlendar lántökur eða um 100 millj. kr. á þessu ári, sem svarar til 0.5% þjóðarframleiðslu eins og áður er sagt. Á þessu sviði er því árangur okkar betri en flestra nálægra þjóða sem nú eru margar staddar í djúpum kreppudal.

Þessi samanburður við nálæg ríki leiðir hugann að ástandi atvinnumála hér á landi og í nálægum löndum. Þar er sannarlega ólíku saman að jafna. Hins vegar er nú meira rætt um versnandi afkomu fyrirtækja.

Ekki skal því haldið fram að ágætt atvinnuástand hér á landi sanni hitt, að afkoma í atvinnurekstri sé almennt viðunandi. Afkoma fyrirtækja er mjög misjöfn eins og oftast áður. Óvæntar sveiflur í gengi nokkurra gjaldmiðla ógna afkomu vissra framleiðslugreina. Sívaxandi fjármagnskostnaður og skortur á rekstrarfé þrengir ískyggilega að fyrirtækjum sem veik voru fyrir. Hörð barátta ríkisstj. fyrir minnkandi verðbólgu hefur einnig leitt óhjákvæmilega til þess, að sums staðar hriktir í. En rétt er að minna á að ríkisstj. hefur gert fjölmargar ráðstafanir undanfarin misseri til að auðvelda atvinnurekstrinum að brjótast gegnum aðsteðjandi erfiðleika og hún mun áfram sjá til þess að atvinnurekstur í landinu gangi með eðlilegum hætti.

Erfiðleikar í atvinnurekstri leiða oft til uppstokkunar í rekstri, aukinnar hagræðingar og betri stjórnunar og var oft ekki vanþörf á. Áhyggjulaus atvinnurekstur er vondur rekstur. En hitt er að sjálfsögðu meginatriði: að tryggja fulla atvinnu í landinu. Í nær öllum nálægum ríkjum austan hafs og vestan er gífurlegt atvinnuleysi ríkjandi: 10% í Danmörku, 8% í Bandaríkjunum, 11% í Bretlandi. Víða er atvinnuleysið meira en í kreppunni miklu á fjórða áratugnum. En hér hefur tekist að tryggja fulla atvinnu með fáum undantekningum, og þegar á heildina er litið er atvinnustig hér á landi með því besta sem verið hefur.

Vissulega hefur þessi athyglisverði árangur, sem náðst hefur á tímum kreppu í efnahagslífi flestra annarra þ jóða, kostað það, að ekki er hér allt eins og við hefðum viljað í efnahagslífi landsmanna. Verðbólga er enn mjög mikil. Við höfum forðast lamandi leiftursókn gegn lífskjörum og framförum en þess í stað leitast við af feta okkur út úr vítahring verðbólgunnar hægum en öruggum skrefum.

Þrátt fyrir allt hefur verðbólgustríðið farið verulega lækkandi. Á árinu 1979 voru verðhækkanir um 61% frá upphafi til loka árs og 59% á árinu 1980, en verða sennilega um 40% á því ári sem er að líða. Þessu marki verður þó fyrst í árslok. Auðvitað er það rétt, sem stjórnarandstaðan bendir á, að verðbólgan 1. júní s. l. var tæp 51% miðað við seinustu 12 mánuði og liðlega 49% 1. sept. s. l. En eins og áður er sagt er það fyrst í árslok sem 12 mánaða breytingin er komin niður í 40%. Að sjálfsögðu kemur ekki heldur á óvart að aukning tekna og útgjalda ríkissjóðs sé meiri en nemur verðbólguvexti á sama tíma, en tekjur og gjöld ríkisins jukust um 60–61% fyrstu 9 mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra. Rekstur ríkisins fylgir fleiri lögmálum en verðlagsbreytingum. Má þar nefna fólksfjölgun, aukningu ráðstöfunartekna, veltuhraða fjármagnsins, verulega magnaukningu í útgjöldum tryggingakerfisins og ýmsar fleiri ástæður sem ekki tengjast hreyfingu framfærsluvísitölu.

Í þessu sambandi er rétt að víkja örfáum orðum að einkennilegum umræðum sem orðið hafa að undanförnu um reiknitölu fjárlagafrv., en eins og kunnugt er er hún miðuð við 33% meðalhækkun verðlags og launa milli áranna 1980 og 1981. Reiknitala fjárlagafrv. hefur aldrei verið sett fram hvorki sem verðbólgumarkmið né verðbólguspá, enda var það þannig til skamms tíma, að í fjárlagafrv. var alls ekki áætlað fyrir verðbólgu komandi árs. Á seinustu árum hefur þetta þó verið gert en alltaf af varkárni. Það hefur því ekki gerst um mjög langt skeið, að tekjur og gjöld ríkisreiknings hafi verið í samræmi við fjárlagatölur. Á árunum 1971 til 1980 voru gjöldin 11.5–39.5% hærri en fjárlagatölur, oftast nærri 20% hærri, en næst fjárlagatölum komust útgjöldin á seinasta fjárlagaári, árinu 1980, þegar þau urðu 10.4% hærri en fjárlagatölur. Vonandi verður þessi munur enn minni á komandi fjárlagaári, en ekki er raunsætt að gera ráð fyrir öðru en hann verði einhver.

Það er ekki mjög traustvekjandi þegar ein aðalgagnrýni stjórnarandstöðunnar á fyrirliggjandi fjárlagafrv. byggist á því, að í athugasemdum með frv. er beinlínis viðurkennt að verðbólga kunni að verða meiri en frv. gerir ráð fyrir. Það er rétt eins og verið sé að fordæma hreinskilni og heimta meira óraunsæi.

Sannleikurinn er sá, að þegar vinnan við fjárlagafrv. hefst í sumarbyrjun er lengra í næsta ár en svo að nokkur von sé til þess, að unnt sé að spá nákvæmlega um verðbólgu á komandi fjárlagaári, a. m. k. meðan verðbólgan er 30–50%. Eins mun flestum ljóst að betra er að hafa reiknitölu fjárlaga fremur of lága en of háa miðað við tekju- og útgjaldakerfi ríkissjóðs. Spá um verðbólgu á komandi ári er fyrst raunhæft að gera á haustmánuðum, og hætt er við að sú spá verði ekki traust að þessu sinni fyrr en nýir kjarasamningar liggja fyrir.

Því verður ekki á móti mælt, að ríkissjóður var rekinn hallalaust árið 1980 í fyrsta skipti um árabil, og raunar með umtalsverðum tekjuafgangi, eða sem nam 3.7% af útgjöldum ársins samkv. framlögðum ríkisreikningi. Flest bendir til þess, að rekstur ríkissjóðs sé áfram í viðunandi jafnvægi. Nokkur tekjuafgangur hjá ríkissjóði er eðlilegur og nauðsynlegur með hliðsjón af því, að álagðir en óinnheimtir skattar skila sér aldrei að fullu.

Árin 1975–1979 var rekstrarhallinn að meðaltali 3.1% , seinasta árið, 1979, 0.4%, og verður að segjast eins og er að þeim mun skuggalegri hefur afkoman verið þegar verulegur halli taldist á ríkisreikningi að meðtöldum óinnheimtum tekjum.

Viðbrögð manna við ágætri afkomu ríkissjóðs hafa verið misjöfn. Flestir hafa fagnað því, að náðst hefur jafnvægi eftir margra ára skuldasöfnun ríkissjóðs. En til eru þeir sem telja pólitískt hyggilegast að afgreiða málið með því að segja bókhaldið sé falsað. Þetta er óneitanlega afar einföld lausn, einfalt svar, en gæti reynst heldur varhugavert fyrir íslenski þingræði og þjóðmálaumræður á Íslandi ef mark væri á því tekið. Hvert er aðhald þings og þjóðar að gerðum ríkisstj. og fjmrh. ef slíkum fullyrðingum er almennt trúað? Það hvílir því þung ábyrgð á þeim sem þessu halda fram, þung skylda að sanna fullyrðingar sínar.

Löggjöf um ríkisbókhald, gerð ríkisreiknings og fjárlaga frá árinu 1966 var einmitt sett til að koma í veg fyrir villandi færslu ríkisreiknings og tryggja raunhæfa og sambærilega uppsetningu fjárlaga frá ári til árs. Í þessum lögum, sem eru í 82 greinum, eru ítarleg fyrirmæli um bókfærslu ríkisútgjalda. Ríkisreikningur er saminn af ríkisbókhaldi undir stjórn ríkisbókara samkv. fyrirmælum þessara laga.

Það er mikill misskilningur, að unnt sé að greiða rekstrarútgjöld með lánum eða lántökum og leyna þannig útgjöldum eða falsa afkomu ríkissjóðs. Engu breytir hvort útgjöld ríkissjóðs eru greidd með framlagi eða láni, því að í báðum tilvikum eru þau færð til útgjalda, hvort heldur í fjárlagafrv., fjárlögum eða ríkisreikningi.

Rekstrarafkoma ríkissjóðs fer eftir mismun tekna og gjalda sem undantekningarlaust verður að færa eins og lög fyrirskipa. Ekki er annað vitað en það hafi verið gert lögum samkvæmt og ber sérhverjum alþm., sem fullyrðir annað, tvímælalaus skylda til að reyna að sanna mál sitt með einhverjum rökum. Því hefur verið haldið fram, að rekstrarhalli ríkissjóðs sé leyndur og felist í flutningi útgjalda yfir í lánsfjáráætlun. Með því hlýtur að vera átt við að fyrirtæki ríkissjóðs séu færð í stórum stíl úr A-hluta í B-hluta og þannig sé útgjöldum létt af ríkissjóði. Ef litið er á fjárlög fyrir árin 1980, 1981 og 1982 er ljóst að fullyrðing þessi er fjarri öllu lagi. Nokkur dæmi eru að vísu um tilflutning fyrirtækja frá A-hluta til B-hluta, en hin eru vafalaust fleiri og stærri sem felast í flutningi fyrirtækja frá B- til A-hluta.

Stefnt hefur verið að því, að allur kostnaður við undirbúning nýrra raforkuvera verði greiddur af tekjum þessara orkuvera. Kostnaður þessi er því allur skráður í B-hluta. Sama gildir um orkuverið við Kröflu sem nú fyrst er farið að skila verulegri orku. Fjármagnskostnaður við Kröflu var því fluttur úr A-hluta í B-hluta. Rétt er þó að hafa í huga að öll árin, sem ríkisstj. Geirs Hallgrímssonar sat að völdum, öll árin, sem hv. þm. Matthías Á. Mathiesen var fjmrh., voru fjármagnsútgjöld Kröflu færð í B-hluta, eins og nú er aftur gert, og var þó virkjunin algerlega tekjulaus á þeim tíma.

Fjármagnskostnaður við stofnlínur milli landshluta, svokallaðar byggðalínur, hefur alltaf verið færður í B-hluta og svo er enn. En nú er þó í fyrsta sinn stefnt að föstum tekjustofni til að standa undir afborgunum og vöxtum af þessum linum.

Á hinn bóginn fer ekki milli mála að stórfelld útgjöld hafa verið færð úr B-hluta í A-hluta í tilvikum þar sem segja má með rökum að viðkomandi aðilar standi ekki undir lántökum. Dæmi þessa eru fjárfestingar á vegum Rafmagnsveitna ríkisins, liðirnir dreifikerfi í sveitum og sveitarafvæðing, svo og framkvæmdir Flugmálastjórnar sem áður voru fjármagnaðar að hluta til með lánum í B-hluta en hafa verið fluttar í A-hluta.

Enginn vafi er á því, að þessar breytingar milli A- og B-hluta sýna réttari og raunhæfari mynd af rekstri ríkissjóðs en áður var. En þær eru um leið óhagstæðar fyrir bókhald ríkissjóðs þegar á heildina er litið, og miklu fremur er um að ræða að verið sé að flytja halla úr B-hlutanum og inn í A-hluta fjárlaga.

Á sama tíma hefur greiðslustaða ríkissjóðs gagnvart Seðlabanka batnað, eins og best sést á því, að skuld ríkissjóðs við Seðlabankann sem hlutfall af þjóðarframleiðslu hefur lækkað seinustu árin, var 5.2% af þjóðarframleiðslu 1975 en stefnir í hlutfall sem er innan við 2% í lok þessa árs.

Vissulega er rétt að hafa í huga að skuldin við Seðlabankann er ekki eina skuld ríkissjóðs. Nú eins og alltaf áður tekur ríkissjóður lán hjá öðrum aðilum til verklegra framkvæmda, en reynt hefur verið að tryggja að afborganir lána væru hverju sinni hærri en tekin lán ríkissjóðs. Þannig var þetta ekki áður því á seinasta áratug tók ríkissjóður árlega stórfelld lán til viðbótar við vaxandi skuldasöfnun í Seðlabanka. Greiðsluafkoma ríkissjóðs hefur því einnig batnað verulega um leið og rekstrarafkoman hefur batnað.

Fimmta meginmarkmiðið, sem ég nefndi, voru lífskjörin, kaupmáttur ráðstöfunartekna almennings. Augljóst er að kaupmáttur lægri launa er of lítill. Á hitt ber að líta, að ráðstöfunartekjur á mann hafa heldur farið vaxandi á þessu ári og eru nú með því hæsta sem þær hafa verið samkv. upplýsingum Þjóðhagsstofnunar, eða um 161 miðað við 100 árið 1970. 146 var kaupmátturinn árið 1974 og 149 árið 1977 en er sem sagt nú 161. Í þessu sambandi verður einnig að hafa í huga að viðskiptakjör þjóðarinnar, skiptahlutfallið í viðskiptum landsmanna við önnur lönd versnaði gífurlega á árunum 1978–1980 og er enn lægra en oftast áður á seinustu 10 árum. Viðskiptakjörin urðu aðeins tvisvar á seinustu árum lakari en þau eru nú, þ. e. árin 1975 og 1980.

Satt að segja er stórmerkilegt að það skuli hafa tekist seinustu tvö árin að halda uppi einum hæsta kaupmætti ráðstöfunartekna sem nokkurn tíma hefur verið hér á landi, á þeim tíma þegar viðskiptakjör eru með því lakasta sem verið hefur seinasta áratuginn.

Í þessu sambandi er sérstaklega athyglisvert að kaupmáttur elli- og örorkulífeyris að viðbættri tekjutryggingu hefur haldist á bilinu 247 til 259 miðað við 100 árið 1970 og er áætlaður á þessu ári 255. Kaupmáttur ellilífeyris hefur því hækkað um 155% á einum áratug og um 21% á seinustu fimm árum, en kaupmáttartalan var 211 árið 1976, miðað við 100 árið 1970.

Sjötta markmiðið, sem ég nefndi, efling íslenskrar menningar og markviss skref á átt til aukins félagslegs réttlætis, verður að sjálfsögðu ekki metið á mælistiku tölfræðinnar. Hitt er ánægjuleg staðreynd, að á tímum vaxandi kaupmáttar ráðstöfunartekna og mikils aðhalds í rekstri ríkissjóðs hefur einnig orðið hagstæð þróun á þessu sviði. Nægir að nefna sem dæmi fæðingarorlof fyrir allar mæður, sem kom til framkvæmda á þessu ári, og hlutfallslega aukin framlög til lista- og menningarstarfsemi, eins og nánar verður vikið að síðar.

Annað réttlætismál, sem varð að veruleika á þessu ári, var lækkun beinna skatta á lágum tekjum og miðlungstekjum með afnámi 11/2% sjúkratryggingagjalds af tekjum ársins 1980 upp að 61/2 millj. gkr. Skattalækkun þessi nýttist þó að fullu fyrir skattgreiðendur með tekjur allt að 12 millj. kr. Jafnhliða þessu hækkaði tekjutrygging öryrkja og aldraðra um 7% umfram almennar launahækkanir. Fjöldamörg önnur félagsleg réttindamál mætti nefna en þess gerist ekki þörf í þessum sal.

Við skulum nú víkja nánar að efnahagsframvindu þessa árs og horfum fram undan og ræða fyrst um viðskiptakjörin.

Efnahagsmálaumræðan á síðustu vikum og mánuðum hefur að ýmsu leyti einkennst af stöðu útflutningsatvinnuveganna. Miklar sviptingar í gengisþróun á þessu ári hafa haft margvísleg áhrif á efnahagslífið. Hækkun á gengi dollarans gagnvart Evrópumyntum og verðhækkun í dollurum á nokkrum mikilvægum sjávarafurðum hefur verið hagstæð fyrir hluta útflutningsatvinnuveganna, sérstaklega frystiútflutninginn. Breytingar á útflutningsverði eru hins vegar mjög mismunandi og þrátt fyrir hækkun í dollurum á saltfiski, mjöli og lýsi fyrri hluta ársins hefur verðið farið lækkandi á síðustu mánuðum. Á þessu ári hefur einnig orðið mikil lækkun á verði áls, kísilgúrs og kísiljárns svo og á verði ýmissa iðnaðarvara.

Innflutningsverð breyttist lítið fyrstu mánuði ársins en fór síðan ört hækkandi. Olíuverð á Rotterdam-markaði hefur lengst af á þessu ári verið tiltölulega lágt miðað við heimsmarkaðsverð á hráolíu. Verðið er hins vegar í dollurum og vegna gengishækkunar dollarans hækkar olíuverð í krónum að líkindum meira en annað innflutningsverð.

Þó svo gengishreyfing dollarans hafi verið þjóðarbúinu hagstæð framan af árinu 1981 er mikil óvissa um þróun gengismála. Hin háa gengisskráning dollarans mun óhjákvæmilega hafa áhrif á verð afurða sem skráð er eða samið er um í dollurum á mörkuðum utan Bandaríkjanna. Nú þegar er farið að gæta samdráttar í eftirspurn á ýmsum útflutningsafurðum. Þótt gengisbreytingar ráði miklu um viðskiptakjör kemur þó fleira til. Verð á útflutningi á erlendum mörkuðum skiptir hér verulegu máli. Ekki er nú reiknað með að markaðsverð á frystiafurðum í Bandaríkjunum fari hækkandi á árinu 1982 frá því sem nú er.

Því er spáð, að verð á áli og kísiljárni fari heldur upp á við, enda þótt slíkt sé að verulegu leyti háð efnahagsþróun í heiminum og þar með eftirspurn eftir þessum málmum.

Af öllum sólarmerkjum að dæma virðist sem hagstæð gengisáhrif dollarans á viðskiptakjör séu nú í hámarki. Að svo stöddu er gengið út frá því, að gengi helstu mynta haldist óbreytt innbyrðis eins og það er nú. Aftur á móti er óvarlegt, eins og málin horfa nú við, að búast við viðskiptakjarabata á næsta ári, og í þjóðhagsáætlun er gert ráð fyrir að viðskiptakjör verði 1–2% lakari en þau eru áætluð á þessu ári.

Vík ég nú að utanríkisviðskiptum.

Horfur eru á að þorskfiskafli 1981 verði um 450 þús. tonn, samanborið við 426 þús. tonn árið 1980. Annar botnfiskafli er einnig talinn verða nokkru meiri en í fyrra. Óvissa ríkir um loðnuaflann. En sé miðað við að loðnuaflinn á haustvertíð verði svipaður og 1980 og að fullu verði veitt upp í síldarkvóta má ætla að sjávarafurðaframleiðslan verði um 21/2% meiri en á árinu 1980.

Fyrstu mánuði ársins í ár var dregið verulega úr framleiðslu á áli og kísiljárni vegna raforkuskorts. Framleiðslan á árinu verður því töluvert minni en nemur fullum atköstum verksmiðjanna. Lægð í efnahagslífi Evrópuríkja hefur einnig valdið samdrætti í eftirspurn eftir þessum málmum svo og verðlækkun. Nokkrar birgðir hafa því safnast upp í landinu.

Þróun vöruinnflutnings hefur verið nokkuð sveiflukennd á þessu ári. Innflutningur var fremur lítill tvo fyrstu mánuði ársins og óx svo hröðum skrefum fram til júnímánaðar. Eftir það hefur dregið úr aukningunni og er þess að vænta, að framhald verði á því næstu mánuði. Fyrir árið allt er nú gert ráð fyrir að vöruinnflutningur í heild aukist um 1/2% að raungildi. Innflutningur skipa og flugvéla og til stóriðjuvera verður minni en í fyrra, en horfur eru hins vegar taldar á 1% aukningu almenns vöruinnflutnings. Er olíuinnflutningur talinn dragast saman um 9% að raungildi, en spáð er nær 4% aukningu annars almenns vöruinnflutnings.

Niðurstaða spár um útflutning og innflutning benda til þess, að vöruútflutningur aukist um 3,5% og að útflutningsverð á föstu gengi hækki um 10%. Hér er að sjálfsögðu verið að tala um árið í ár. Aftur á móti er talið að heildarinnflutningur aukist um 1/2% og að innflutningsverð hækki um 8%. Viðskiptakjörin verða því 11/2–2% betri 1981 en á árinu 1980.

Í Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir að vöruútflutningur aukist á því ári um rúmlega 3% og að vöruinnflutningur aukist einnig en þó minna. Aukning á útflutningi skýrist af auknum útflutningi á áli og kísiljárni sem þó er að sjálfsögðu töluverð óvissa um. Bæði kemur til birgðasöfnun á þessu ári og einnig að á árinu 1982 fá verksmiðjurnar nægilegt rafmagn til þess að geta starfað með fullum afköstum. Hins vegar gætir nokkurrar óvissu um markaðsaðstæður fyrir framleiðsluna. Almennt séð eru horfur á að vöruviðskiptin við útlönd verði fremur hagstæð á komandi ári. Aftur á móti má reikna með halla á þjónustujöfnuði eins og horfur eru á að verði á þessu ári. Þegar á allt er litið er þess að vænta, að utanríkisviðskipti verði í jafnvægi á næsta ári og viðskiptahalli óverulegur eða enginn.

Varðandi atvinnumál verður ekki annað sagt en að atvinnuástand hafi verið gott á þessu ári. Tekist hefur að halda uppi fullri atvinnu þótt tiltekin byggðarlög hafi óneitanlega átt í tímabundnum erfiðleikum. Í reynd hefur umframeftirspurn eftir vinnuafli verið meira vandamál hér á landi en skortur á atvinnu á undanförnum árum, einkum á vissum tímum ársins og í ákveðnum atvinnugreinum. Til að bregðast við þessum vanda er nauðsynlegt að skipuleggja framkvæmdir betur en áður og lengra fram í tímann þannig að unnt verði að laga þær að atvinnuástandi hverju sinni. Til þess að þetta markmið náist þarf samstillt átak allra aðila sem að atvinnumálum standa, opinberra aðila, samtaka einstakra atvinnugreina o. fl.

Kaupmáttur launa er nú tvímælalaust meiri en hann hefði orðið án efnahagsráðstafana um áramót og horfur voru á í árslok 1980. Þetta hefur sem sagt orðið þrátt fyrir takmörkun verðbóta á laun 1. mars s. l. Hjöðnun verðbólgu hefur átt stærstan þátt í því að treysta kaupmátt launa auk óskertrar verðbótavísitölu frá 1. júní, hagstæðrar gengisþróunar og aukins kaupmáttar ráðstöfunartekna í formi skattalækkana, eins og áður var vikið að.

Á árinu öllu verður kaupmáttur kauptaxta allra launþega líklega um 1% minni en á árinu 1980. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann verður hins vegar um 1% meiri en á síðasta ári. Fyrir dyrum standa nú kjarasamningar við flesta launþega í landinu. Ríkisstj. mun áfram leitast við að tryggja kaupmátt og bæta og jafna lífskjör í landinu. Miklu máli skiptir að í komandi kjarasamningum verði þannig á málum haldið að kaupmáttaraukning verði tryggð án þess að það leiði til þess, að verðbólga fari aftur á skrið upp á við.

Í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 var gert ráð fyrir nokkrum samdrætti fjármunamyndunar og að því stefnt, að heildarfjárfesting yrði um 26% af þjóðarframleiðslu. Eins og nú horfir virðist fjármunamyndunin á þessu ári sem hlutfall af þjóðarframleiðslu ætla að verða heldur minni en gert var ráð fyrir í áætluninni eða rúm 25%.

Á næstu árum er stefnt að stórátaki í orkuöflun og iðnaðaruppbyggingu. Á árinu 1982 verður fyrst og fremst um undirbúningsframkvæmdir að ræða, en stórum verkáföngum í orkuframkvæmdum er þó að ljúka, einkum við Hrauneyjafoss. M. a. af þessum sökum eru horfur á að fjárfesting verði lægra hlutfall af þjóðarframleiðslu 1982 en verið hefur undanfarin ár eða rétt innan við fjórðung.

Þótt flestar hagstærðir efnahagskerfisins hafi í grófum dráttum breyst í takt við almenna verðlagsþróun í landinu verður varla sagt það sama um þróun peningamála.

Á tólf mánuðum til ágústloka jókst peningamagn og sparifé um nær 86% þegar með eru taldir áfallnir vextir innlána. Aukning útlána frá innlánsstofnunum var um 64% á sama tímabili. Í lok ágúst var lausafjárstaða innlánsstofnana jákvæð um 186 millj. kr., en neikvæð um 138 millj. kr., fyrir ári, og hafði því batnað um hvorki meira né minna en 324 millj. kr. á einu ári. Hér eru tímamót í stöðu bankakerfisins og aukningin meiri en nokkur dæmi eru til á einu ári.

Gjaldeyrisstaða bankanna hefur einnig batnað verulega á síðustu 12 mánuðum. Allt bendir til þess, að útlánaaukning innlánsstofnana á árinu verði meiri en nemur verðlags- og tekjubreytingum frá 1980–1981, enda hefur útlánageta bankanna aukist samfara auknum innlánum. Til ýmissa aðhaldsráðstafana hefur þó verið gripið til að draga úr aukningu útlána viðskiptabankanna. Í lok aprílmánaðar s. l. beitti ríkisstj. sér fyrir lagasetningu um sveigjanlega bindiskyldu innlánsstofnana hjá Seðlabankanum (lög nr. 12/1981). Með beitingu þessara lagákvæða getur Seðlabankinn dregið úr útlánagetu innlánsstofnana ef ástæða þykir til. Í júnímánuði nýtti Seðlabankinn sér heimild þessara laga með því að binda 2% heildarinnlána á sérstökum reikningi í Seðlabankanum. Bindihlutfallið hefur verið breytilegt innan ársins, en sem dæmi má nefna að í byrjun ágúst voru 230 millj. kr. bundnar í Seðlabanka með þessum hætti. Í öðru lagi voru vextir af óumsömdum yfirdrætti innlánsstofnana á viðskiptareikningum við Seðlabanka hækkaðir úr 4.75% í 5% á mánuði, sem svarar til nær 80% vaxta á ári. Þá hefur viðskiptabönkum og stærstu sparisjóðum verið gefinn kostur á skammtíma (15 daga) víxillánum frá Seðlabanka upp að vissum mörkum til þess að mæta venjulegum sveiflum í lausafjárstöðu.

Verðtrygging útlána og sparifjár á að sjálfsögðu mikinn þátt í stóraukinni veltu bankakerfisins. Nú má segja að allt sparifé, sem bundið er til lengri tíma en 3 mánaða, beri jákvæða vexti. Gert er ráð fyrir að hlutfall innlána af þjóðarframleiðslu hækki í 26.5% á þessu ári úr 23.8% 1980. Horfur eru á að þessi hagstæða þróun haldi áfram á árinu 1982 og hlutfall innlána af þjóðarframleiðslu hækki í 29% og yrði þá hærra en verið hefur síðustu 8 ár. Hitt er annað mál, að á sama tíma og velta bankakerfisins hefur aukist og innlánsstofnanir hafa hagnast og styrkst hefur fjármagnskostnaður atvinnuveganna aukist ískyggilega og getur því orðið þörf á að endurskoða vissa þætti þessara mála, einkum vaxtakjör af afurðalánum.

Meginþræðir þjóðarbúskaparins koma saman í niðurstöðum um þjóðarútgjöld og þjóðarframleiðslu. Samkvæmt fyrirliggjandi spám fyrir árið 1981 eru taldar líkur á að þjóðarframleiðslan vaxi um nálægt 1%. Viðskiptakjör hafa farið batnandi á þessu ári og horfur eru á að þau reynist 11/2–2% betri en í fyrra. Viðskiptakjarabatinn eykur vöxt þjóðartekna umfram vöxt þjóðarframleiðslu um nær 1% þannig að þjóðartekjur eru taldar aukast um nær 2%. Þjóðhagsspá fyrir árið 1982 bendir til þess, að þjóðarframleiðsla vaxi um nálægt 1%, en vegna versnandi viðskiptakjara verður aukning þjóðartekna minni eða um 1/2%. Þjóðartekjur á mann dragast samkv. þessu lítils háttar saman.

Horfur eru á að þjóðarútgjöld vaxi ívið minna en þjóðarframleiðslan bæði á árinu 1981 og 1982. Þessi hæga aukning þjóðarútgjalda er veigamikill þáttur í því að draga úr viðskiptahalla.

Samdráttur þjóðarútgjalda kemur fyrst og fremst fram í samdrætti fjárfestingar. M. a. dregur nú vafalaust jafnt og þétt úr lítt arðbærri steinsteypu- og verðbólgufjárfestingu, sem svo hefur verið kölluð. Útlit er fyrir að fjárfesting dragist saman um 4% á árinu 1981, og samkv. fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir 1982 dregst fjárfesting enn frekar saman eða sem nemur 6%. Hagtölur benda til þess, að viðskiptahallinn á árinu 1981 geti numið, eins og nefndi áðan, um 100 millj. kr. eða 0.5% af vergri þjóðarframleiðslu, en sambærilegt hlutfall 1980 var um 2.4%.

Áætlanir benda til þess, að fullt jafnvægi náist á viðskiptajöfnuði á næsta ári en þó því aðeins að samanlögð samneysla, einkaneysla og fjárfesting fari ekki fram úr því sem hér er gert ráð fyrir.

Ég vil þá þessu næst víkja að afkomu ríkissjóðs á því ári, sem nú er að líða.

Árið 1980 og það sem af er árinu 1981 hefur afkoma ríkissjóðs verið til muna betri en árin þar á undan eins og ég hef áður stuttlega vikið að.

Ef litið er á tímabilið janúar til apríl varð halli á ríkissjóði samtals 145 millj. kr. Í maímánuði varð aftur á móti afgangur sem nam 89 millj. kr. Mánuðina júní og júlí varð síðan aftur halli um 39 millj. kr., en ágúst og september koma út með afgang sem nam 34 millj. kr.

Níu fyrstu mánuði ársins er því halli á ríkissjóði sem nemur 61 millj. kr. eða sem samsvarar 1.5% af tekjum ríkissjóðs, sem er hlutfallslega mjög lág tala miðað við fyrri ár, en 1979 var hallinn aftur á móti 5.7% af tekjum á þessum sama tíma. Á árinu 1980 var hliðstætt hlutfall 0.9%, en þá ber að hafa í huga að fjárlög voru fyrst afgreidd undir páska og hefur það viss áhrif á útgjaldaþróun hjá ríkissjóði yfir árið. Heildarútgjöld ríkissjóðs fyrstu níu mánuði ársins 1981 nema samtals 4111 millj. kr. og tekjur eru á sama tímabili 4050 millj. kr.

Markvisst hefur verið stefnt að því að halda niðri árstíðabundnum yfirdrætti í Seðlabankanum og hefur í því efni náðst verulegur árangur á síðustu árum.

Fjárlög ársins 1981 gera ráð fyrir að tekjur umfram gjöld verið 57 millj. kr. og greiðsluafgangur nemi 28 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir að afborganir til Seðlabankans verði 100 millj. kr.

Enn er of snemmt að segja til um með vissu hver verður endanleg afkoma ríkissjóðs á þessu ári. Áætlanir, sem gerðar hafa verið, benda þó til þess, að í fjármálum ríkissjóðs náist þau markmið sem sett voru í fjárlögum.

Samkv. 1. gr. fjárlagafrv. fyrir árið 1982 er mismunur heildartekna og heildarútgjalda um 151 millj. kr. Heildartekjur nema alls 7799 millj. kr. samkv. frv. Beinir skattar, þ. e. tekjuskattur og eignarskattur, eru þar af áætlaðir 1356 millj. kr. eða 17.4%. Óbeinir skattar eru áætlaðir 6327 millj. kr. eða 81% af tekjum ríkissjóðs. Aðrar tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 117 millj. kr. eða 1.6% af heildartekjum. Heildarskattbyrði vegna skattheimtu ríkissjóðs er samkv. þessu um 28.2% af áætlaðri vergri þjóðarframleiðslu en var 28.2% í fjárlagafrv. 1981.

Tekjuáætlun svo og gjaldahlið þess frv., sem hér er til umr., er reist á fyrrnefndri reiknitölu frv., þ. e. við það er miðað, að kauplag og verðlag hækki að meðaltali um 33% milli áranna 1981 og 1982. Miðað er við að tímabundnir skattar, sem lögum samkv. ættu að falla niður um næstu áramót, verði framlengdir, þó ekki sérstakt tímabundið innflutningsgjald á sælgæti og kex sem fellur niður í lok febr. 1982. Hafa þá verið tekin inn áhrif tollalækkana frá árinu 1981.

Heildargjöld ríkissjóðs eru alls 7648 millj. kr. Af þessari fjárhæð renna um 3014 millj. kr. til samneyslu, 1226 millj. kr. til framkvæmda og til framkvæmdasjóða og um 3440 millj. kr. til neyslu- og rekstrartilfærslna.

Í 1. gr. frv. kemur fram að heildarlánsfjáröflun nemur 1185 millj. kr. Þar af renna um 748 millj. kr. til B-hluta fyrirtækja og sjóða, en 317 millj. kr. eru lántaka vegna A-hluta frv. Af heildarlántökum eru um 520 millj. kr. innlend uppspretta lánsfjár, en um 665 millj. kr. eru fyrirhugaðar erlendar lántökur.

Lánagreiðslur A-hluta frv. umfram lántökur nema alls um 79 millj. kr. Innifalið í útstreymi á lánahreyfingum, sem er alls 397 millj. kr., er afborgun lána til Seðlabanka Íslands að fjárhæð 120 millj. kr.

Í frv. er að því stefnt að endurgreiðslur lána í A-hluta ríkissjóðs nemi 79 millj. kr. umfram lántökur. Afborganir af lánum eru áætlaðar 320 millj. kr. og vaxtagreiðslur 264 millj. kr., eða alls 584 millj. kr., og eru þá ótaldir vextir og afborganir B-hluta fyrirtækja.

Frv., eins og það nú liggur fyrir, er með um 57 millj. kr. greiðsluafgangi. Hér á eftir verður fjallað um helstu niðurstöður tekju- og gjaldahliðar frv. svo og lánahreyfingar. Ég vík þá að tekjuáætlun ríkissjóðs 1982.

Tekjuáætlun ríkissjóðs í fjárlagafrv. fyrir árið 1982 er að venju reist í fyrsta lagi á endurskoðaðri áætlun um tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi ári, í öðru lagi á ákveðnum þjóðhags- og verðlagsforsendum og í þriðja lagi á ákveðnum forsendum um einstaka tekjuliði. Ég hef hér á undan fjallað um almennar forsendur frv.

Áætlanir um helstu stofna óbeinna skatta eru miðaðar við að velta aukist um 1.0% að raungildi frá fyrra ári. Í áætlun um aðflutningsgjöld er gert ráð fyrir 2.5% aukningu almenns vöruinnflutnings og að innflutningsverð hækki um 7% í erlendri mynt en um 33% í krónum. Tekið hefur verið tillit til lækkunar gjalda á nokkrum tegundum eldhústækja og lækkunar á innflutningsgjaldi af sparneytnum bifreiðum svo og niðurfellingar á tímabundnu innflutningsgjaldi á sælgæti og kex sem ég nefndi áðan. Að öðru leyti er ekki um meiri háttar breytingar á innflutningsgjöldum að ræða og verður nánar vikið að þeim síðar. Innheimtar tekjur ríkissjóðs á árinu 1982 eru áætlaðar samtals 7799 millj. kr., samanborið við 5619 millj. kr. í áætlun fyrir árið 1981. Samkv. þessu aukast tekjur um 2180 millj. kr. eða 38.8% frá áætlaðri niðurstöðu í ár, en frá fjárlögum nemur aukningin rösklega 41%.

Í frv. er talið að innheimta tekju- og eignarskatts nemi 1982 um 1356 millj. kr., samanborið við 978 millj. kr. í fjárlögum 1981 og 908 millj. kr. í endurskoðaðri tekjuáætlun 1981.

Hvað varðar skattvísitölu, sem ákvarðar breytingar frádráttarliða, skattstiga, persónuafsláttar og barnabóta, er gert ráð fyrir að hún verði ákveðin 150 stig og er það í fullu samræmi við áætlaða tekjuhækkun milli áranna 1980 og 1981.

Meginforsendur fyrir áætlun frv. um tekjuskatt einstaklinga á árinu 1982 er sú, að skattbyrði haldist óbreytt sem hlutfall af tekjum tekjuárs milli áranna 1980 og 1981. Auk þess er reiknað með að framteljendum fjölgi um 1%.

Áætlanir um álagningu eignarskatta á árinu 1982 eru reistar á þeirri meginforsendu, að fasteignamat hækki um sem næst 45% frá des. 1980 til jafnlengdar 1981 og að verðhækkun annarra eigna sé svipuð.

Verulegar breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt eru ekki áformaðar á árinu 1982, en fyrirhugað er að frv. um staðgreiðslu skatta verði fljótlega lagt fram á Alþingi. Verði staðgreiðslufrv. að lögum nú fyrir áramót og gangi allur undirbúningur vel er hugsanlegt að hefja innheimtu skatta samkv. staðgreiðslukerfi í ársbyrjun 1983. Til þess að svo verði þyrfti Alþingi að samþykkja sérstök lög næsta haust, þ. e. haustið 1982, um upphaf staðgreiðslu og skattahlutföll miðað við áætlað verðbólgustig þegar kerfið kemur til framkvæmda.

Almennar tolltekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 667 millj. kr. á árinu 1981 og er það rúmlega 30 millj. kr. hærri upphæð en í fjárlagaáætlun. Reiknað er með svipuðu tollhlutfalli í almennum innflutningi og á árinu 1980 eða rétt tæplega 8%. Tollhlutfall í bifreiðainnflutningi er hins vegar talið aukast nokkuð frá fyrra ári vegna hlutfallslega meiri innflutnings á fólksbifreiðum en öðrum bifreiðum.

Með reglugerð nr. 453/ 1981 var ákveðin 30% lækkun á innflutningsgjaldi sparneytinna bifreiða frá 1. ágúst 1981. Áætlað tekjutap ríkissjóðs af innflutningsgjaldi vegna þessarar lækkunar er 2–3 millj. á árinu 1981 og 20–25 millj. á árinu 1982. Með hliðsjón af þessu er innflutningsgjald af bifreiðum áætlað um 125 millj. í þessu frv.

Heildartekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum á árinu 1982 eru áætlaðar rúmlega 900 millj. og er það um 35% hækkun frá áætlun 1981. Hlutfall tolltekna af heildartekjum ríkissjóðs verður svipað og það var í áætlun þessa árs, þó ívið lægra, og hefur það hlutfali lækkað úr 14% árið 1979 í 11.5% samkv. þessu frv. Tekjur ríkissjóðs af aðflutningsgjöldum hafa því lækkað verulega á síðustu árum. Hið sama er uppi á teningnum þegar horft er á tölur um tolltekjur af bifreiðum og raunar hafa tolltekjur af bensíninnflutningi heldur lækkað frá árinu 1979.

Hvað önnur innflutningsgjöld varðar er helsta hreyfing vegna niðurfellingar tímabundins innflutningsgjalds á sælgæti og kex, eins og áður hefur komið fram. Tekjur af þessu gjaldi eru því einungis áætlaðar tæplega 3 millj. á næsta ári en eru áætlaðar um 13 millj. á þessu ári.

Alls eru heildargjöld af innflutningi áætluð 1339 millj. kr. á árinu 1982, sem er 36% hækkun frá liðandi ári. Samkv. þessum áætlunum yrðu innflutningsgjöld rúmlega 17% af heildartekjum ríkissjóðs 1982 eða heldur lægra hlutfall en 1981, en hins vegar talsvert lægra en árið 1980 þegar hlutfallið var tæplega 19%.

Í fjárlögum ársins 1981 voru heildartekjur af seldri vöru og þjónustu áætlaðar um 2719 millj. kr., en nú eru horfur á að þær nemi um 5% umfram fjárlagatöluna. Hækkunina má einkum rekja til breyttra verð- og veltuforsendna. Áætlun um söluskatt fyrir árið 1982 gerir ráð fyrir að innheimtur skattur verði 36% hærri en á þessu ári. Þetta eru um 33% af heildartekjum ríkissjóðs, en til viðbótar kemur orkujöfnunargjald sem rennur óskipt í ríkissjóð. Samtals nemur gjald á söluskattsstofn 2978 millj. kr., þar af til ríkissjóðs 2775 millj. kr., og eru það 35.5% af heildartekjum.

Þá vík ég næst að gjaldaáætlun ríkissjóðs í fjárlagafrv. fyrir árið 1982.

Heildarútgjöld á rekstrarreikningi í frv. eru áætluð 7648 millj. kr., og er það um 40% hækkun frá fjárlögum fyrir árið 1981.

Eins og í frv. til fjárlaga fyrir árið 1981 er launaliður einstakra stofnana tilgreindur miðað við kauplag í upphafi fjárlagaárs. Þessi upphæð nemur 1902 millj. kr. og er 40% hærri en sambærileg upphæð í fjárlögum 1981. Enn fremur er áætluð hækkun á árinu 1982 í samræmi við forsendur frv. um kaupgjald og verðlag. Vegin meðalhækkun ársins 1982 er 12.75% og nemur 270 millj. kr.

Hækkun verðbótavísitölu á árinu 1981 nemur 36% og er þá áætluð 9% hækkun 1. des. n. k., en sennilega verður hækkunin ívið minni. Samkv. því er umframhækkun launa 4%. Ekki verður hér gerð nákvæm grein fyrir umframhækkuninni sem er 4%. Lauslegt mat bendir til þess, að magnaukning nemi um 1.3%. Til viðbótar koma óbein áhrif kjarasamninga, nýir samningar við nokkrar starfsstéttir og launaskrið.

Önnur rekstrargjöld nema samtals 499 millj. kr. eða 42.6% hærri upphæð en í fjárlögum 1981.

Eins og komið hefur fram er miðað við 33% verðlagshækkun frá meðaltali ársins 1981 til meðaltals 1982. Við gerð fjárlaga 1981 var sambærileg hækkun áætluð 42% , en nú er hins vegar ljóst að sú hækkun verður um 50%. Tillit hefur verið tekið til þessa mismunar í þessu frv. og vanáætlun ársins 1981 bætt við hina almennu verðlagsforsendu nú. Eðlileg hækkun þessa liðar er því metin um 40%, en það felur í sér nær óbreytt útgjöld á föstu verðlagi eða óbreytt magn.

Framlög til viðhalds nema samtals 233 millj. kr., og er það rösklega 50% hækkun frá fjárlagatölu 1981. Það, sem veldur mestu um hækkun umfram almenna verðlagsforsendu, er hækkun á viðhaldi vega um 56.4% og er það í samræmi við vegáætlun og stefnu Alþingis um að auka framlög til vegagerðar. Annað viðhald hækkar um 35.6% og er á hliðstæðan hátt og áður leitast við að bæta úr brýnni viðhaldsþörf og áhersla lögð á að eignum hraki ekki.

Verklegar framkvæmdir eru áætlaðar 737 millj. kr. Þetta er magnaukning um 1–11/2% frá þessu ári. Sú magnaukning er aðallega vegna vegamála og í samræmi við vegáætlun, þar sem byggt er á því, að 2.1% af vergri þjóðarframleiðslu verði varið til vegamála.

Framlög til fjárfestingarlánasjóða nema 438 millj. kr., og eru þessi framlög ákveðin lægri en lög gera ráð fyrir. Þó er þeirri reglu fylgt nú að framlög til sjóða hækki ekki minna en 33% frá fjárlögum 1981 og ekki meira en 40%.

Telja verður að verðtrygging útlána sjóðanna hafi verulega styrkt stöðu þeirra og því ekki jafnbrýn þörf og áður að sjá þeim fyrir óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði. Af þessum sökum verður nú enn leitað heimildar til þessarar skerðingar í frv. að lánsfjárlögum, eins og verið hefur undanfarin þrjú ár.

Ég vík nú að útgjöldum ráðuneyta og nefni helst þá útgjaldaþætti þar sem útgjöld breytast að raungildi frá árinu 1981.

Fjárveiting til starfsemi menntmrn. hækkar um rúmar 340.7 millj. kr., og verður hún samtals að fjárhæð 1133 millj. kr.

Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna verður 117 millj. kr., sem er hækkun um 44.7% frá fjárlögum ársins 1981. Þar að auki verður aflað 50 millj. kr. lántökuheimildar handa sjóðnum. Gert er ráð fyrir að útlánageta sjóðsins verði alls um 144.9 millj. kr. og styrkveitingar verði o.8 millj. kr. Útlán sjóðsins miðast við það, að mætt verði 90% umframfjárþörf námsmanna, en fjárútvegun til styrkveitinga miðast við að unnt verði að greiða ferðastyrki námsmanna að haustlagi, sem er nýbreytni. Þetta felur að sjálfsögðu í sér aukin útgjöld meðan verið er að koma þessari tilhögun á.

Framlög til stórra framkvæmdaflokka eru að öllu jöfnu hækkuð um 28% frá fjárlögum 1981 samkv. meginforsendum frv.

Framlög til byggingar dagvistarheimila eru aftur á móti hækkuð meira en meginforsendur frv. gera ráð fyrir. Þannig verður fjárveiting til dagvistarheimila 15 millj. kr., sem er hækkun um 36.3% frá fjárlögum 1981, og sama gildir um framlög til flugvallaframkvæmda, sem hækka um 36%.

Stefna þessarar ríkisstj. er að efla listastarfsemi í landinu og hafa því ríkisframlög til lista- og menningarmála verið aukin mjög á undanförnum tveimur árum. Þessari stefnu er fram haldið í þessu frv. og eru framlög til lista áætluð 14.5 millj. kr., en það er um 67% hækkun frá fjárlögum 1981.

Í upphafi árs 1979 kynnti Rannsóknaráð ríkisins langtímaáætlun um rannsóknir og þróunarstarfsemi í þágu atvinnuveganna. Í skýrslunni kemur fram að Íslendingar verja mun minna fjármagni til rannsókna- og þróunarstarfsemi en þær þjóðir sem eru á svipuðu hagþróunarstigi og við Íslendingar. Af vergum þjóðartekjum verja Íslendingar 0.4–0.5% til rannsókna, en aðrar þjóðir 1–2.5%.

Í 25. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o. fl., segir:

„Til stuðnings áætlanagerðar um atvinnuvegina skal efla rannsóknastarfsemi í þeirra þágu með hliðsjón af langtímaáætlun Rannsóknaráðs ríkisins um það efni, eins og hún verður staðfest af stjórnvöldum.“

Nú í sumar kynnti undirnefnd fjvn. Alþingis sér starfsemi einstakra rannsóknastofnana, sérstaklega með tilliti til verkefna stofnananna og fjármála þeirra. Niðurstaða undirnefndar fjvn. var á þá leið, að fjölga bæri stöðuheimildum hjá nokkrum rannsóknastofnunum auk breytinga á öðrum rekstrarliðum. Tillögum nefndarinnar hefur verið fylgt í frv. Samkv. tillögu nefndarinnar var þannig fjölgað um 16.5 stöðugildi samtals, en það ber þó að hafa í huga, að sértekjur viðkomandi stofnana hækka yfirleitt á móti þeim útgjaldaauka sem áðurnefnd stöðufjölgun hefur í för með sér.

Undir safnliðnum Ýmislegt í menntmrn. er fjárlagaliður sem hefur misritast, og vil ég nota þetta tækifæri til að koma leiðréttingu á framfæri. Er það liðurinn Safnastofnun Austurlands sem byggður er á skriflegu samkomulagi ráðuneyta vegna yfirtöku landbrn. á eign safnsins, Skriðuklaustri í Fljótsdal, en framlagið á að vera 400 þús. kr.

Framlag vegna útgjalda á vegum utanrrn. verður 77.5 millj. kr., sem er hækkun um 20.7 millj. kr. frá fjárlögum 1981. Hæst ber hækkun á framlögum sem falla undir málaflokkinn „Aðstoð Íslands við þróunarlöndin“, en fjárveiting til þess málaflokks tvöfaldast að krónutölu, hækkar um 103.4%, og verður framlagið tæplega 19 millj. kr. Framlag til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, en stofnun þessi heyrir undir áðurnefndan málaflokk, hækkar þannig um 110.4% og verður rúmlega 10 millj. kr., en Alþingi hefur nýlega samþykkt lög um stofnunina. Þróunaraðstoð Sameinuðu þjóðanna hækkar um tæplega 560%° og verður 3.6 millj. kr. Má því segja að hér sé um stóraukið átak að ræða, eins og hækkun fjárveitinga til þessa málaflokks ber rækilega vitni um.

Í 6. gr. fjárlagafrv. er gert ráð fyrir að heimild fáist til allt að 10 millj. kr. lántöku vegna flugstöðvar í Keflavík. Samkv. stjórnarsáttmála ríkisstj. skal fara með flugstöðvarmál sem hér segir:

„Áætlanir um flugstöð á Keflavíkurflugvelli verði endurskoðaðar og ekki ráðist í framkvæmdir við hana nema með samkomulagi allrar ríkisstjórnarinnar.“

Ljóst er af þessu, að eigi verður ákveðið að ráðast í framkvæmdir við flugstöðina nema allir ráðherrar samþykki, og hefur utanrrh. lagt áherslu á þá túlkun í ræðum á Alþingi. Jafnframt því að taka ákvörðun um áðurgreinda lánsfjárheimild vegna flugstöðvarinnar hefur ríkisstj. ákveðið að fela þriggja manna nefnd allra stjórnaraðilanna að taka flugstöðvarmálið til athugunar, m. a. hönnun byggingarinnar og hugsanlega áfangaskiptingu. Mun nefndin gera tillögur til ríkisstj. um það, hvernig áðurnefnd lántaka yrði nýtt.

Fjárveiting til verkefna á sviði landbrn. hækkar um 102 millj. kr. og verður framlagið 338 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að bætt verði við 8 stöðugildum á fjárlagaliðnum forfalla- og afleysingaþjónusta í sveitum. Fjárveiting er því til 30 stöðugilda allt árið 1982 að viðbættum 6 stöðugildum frá 1. júlí 1982 að telja. Verða stöðugildi þannig orðin 36 talsins í árslok 1982.

Liðurinn „lántökukostnaður vegna laga nr. 9/1980“ hækkar um 17.7 millj. kr., og verður framlag þannig 19.7 millj. kr. Fjárveiting þessi er til að greiða afborganir og vexti af láni sem Framleiðsluráð landbúnaðarins tók samkv. fyrrgreindum lögum, en hluti af láni þessu fellur á ríkissjóð.

Núna í haust hófst að nýju skólahald við Bændaskólann á Hólum. Fjárlög 1981 gerðu því einungis ráð fyrir fjárveitingu til skólans vegna kennslu sem samsvari öðru skólamisserinu. Þetta frv. gerir hins vegar ráð fyrir skólahaldi við skólann allt árið 1982 og eru fjárveitingar miðaðar við það. Þá er að auki gert ráð fyrir stórátaki í uppbyggingu staðarins. Þannig hækkar fjárveiting vegna viðhalds og gjaldfærðs stofnkostnaðar um samtals 3.9 millj. kr. og verður fjárveiting rúmlega 4.9 millj. kr.

Framlög til verkefna sem falla undir starfsemi á sviði sjútvrn. hækka um 36.4 mill j. kr., og verður fjárveiting til málaflokka rn. samtals að fjárhæð 121.4 millj. kr.

Gert er ráð fyrir að stofnað verði nýtt útibú við Hafrannsóknastofnun og hefur þessu viðbótarútibúi verið valinn staður í Ólafsvík. Kostnaður ríkissjóðs vegna þessarar útibússtofnunar er að fjárhæð 217 þús. kr. Af öðrum nýmælum við Hafrannsóknastofnun má geta þess, að gert er ráð fyrir 6 lausráðnum rannsóknarmannsstöðum á viðfangsefninu Tímabundin verkefni. Stöður þessar eru þannig færðar á einn sérstakan lið, og er gert ráð fyrir að fjvn. Alþingis geri tillögu um til hvaða rannsókna stöður þessar verði nýttar á árinu 1982. Úthald rannsóknaskipa Hafrannsóknastofnunarinnar er ráðgert það sama og í fjárlögum 1981, þ. e. að hvert skip verði gert út sem svarar 9 mánuðum á árinu 1982.

Þá má geta þess, að gert er ráð fyrir eflingu á starfsemi útibúa Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins. Hefur þannig verið gert ráð fyrir fjölgun um hálft stöðugildi við hvert útibúanna á Ísafirði, Neskaupstað og Akureyri.

Hækkun útgjalda á málefnaflokkum félmrn. nemur samtals 73.8 millj. kr., og verður fjárveiting til rn. samtals að fjárhæð 272.2 millj. kr.

Fyrirhugað er stórátak í byggingu félagslegra íbúðabygginga. Þannig verður fjárveiting til Byggingarsjóðs verkamanna 111.3 millj. kr., sem er hækkun um 48.4% frá fjárlögum 1981. Auk þess er gert ráð fyrir verulegri aukningu á lánsfjáröflun til sjóðsins. Hefur útlánageta sjóðsins þannig nærfellt þrefaldast frá yfirstandandi ári og er hún þannig áætluð 268 millj. kr. árið 1982. Gert er ráð fyrir að útlánaáætlun sjóðsins verði þannig: Í fyrsta lagi að veitt verði 80% lán til byggingar 100 leiguíbúða sveitarfélaga, í öðru lagi að veitt verði 80% lán til 110 endursöluíbúða, í þriðja lagi hafa verið samþykkt 207 lán til nýbygginga verkamannabústaða á árinu 1981, en hinn 1. ágúst 1981 voru í undirbúningi á ýmsum byggingarstigum samtals 472 íbúðir. Ekki er enn þá fullljóst hversu hratt þessum framkvæmdum kemur til með að miða á árinu 1982, en frv. gerir ráð fyrir að veitt verði 300 full lán á vegum sjóðsins.

Framlag ríkissjóðs til vatnsveituframkvæmda á vegum sveitarfélaga hækkar verulega frá fjárlögum 1981. Þannig verður framlag ríkissjóðs 3.2 millj. kr., en var 1.7 millj. kr. í fjárlögum 1981, og er þetta hækkun um 88.2%. Hér er því um að ræða stórátak til að létta undir með sveitarfélögum í vatnsveituframkvæmdum á þeirra vegum.

Í lögum nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum var sett á fót sérstök stofnun sem hlaut nafnið Vinnueftirlit ríkisins. Í fjárlögum fyrir árið 1981 var gert ráð fyrir að stöðuheimildir við stofnunina yrðu 18 talsins og voru fjárveitingar miðaðar við það. Nú hefur þegar fengist töluverð reynsla af starfsemi stofnunarinnar og hefur því verið ákveðið að fjölga grunnheimildum um tvær stöður. Jafnframt gerir frv. ráð fyrir verulegri aukningu á rekstrargjöldum við stofnunina, og hækka þau um 120% frá fjárlögum ársins 1981.

Fjárveiting til Bjargráðasjóðs Íslands hækkar um 101.6% frá fjárlögum 1981 og verður framlagið samtals að fjárhæð 4.9 millj. kr. Fjárveiting þessi er annars vegar vegna lögbundins framlags ríkissjóðs að fjárhæð 3.4 millj. kr. og hins vegar sérstakt framlag að fjárhæð 1.5 millj. kr., sem er til að létta undir greiðslubyrði sjóðsins af svokölluðum harðærislánum sem sjóðurinn tók árið 1980.

Til heilbrigðis- og tryggingarmála fara samtals um 2 778 millj. kr. Þetta er langstærsti útgjaldaþáttur frv. og um 36% af heildarútgjöldum ríkissjóðs.

Útgjöld Tryggingarstofnunar ríkisins vegna lífeyris-, sjúkra- og slysatrygginga nema alls 2 071 millj. kr. Í fjárlögum nemur sambærileg fjárhæð 1 332 millj. kr. Útgjöldin hækka því alls um 739 millj. kr. eða tæp 56%. Hækkun þessa liðar er verulega umfram verðlagsbreytingar og á það sér ýmsar skýringar. Fyrst er til að nefna, að í nóvember 1980 hækkuðu almennar bætur lífeyristrygginga og tekjutrygging í kjölfar kjarasamninga þá um haustið. Fyrir þessari útgjaldahækkun var ekki áætlað í fjárlögum 1981, enda var svo litið á að útgjöld, sem af kjarasamningum stafa, skili sér að nokkru aftur í auknum tekjum ríkissjóðs af veltusköttum. Þá má nefna að fæðingarorlof kom fyrst til útgjalda undir lífeyristryggingum 1981 og voru þá áætlaðar til verkefnisins 36 millj. kr. Sýnt er að útgjöld ársins í ár verða verulega hærri vegna þessa verkefnis, og ákvarðast fjárhæð næsta árs að nokkru af þessu.

Því er ekki að leyna, að útgjöld sjúkratrygginga aukast ótrúlega hröðum skrefum. Stafar þetta m. a. af aukinni starfsemi á sjúkrahúsum og hækkun daggjalda. Gallinn er þó sá, að erfitt hefur reynst að áætla rekstrarkostnað þessara sjúkrahúsa. Þegar það endurtekur sig ár eftir ár að útgjöld til daggjaldastofnana fara langt fram úr fjárlögum og árlegum verðlagsbreytingum er óhjákvæmilegt að spyrnt sé við fótum.

Á vegum heilbr.- og trmrh. er verið að undirbúa frv. sem felur í sér heimild til breytinga á rekstrarframlögum til sjúkrahúsa, sem felur í sér að heimild verði veitt til þess að daggjaldasjúkrahús verði tekin inn á bein fjárlög. Einnig er full ástæða til að endurskoða stjórnunarform þessara stofnana, og hef ég þá í huga að ríkissjóður greiðir í mörgum tilfellum á bilinu 90–93% af heildarrekstrarútgjöldum þeirra. Þrátt fyrir þetta eru sjúkrahúsin stjórnunarlega rekin á ábyrgð sveitarfélaganna. Ekki er fullt samræmi í þessu.

Þá vil ég sérstaklega nefna Framkvæmdasjóð aldraðra, en framlag til sjóðsin nemur 24.5 millj. kr. Sjóðurinn, sem stofnaður var með lögum nr. 49/1981, á að stuðla að byggingu húsnæðis og dvalarstofnana fyrir aldraða, og er sú upphæð, sem sjóðnum er áætluð til ráðstöfunar á árinu 1982, u. þ. b. þrefalt hærri en varið er til samsvarandi verkefna á þessu ári. Er vel við hæfi að gert sé sérstakt átak í þessum málum á næsta ári sem er alþjóðaár aldraðra.

Um framlög til trygginga- og heilbrigðismála umfram það, sem þegar er getið, tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða. Veigamesti liður þeirra útgjalda er starfsemi ríkisspítalanna, en á rekstri þeirra er ekki fyrirhuguð teljandi breyting frá því sem nú er.

Fjárveiting til verkefna fjmrn. verður rétt um 700 millj. kr., sem er hækkun um 115 millj. kr.

Tekinn er upp nýr fjárlagaliður á vegum rn. Er það liðurinn Húsnæðisbreytingar vegna fatlaðra, og er fjárveiting til þessa verkefnis að fjárhæð 1 millj. kr. Fjárveiting þessi er ætluð til að auðvelda fötluðu fólki aðkomu og umferð um opinber fyrirtæki og stofnanir.

Þá er gert ráð fyrir fjárveitingu að upphæð 1.5 millj. kr. til viðgerðar og lagfæringar á húseigninni Laugavegi 166, sem er svokallað Víðishús. Framkvæmdir á nefndri húseign eru nú þegar farnar af stað og er fyrsti áfangi verksins fólginn í að setja nýtt þak á húsið. Jafnframt vinnur fjmrn. að athugun á því, hvaða ríkisstofnanir koma til með að fá inni í húsinu. Verið er að vinna að því að Landmælingar Íslands verði þar til húsa, og yrði það verulega hagkvæmt fyrir rekstur þeirrar stofnunar.

Útgjöld til málaflokka samgrn. hækka um 230 millj. kr. og verða um 780 millj. kr.

Hæst ber framlög til vegamála, en þau nema samtals 566 millj. kr., sem er hækkun um 46% frá fjárlögum 1981. Markaðar tekjur til vegagerðar, þ. e. bensíngjald, gúmmígjald og bifreiðaskattur, nema samtals 351 millj. kr. Þá er fyrirhuguð lántaka að upphæð 200 millj. kr. Fjárveiting úr ríkissjóði verður þannig 15.5 millj. kr. Heildarframlag til vegamála jafngildir þannig 2.1% af vergri þjóðarframleiðslu. Stefna Alþingis gerir ráð fyrir að auka hlut vegamála af vergri þjóðarframleiðslu um 0.1% frá því sem nú er. Þegar útgjöld til vegamála verða aukin sem þessu hlutfalli nemur verður jafnframt að gera ráð fyrir að Alþingi samþykki samsvarandi tekjuaukningu á móti.

Gert er ráð fyrir nokkurri magnaukningu á framkvæmdum til flugmála, eins og áður var vikið að. Þannig hækkar stofnkostnaður hjá Flugmálastjórn um 8.2 millj. kr. og verður 31.1 millj. kr. Í frv. er yfirleitt gert ráð fyrir að framlög til einstakra framkvæmdaflokka hækki um 28%, frá þessu eru örfáar undantekningar. Eins og áður segir hækkar fjárveiting til framkvæmda í flugmálum um 36%.

Fjárveiting til viðskrn. verður 507 millj. kr., sem er hækkun um tæpar 100 millj. kr.

Hæst ber liðurinn Niðurgreiðslur á vöruverði, en áformaðar niðurgreiðslur verða 466 millj. kr. Áætlað niðurgreiðslustig í des. n. k. kostar á einu ári um 376 millj. kr., og eru þá eftir 65 millj. kr. til að mæta auknum niðurgreiðslum á árinu 1982.

Í fjárlögum fyrir árið 1981 er olíustyrkur til húshitunar 50 millj. kr., og var gert ráð fyrir að meðalfjöldi styrkja væri um 32 000 á ársfjórðungi. Árið 1982 er hins vegar gert ráð fyrir að styrkjum fækki nokkuð frá því, sem er á þessu ári, og verði styrkirnir 27 000 talsins á hverjum ársfjórðungi, en fjárveiting nemur 30 millj. kr.

Við áætlun vaxtakostnaðar er byggt á forsendum frv. um hækkun viðkomandi vísitalna að því er tekur til verðtryggðra lána og gengis, auk þess sem nettóbreyting á skuldastöðu ríkissjóðs hefur að sjálfsögðu áhrif á áætlunartöluna. Heildarvaxtakostnaður á árinu 1982 er áætlaður 264 millj. kr., og er það hækkun um 38.2% frá fjárlögum 1981.

Vaxtagreiðslur til Seðlabanka Íslands eru áætlaðar 104 millj. kr., og er það hækkun um rösklega 6 millj. frá áætlun fjárlaga 1981. Vextir af lánum ríkissjóðs hjá öðrum en Seðlabanka eru áætlaðir 160 millj. og hafa hækkað um 67 millj. kr.

Á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar og ríkisendurskoðunar er unnið að margs háttar hagsýsluverkefnum. Á vegum hinnar fyrrnefndu hefur starfsemin m. a. beinst að skipulags- og rekstrarhagræðingu, auk þess sem tölvumál einstakra stofnana og stærri heilda taka aukið rými. Í ár hefur m. a. verið unnið að endurskipulagningu á fjármálastjórn Ríkisútvarpsins. Að beiðni dómsmrn. er unnið að úttekt á starfsemi Vinnuhælisins á Litla-Hrauni. Þau atriði, sem þar verða m. a. könnuð, eru stjórnun, skipulag og fjármál. Þessi úttekt kom beint og óbeint í kjölfar athugunar á vinnutilhögun á Kvíabryggju sem fram fór á árinu 1980.

Á árunum 1980 og 1981 hefur farið fram athugun á starfsemi Landmælinga Íslands. Nær sú athugun til stjórnar, fjármála og þess að leysa húsnæðismál stofnunarinnar. Starfsemi Landmælinga hefur um nokkurt bil verið í ófullnægjandi húsnæði.

Af öðrum verkefnum má nefna, að í samvinnu við skólastjóra Hvanneyrarskóla hafa rekstrarmál þess skóla verið til athugunar, m. a. með tilliti til viðfangsefnaskiptingar á starfsemi stofnunarinnar í fjárlögum. Þessu verkefni er því sem næst lokið. Í mörgum tilfellum virðist í senn æskilegt og nauðsynlegt að starfsemi stofnana, sem hafa margvíslega starfsemi á sinni könnu, sé skipt upp í hæfileg viðfangsefni.

Af öðrum hagræðingarverkefnum, sem unnið er á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar má nefna endurskoðun á starfsemi Fasteignamats ríkisins. Þessu verkefni lýkur væntanlega fyrri part árs 1982.

Af öðrum verkefnum má nefna úttekt á málum Rannsóknarlögreglu ríkisins og Námsgagnastofnunar. Fyrir tveimur árum var talið nauðsynlegt að tölvumál ríkisstofnana og fyrirtækja yrðu sveigð í ákveðnari farveg en þau höfðu þróast í til þess tíma. Til fjáralaga- og hagsýslustofnunar var ráðinn starfsmaður með sérþekkingu á þessu sviði. Verkefnin, sem að tölvumálum snúa, eru æðimörg og sum hver yfirgripsmikil. Má þar sérstaklega nefna tölvuverkefni hjá Tollstjóraembættinu í Reykjavík. Starfsmenn á vegum fjárlaga- og hagsýslustofnunar, ríkisendurskoðunar og tollstjóraembættisins vinna nú að tölvuvæðingu embættisins, og standa vonir til þess að hraða megi allri afgreiðslu hjá embættinu, auk þess sem öll meðferð upplýsinga varðandi innflutning og tollamál verður greiðari.

Að öðrum verkefnum á sviði tölvumála má nefna athugun á fjárhagsbókhaldi og áætlanagerð nokkurra stofnana og fyrirtæka. Einnig hefur færst í vöxt að stofnanir, sem þurfa að geyma miklar upplýsingar, nýti tölvutæknina. Í þessu sambandi er unnið að athugun á tölvuvinnslu fyrir rannsóknarbókasöfn, Siglingamálastofnun o. fl. aðila.

Á vegum ríkisendurskoðunar hafa farið fram athuganir á starfsemi og stjórnun nokkurra ríkisstofnana. Má í því sambandi nefna skýrslu um Orkustofnun, Sinfóníuhljómsveit og Þjóðleikhús. Ríkisendurskoðun hefur einnig dregið saman upplýsingar um þróun ríkisframlaga og útgjalda til nokkurra sérsviða í ríkisrekstrinum. Lagðar hafa verið fram ítarlegar skýrslur um fjármál og starfsmannamál skattstofa og löggæslu í landinu á árunum 1976–79.

Að lokum við ég víkja að fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982.

Lögð hefur verið á það áhersla, að samhliða gerð fjárlagafrv. fyrir árið 1982 væri gengið frá lánsfjáráætlun fyrir það ár. Bæði þessi þskj. voru lögð fram á fyrstu dögum þingsins, og vænti ég þess, að nú gefist Alþingi betra tóm til að fjalla um lánsfjáráætlunina en stundum áður.

Þessi breytta tímasetning verður til þess að gera má ráð fyrir að áætlunin kunni að taka einhverjum breytingum fyrir endanlega afgreiðslu í ljósi breyttra aðstæðna á haustmánuðum, enda ekki ólíklegt að einhverjar af meginforsendum Þjóðhagsáætlunar, er máli skipta fyrir lánsfjáráætlun og fjárlög, taki breytingum fyrir árslok.

Á árinu 1982 er fjármunamyndunin í heild talin dragast saman um 6.0% frá yfirstandandi ári og verða nær 24% af þjóðarframleiðslu. Samdrátturinn verður fyrst og fremst í fjárfestingu atvinnuveganna og einnig í orkuframkvæmdum á vegum hins opinbera. Íbúðabyggingar og byggingarframkvæmdir hins opinbera, aðrar en orkuframkvæmdir, eru taldar verða áþekkar og í ár. Þrátt fyrir aðhald í fjárfestingu er ekki talin hætta á atvinnuleysi í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Stærsta viðfangsefnið í lánsfjármálum landsmanna á næstu árum er að auka innlendan sparnað og lánsfjáröflun. Þjóðin hefur á liðnum árum orðið að treysta á erlendar lántökur við eflingu skipastólsins, byggingu orkuvera og raunar til hvers konar meiri háttar atvinnu- og orkuframkvæmda. Erlendar skuldir þjóðarbúsins eru miklar og ljóst er að þær eiga enn eftir að aukast verði fjár til framkvæmda ekki leitað innanlands í ríkara mæli en verið hefur.

Verðbólguþróun undanfarinna ára hefur tvímælalaust skert eiginfjárstöðu banka og fjárfestingarlánasjóða. Nú hefur þessi öfugþróun snúist við og er þess að vænta að innlendur lánsfjármarkaður styrkist enn frekar en orðið hefur á þessu ári.

Í yfirliti um opinbera öflun lánsfjár í lánsfjáráætlun kemur fram að þar er að því stefnt að auka innlendar lántökur um 46% frá lánsfjáráætlun yfirstandandi árs, en erlendar lántökur um tæp 35%. Innlend lánsfjáröflun opinberra aðila nam í lánsfjáráætlun fyrir árið 1981 um 39% heildarlánsfjárþarfar, en sambærilegt hlutfali 1982 er um 41%.

Nokkurn tíma tekur að afla reynslu um hvaða aðilar innlendir geta lagt fram lánsfé til sameiginlegra þarfa umfram eigin útlán svo og að finna og þróa þær fjáröflunarleiðir sem best henta. Fram til þessa hefur einkum verið treyst á samninga við bankastofnanir og lífeyrissjóði innan ramma almennrar lagaskyldu.

Með hliðsjón af verðlags- og tekjuþróun er stefnt að útgáfu og sölu spariskírteina fyrir alls 150 millj. kr. Nokkur óvissa ríkir um sölu þessara bréfa, enda hafa sparifjáreigendur nú um önnur sparnaðarform að velja.

Um áætlun fjármagns frá lífeyrissjóðum gegnir öðru máli. Hin geysimikla aukning lánveitinga á vegum Byggingarsjóðs verkamanna til íbúðabygginga á félagslegum grundvelli gerir óhjákvæmilegt að leita fast eftir aukinni innlendri fjármögnun til þeirra. Hafa má hliðsjón af því, að hátt lánshlutfall sjóðsins mun létta á lánsþörf frá lífeyrissjóðunum beint til félaga sinna. Er því áformað að leita eftir hækkun lánshlutfalls lífeyrissjóðanna til opinberra þarfa úr 40% ráðstöfunarfjár, svo sem nú er lögskylt, upp í 45%. En vafalaust verður það ekki vinsæl beiðni og er það annað mál. Af þessu fé munu Framkvæmdasjóður og ríkissjóður halda hlutfalli sínu óskertu frá áætlun um 1981, en mestöll aukningin mun koma í hlut Byggingarsjóðs verkamanna. Alls er lánsfé frá lífeyrissjóðunum áætlað 531 millj. kr., þar af 476 millj. kr. til fjárfestingarlánasjóða og 55 millj. kr. til ríkissjóðs, og er þetta ríflega helmingur innlendrar lánsfjáröflunar samkv. áætluninni.

Aðrir inniendir liðir eru lán Atvinnuleysistryggingasjóðs, 52 millj. kr., sem samkv. venju gengur til Byggingarsjóðs ríkisins, og skyldusparnaður ungmenna, er rennur til sama sjóðs. Hann er nú talinn nettó 23 millj. kr. Þessi sparnaður ætti að geta gefið mun meira af sér, og er unnið að því að kynna betur hin nýju ákvæði um verðtryggingu hans og skattfríðindi.

Til þess að vega upp á móti þeim feiknalega kostnaði, sem er vegna fjármagnsútgjalda af byggðalínuframkvæmdum fyrri ára, er nú stefnt að því, eins og áður var nefnt, að á árinu 1982 verði lagt á sérstakt stofnlínugjald, alls 40 millj. kr. Með öllu er óeðlilegt að raforkuiðnaðurinn í landinu standi ekki undir þeim fjármagnskostnaði sem fjárfestingum er samfara.

Á árinu 1981 er áætlað að notkun erlendra lána til eins árs og lengri tíma muni nema 1 735 millj. kr. Er þetta um 270 millj. kr. aukning frá spá lánsfjáráætlunar, og stafar aukningin að mestu leyti af meiri skipakaupum en áætlað var, ásamt hækkunaráhrifum gengis og verðlags umfram forsendur lánsfjáráætlunar. Að teknu tilliti til afborgana af erlendum lánum nemur nettó-lántaka erlendis um 1 035 millj. kr. Að hluta hefur þetta fé runnið til að bæta gjaldeyrisstöðu landsmanna, eins og ég vék að í upphafi míns máls, og lætur nærri að 100 millj. kr. gangi til þess að jafna halla á viðskiptajöfnuði og 400 millj. kr. til þess að bæta gjaldeyrisstöðuna.

Heildarlántökur erlendis eru alls áætlaðar 2 070 millj. kr. Afborganir af löngum lánum eru áætlaðar 980 millj. kr. og hrein aukning skulda því 1 090 millj. kr. Það er um 9% af áætluðum útflutningstekjum borið saman við 12% hlutfall á árinu 1981, og 4% af áætlaðri þjóðarframleiðslu ársins 1982, borið saman við 5.1% á árinu 1981.

Því verður ekki neitað að erlendar skuldir og erlendar lántökur hafa þokast upp á við á liðnum árum. Lætur nærri að erlendar skuldir nemi 36% af þjóðarframleiðslu í árslok 1981. Greiðslubyrði vegna afborgana og vaxta af erlendum lánum hefur á undanförnum árum legið á bilinu 12.8–14.1%. Á árinu 1981 kann þetta hlutfall að hækka nokkuð, einkum vegna óvenjuhárra vaxta erlendis um þessar mundir.

Ég hef í þessari umfjöllun drepið á þau atriði í lánsfjáráætlun sem ég tel hæst rísa. Það er ekki sjáanleg ástæða til að fjalla hér um skiptingu ráðstöfunarfjárins milli atvinnugreina og sjóða, og nægir í því sambandi að vísa til fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlunar.

Herra forseti. Framsöguræða mín er þegar orðin nokkuð löng. En fjárlagafrv. er að sjálfsögðu langstærsta mál þinsins og svo gífurlega margþætt að í raun og veru eru umr. um það ákaflega stuttar í samanburði við umr. um önnur hlutfallslega smærri mál. Þá á ég við að oft eru býsna langar umræður undir öðrum dagskrárliðum hér í þinginu um mál sem afgreidd eru í einni línu í fjárlagafrv. og kannske aldrei minnst á í fjárlagaumræðum.

Ég vil þakka starfsmönnum fjárlaga- og hagsýslustofnunar fyrir frábærlega vel unnin störf fyrr og síðar og þá sérstaklega fráfarandi hagsýslustjóra, Gísla Blöndal, og þeim, sem nú gegnir þeim störfum, Magnúsi Péturssyni, sem áður hafði verið hægri hönd fyrri hagsýslustjóra. Störf manna í fjárlaga- og hagsýslustofnun eru erfið störf og oft vanþökkuð.

Þeir einir, sem nærri koma, skynja til fulls hvílíkt útþensluafl og innibúandi sprengikraftur er fólginn í stofnunum ríkisins, sem auðvitað hljóta stöðugt að bera sig saman við fjölmennar stofnanir nálægra þjóða sem gegna hliðstæðu hlutverki. Enginn láir forstöðumönnum ríkisstofnana að eiga sjálfsagðan metnað fyrir hönd þess tiltölulega litla stjórnunartækis sem þeir stýra. En það þarf sannarlega mikið aðhald og öflugan vilja til jákvæðrar gagnrýni ef ekki á að ofhlaða skútuna til ófarnaðar fyrir efnahagslífið og skelfingar fyrir skattgreiðendur.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði vísað til hv. fjvn. að lokinni þessari umr.