24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3251 í B-deild Alþingistíðinda. (2851)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hún skal vera örstutt þessi athugasemd.

Það er fyrst út af því sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði. Mér finnst það ekki við hæfi jafnmikils ágætismanns og þessi hv. þm. almennt er, að vera að gera mönnum upp orð hér í ræðustól. Ég veit ekki til að ég hafi í einu orði vikið að því, að ég væri andvígur endurnýjun á skipaflota Skipaútgerðar ríkisins. Mér þætti gaman ef hv. þm. gæti bent á það. Honum er heimilt mín vegna að fara beint í það sem kemur út úr talvélinni, og ef hann getur bent mér á að ég hafi mælt gegn því að endurnýja skipaflota Skipaútgerðar ríkisins, þá bið ég hann að gera svo vel að gera það. Menn eiga ekki, þó að í rökþrot komist, að haga sér með þeim hætti segja ósatt — það má ekki segja meira hér — eða gera mönnum upp orð þó að þeir telji sig standa höllum fæti í málflutningi. Ég vísa því til föðurhúsa að ég hafi hér á nokkurn hátt vikið að því, að ég væri andvígur endurnýjun á skipaflota Skipaútgerðar ríkisins. Það var einungis reynt að fá upplýsingar.

Hæstv. fjmrh. reyndi enn að klóra í bakkann, þó aumlega væri, eins og í fyrra skiptið. Hann segir að það komi vel til greina í sambandi við skattinn vegna byggðalínanna að taka hann í gegnum orkuverðið án þess að það sé sérstök skattlagning. Það er engin skattlagning ef bara er bætt ofan á orkuverðið, þá virðist það vera í lagi og að dómi hæstv. ráðh. engin sérstök skattlagning. Ég sé ekki að það skipti neinu máli fyrir þann sem á að greiða þennan skatt, hvort tekin er í hækkuðu orkuverði viðbót við það sem er eða hvort lagður er á sérstakur skattur. Það er einkennileg fjármálaspeki hjá hæstv. fjmrh. ef hann heldur að það sé einhver meginmunur á því fyrir þann sem á að greiða. (Fjmrh.: Það er lagalegur munur.) Er það lagalegur munur? Já, það er nefnilega það.

Í sambandi við samráðin við meiri hl. fjvn. fer ekkert milli mála, hæstv. fjmrh. Hv. þm. Eggert Haukdal lýsti því yfir áðan — að vísu úr sæti sínu, ég veit ekki hvort það hefur heyrst inn á segulbandið — að ekki hefði verið haft samráð við hann um niðurskurð á þeim 120 millj. sem gert er ráð fyrir að lækka ríkisútgjöldin um. Það hefur því ekki verið haft samráð við meiri hl. fjvn. í því máli. Stuðningsmenn ríkisstj., segir hæstv. ráðh. Þá er hann hér með búinn að afgreiða það mál, að hv. þm. Eggert Haukdal er ekki lengur stuðningsmaður ríkisstj., a.m.k. ekki í þessu máli, eftir því sem hv. þm. segir sjálfur.