24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3251 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Frsm. minni hl. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég gerði mér ekki grein fyrir að hv. þm. Karvel Pálmason væri svona viðkvæmur fyrir Skipaútgerð ríkisins, en það gleður mig. (Gripið fram í.) Ég sagði ekki að hv. þm. hefði mælt á móti því, að Skipaútgerðin endurnýjaði sinn skipakost, en ég sagðist hafa átt von á að hann sæi meiri ástæðu til að gleðjast yfir því en að vera að nudda sér upp úr formsatriðum í þessu máli. Það var það sem ég átti við.

En varðandi samráðin við meiri hl. fjvn. og stuðningsmenn ríkisstj. get ég staðfest það, að samráð var haft við fulltrúa í fjh.- og viðskn. og meiri hl. fjvn. Ég sat á þeim fundi svo að ég get borið um það vitni.