24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3251 í B-deild Alþingistíðinda. (2853)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég gríp hér inn í umr. á síðasta stigi að gefnu því tilefni, að orðaskipti áttu sér stað á milli hæstv. fjmrh. og hv. 6. landsk. þm. um þær till. sem liggja fyrir af hálfu hæstv. fjmrh. og ríkisstj. í tilefni af afgreiðslu þessarar lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar, um niðurskurð á ríkisútgjöldum að upphæð 70 millj. kr. til viðbótar þeim 50 millj. kr. sem heimild er fyrir í fjárlögum.

Ég tók svo eftir að umræðuefni þessara tveggja ræðumanna hér væri það, að hve miklu leyti samráð hefði verið haft við þm. er styddu ríkisstj., og álitamál væri, hvort samráð hefði verið haft við þá alla, og dregið mjög í efa. Það liggur hins vegar alveg ljóst fyrir, að ekkert samráð hefur verið haft við þm. stjórnarandstöðunnar, og mér skilst að það eigi að bera upp þessa till. við 2. umr. þessa máls, að heimila ríkisstj. frekari niðurskurð á útgjöldum án þess að leggja slíkar tillögur fyrir eða gera grein fyrir þeim í einstökum atriðum.

Hæstv. fjmrh. mun hafa lofað að gera grein fyrir þessu við 3. umr. fjárlaga. Ég tel víst að við sjálfstæðismenn séum mjög fylgjandi því, að sparnaðar sé gætt í ríkisrekstri, og munum fylgja tillögum þar að lútandi, en ekki hverjum sem er. Við viljum gjarnan fá að fjalla um það ef tilefni gefst til. Þess vegna er með öllu óeðlilegt að bera þessa till. upp hér við 2. umr. lánsfjár- og fjárfestingaráætlunar ef hæstv. fjmrh. er ekki reiðubúinn að gera grein fyrir þessum till. í einstökum atriðum.