24.03.1982
Neðri deild: 57. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3252 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í sjálfu sér er það ekki neitt stóratriði af minni hálfu hvenær gerð er grein fyrir þessum sparnaðaráformum. Ég hygg að ég sé búinn að gera grein fyrir þeim hér í þinginu nokkuð við umr. sem hér fóru fram fyrir mánuði, en það hefur kannske farið fram hjá hv. þm. (GeirH: Ég spurði hæstv. ráðh. áður en ég steig í ræðustól, hvort hann hefði gert grein fyrir þessum tillögum.) Já, það er rétt, það var gerð grein fyrir þessum till. í grófum dráttum þegar efnahagsaðgerðir ríkisstj. voru ákveðnar í lok janúarmánaðar. Hins vegar hefur síðan verið gerð ítarlegri samantekt á því, með hvaða hætti þessi niðurskurður verði, og ég hélt að hv. þm. væri að spyrja um þessa ítarlegri samantekt, en ég ætlaði að gera grein fyrir henni við 3. umr. málsins.

Ég vil vekja á því athygli, að þegar hv. þm. Geir Hallgrímsson var forsrh. fyrir nokkrum árum varð ríkisstj. hans að grípa til þess að skera niður útgjöld fjárlaga. Ég minnist þess ekki, að þm. stjórnarandstöðunnar hafi á nokkurn hátt fjallað um þessi mál. Ég minnist þess hins vegar að það var skorið niður eitt og annað sem t.d. viðkom mínu kjördæmi, en þáv. ríkisstj. leitaði ekki til þm. stjórnarandstöðunnar til að gera henni nákvæma grein fyrir hvað hún væri að skera niður. Það er rétt að vekja á því athygli líka, að í fjárlögum er heimild fyrir ríkisstj. til þess að skera niður eða lækka útgjöld fjárlaga um 50 millj. kr., en það er ekki bundið því skilyrði að haft sé samráð við fjvn. eða að fengið sé samþykki þm. fyrir því. Þess vegna er málið ekki þannig að hér sé verið að leggja fram till. um lækkun ríkisútgjalda upp á 120 millj. og menn eigi þar með að samþykkja einhvern tiltekinn niðurskurð. Það er einungis verið að afla heimildar, sem er öllu stærri og meiri um sig en fjárlög gera ráð fyrir, þ.e. 120 millj. í staðinn fyrir 50 millj. Raunar má segja að þm. fái allgóða mynd af verulegum hluta þessarar lækkunar ríkisútgjalda með því að lesa brtt. minni hl. hv. fjh.- og viðskn., því að þar er gerð grein fyrir verulegum niðurskurði, að svo miklu leyti sem hann er lækkun á framlögum til fjárfestingarsjóða.

Það er hins vegar ljóst að þessi lækkun á útgjöldum ríkissjóðs er öllu margbrotnari en þar kemur fram, og ég hafði gert ráð fyrir því að gera grein fyrir henni við 3. umr. um lánsfjáráætlun.