25.03.1982
Neðri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3254 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það gerist nú alltíðindasamt hér í þingi. Ég tek undir það, sem hv. síðasti ræðumaður gerði hér athugasemd við, og tek undir óskir hans að úrskurður forseta um lögmæta atkvgr., eins og hann féll, verði látinn standa. Það nær auðvitað ekki nokkurri átt, þó að einhverjum einstökum hæstv. ráðh. líki ekki niðurstöður atkvgr. hér í þinginu, að tekið sé tillit til þess eftir að búið er að úrskurða um atkvgr. Það er svo fráleitt sem hugsast getur. Ég veit ekki hvar slíkt endar, ef þau vinnubrögð á að taka upp hér í þingi að ef einhverjum hæstv. ráðh. — ég tala nú ekki um þegar þeir eru orðnir 10 — ef þeim mislíka úrslit atkvgr., þá eigi að breyta atkvgr. vegna þess. Ég ítreka óskir um að hæstv. forseti láti þann úrskurð, sem hann lýsti hér um niðurstöður atkvgr., gilda.