03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 424 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. 1. umr. um fjárlagafrv. er rétt að ljúka og tíminn úti og ekki aðstaða til að fara að halda langa svarræðu, enda má segja að fátt nýtt hafi í raun og veru komið fram í þeim athugasemdum sem gerðar hafa verið við fjárlagafrv. í dag. Ég stend fyrst og fremst upp til að svara nokkrum fsp., sem fram hafa verið bornar. Kannske er einfaldast, svo maður gleymi henni ekki, að svara fyrst spurningunni sem seinast var borin upp, þ. e. hverjir hafi verið fyrirvarar einstakra ráðh. við afgreiðslu fjárlagafrv. í ríkisstj.

Ég vil upplýsa hv. þm. Lárus Jónsson um það, að allir ráðh. þessarar ríkisstj. höfðu sinn fyrirvara við afgreiðslu málsins. Sá fyrirvari var ósköp einfaldlega sá, að þeir héldu sínum sérskoðunum þrátt fyrir efni frv. og að þeir væru e. t. v. ekki ásáttir um niðurstöðu mála í frv. að öllu leyti. En frv. er afgreitt einróma af ríkisstj. á þann máta sem það birtist hér og að sjálfsögðu burt séð frá því að einstakir ráðh. hafi fyrirvara um sínar sérskoðanir og hefðu allir kosið að eitt og annað í frv. væri með öðrum hætti en það er. Þetta er vafalaust ekki frábrugðið því sem áður hefur verið í ríkisstj., og vafalaust hefur aldrei komið fram fjárlagafrv., sem allir ráðh. ríkisstjórnar hafa verið fullkomlega ánægðir með, og verður vafalaust aldrei.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson bar fram fsp. um svokallað stofnlínugjald sem minnst er á í grg. með fjárfestingar- og lánsfjáráætlun. Um það er ekki í raun og veru margt fleira að segja en það sem ég gerði grein fyrir áðan, annað en það, sem ég held að hafi komið fram, að gert er ráð fyrir að þetta gjald skili 40 millj. kr. og að það verði greitt af raforkunotendum. Þetta held ég að hafi komið alveg skýrt fram í ræðu minni áðan, en um þetta var samt spurt. Kannske var spurningin þá fyrst og fremst um það, hvort gjaldið mundi leggjast á alla raforkunotendur eða hvort það mundi eingöngu leggjast á viðskiptamenn Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins. Ef spurningin hefur verið þessi vil ég svara henni eindregið neitandi. Það kemur að sjálfsögðu ekki til greina neitt annað en kostnaður við stofnlínur umhverfis landið verði greiddur jafnt af öllum orkunotendum í landinu. Það er ekki heldur hægt að segja að einn landshluti fremur en annar njóti góðs af þessum stofnlínum. Allir landshlutar njóta góðs af þeim. Það verður vafalaust innan tíðar farið að flytja rafmagn í stórum stíl inn á Faxaflóasvæðið og inn á það svæði, sem nú afmarkast af svokölluðu Landsvirkjunarsvæði, frá orkuverum sem verða í öðrum landshlutum. Það er hins vegar rétt, að fyrst í stað komu þessar stofnlínur því fólki til góða sem býr fjarri Faxaflóasvæðinu, en eins og ég var að taka fram er enginn vafi á að dæmið mun snúast við. Er ekki eðlilegt neitt annað en þessi kostnaður verði greiddur sameiginlega af öllum landsmönnum.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurði að því, hvers vegna væri munur á lánsfjáráætluninni og fjárlagafrv. og hvort það gæti verið að stórar ákvarðanir hefðu verið teknar á örfáum dögum sem liðu milli þess að fjárlagafrv. var lagt fram og lánsfjáráætlunin var lögð fram. Vissulega voru nokkrar ákvarðanir teknar milli afgreiðslu fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunar. Það voru allt atriði sem hafði verið frestað við afgreiðslu fjárlagafrv. Hitt er að sjálfsögðu fjarri lagi, að dagarnir hafi verið svo fáir sem hv. þm. var að gera skóna. Fjárlagafrv. var endanlega afgreitt í byrjun septembermánaðar. Eftir það var engu breytt í frv. og það búið til prentunar. Þannig verður þetta að vera því það er mikil vinna að koma því saman og koma því í gegnum prentun. Lánsfjáráætlunin var aftur á móti afgreidd í byrjun októbermánaðar. Það leið einn mánuður þarna á milli.

Það voru nokkur atriði sem voru ekki fullfrágengin og tekin var lokaafstaða til við afgreiðslu lánsfjáráætlunar: Það var í fyrsta lagi, eins og hv. þm. vakti athygli á, ákveðinn kostnaður við þjóðarbókhlöðuna sem ekki hafði verið tekin ákvörðun um hvort yrði reiddur af hendi. Það er spurning um sérstaka klæðningu sem á að hylja þetta mannvirki, og var í athugun hvort hægt væri að komast hjá þeim mikla kostnaði sem því fylgir að klæða þjóðarbókhlöðuna með þeim hætti sem ráð er fyrir gert. Lokaniðurstaðan varð sú, að úr því sem komið væri yrði þessu ekki breytt, og því varð að hækka lánsfjárútvegun í þessu skyni þannig að framkvæmdin stöðvaðist ekki í miðjum klíðum á næsta ári.

Í öðru lagi var tekin lokákvörðun um að hefjast handa um byggingu Suðurlínu á næsta ári, og við það hækkar kostnaður við byggðalínur um 60 millj. Þar á móti kemur svo aftur að fjármagnskostnaður við byggðalínur, sem áður hafði verið tekinn inn, lækkaði sem nam þeim 40 millj. sem ég var að nefna áðan.

Það er rétt, að lántaka til Sementsverksmiðjunnar hækkar frá því sem ráð er fyrir gert í fjárlagafrv. Þar er gert ráð fyrir 10 millj. kr. lántöku til að auka rekstrarfé fyrirtækisins. Nú er aftur á móti gert ráð fyrir að bæta 8 millj. við vegna stofnkostnaðar við verksmiðjuna. Þessi stofnkostnaður er fyrst og fremst fólginn í því, að verksmiðjan mun nota kol í staðinn fyrir olíu. Þetta er sem sagt ákveðinn stofnkostnaður sem talinn er óhjákvæmilegur og mun skila arði á skömmum tíma. Þannig er mesti misskilningur að þarna sé viðbótarrekstrarfjáröflun, heldur er þarna um að ræða annars vegar 10 millj. til að auka rekstrarfé fyrirtækisins og hins vegar 8 millj. í stofnkostnað.

Auk þess var lítið mál á ferðinni á milli afgreiðslu fjárlagafrv. og lánsfjáráætlunar, breyting á eldhúsi í gömlu flugstöðinni á Keflavíkurflugvelli til að geta framleitt þar í auknum mæli mat í flugvélar. Þessi kostnaður er tekinn inn í lánsfjáráætlunina.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson spurðist fyrir um hlutafjár- og eiginfjárframlög í fjárlagafrv. Þarna er um að ræða allmörg hlutafjár- og eiginfjárframlög, samtals að upphæð 40.5 millj. kr. Hér er um að ræða bæði hugsanleg framlög til sjóefnavinnslu, til stálbræðslu, til steinullarverksmiðju, allt samkv. sérstökum heimildum í lögum, og auk þess framlög til útgerðarfyrirtækisins Þormóðs ramma í Siglufirði og niðursuðuverksmiðjunnar Norðurstjörnunnar í Hafnafirði, en um bæði þessi hlutfjárframlög er till. um heimildarákvæði í 6. gr. frv. Þá eru hluta- og eiginfjárframlög til Landsvirkjunar, til Útvegsbankans og til Alþjóðaframfarastofnunarinnar. Fleiri hlutafjárframlög geta komið þarna til greina, og vil ég sérstaklega nefna hlutfjárframlag sem nefnt er á bls. 185 í frv., en það er hlutfjárframlag í grænfóðurverksmiðju.

Hv. þm. spurði um viðhald í Hólaskóla í Hjaltadal og hvernig stæði á athugasemd, sem er í frv. um viðhaldskostnað sem greiddur verði af fjárveitingu næsta árs, og jafnframt hvar væri að fá heimild til þessara útgjalda.

Það er rétt að í fjárlögum ársins 1981 er ekki kveðið á um þennan kostnað við Hólaskóla sem lagt hefur verið í. Staðreyndin er hins vegar sú, að þegar kennsla átti að hefjast í haust var útilokað að kennsla gæti hafist af heilbrigðisástæðum vegna þess hvernig húsið var og hvaða annmarkar voru á því. Þess vegna leitaði landbrn. eftir fyrirgreiðslu fjmrn. til að gera húsið upp. Þessi framkvæmd hefur bæði verið fjármögnuð með aukafjárveitingu á þessu ári að upphæð 800 þús. kr. og einnig hefur Búnaðarbankinn á Sauðárkróki lánað verktökum, sem verið hafa í vinnu á Hólum í Hjaltadal, til að vinna talsvert meira en nemur þessari aukafjárveitingu. Það er sá kostnaður sem gert er ráð fyrir að greiða á næsta ári. Ég hygg að það séu æðimörg dæmi þess á liðnum árum, að þegar sérstaklega hefur staðið á hafi verið tekin lán með þessum hætti, en að sjálfsögðu mundu verktakar ekki hafa fengist til að taka slík lán nema vegna þess að fjmrn. lýsti yfir að það mundi beita sér fyrir því, að þessi fjárveiting yrði tekin inn í fjárlög næsta árs. Að sjálfsögðu er lánið veitt af hálfu Búnaðarbankans á Sauðárkróki í trausti þess. Það eru áreiðanlega æðimörg fordæmi þessa þegar sérstaklega hefur staðið á og ekki ástæða til að fjölyrða frekar um það.

Ég verð að segja annars um málflutning hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, að hann var ærið sérkennilegur á köflum og væri þar af mörgu að taka ef tími væri til. T. d. talaði hv. þm. mjög lengi um útflutningsbætur, eins og hann hefði nánast ekki fyrr heyrt getið um þvílíkan ósóma að greiða kjöt og smjör niður í útlendinga, það væri fáheyrt með öllu. En þetta hefur víst tíðkast æðilengi og verið skiptar skoðanir um það án þess að slík ræðuhöld væru uppi höfð á Alþingi.

Það er hins vegar rétt, að seinustu þrjú árin hefur Framleiðsluráð haft heimild til að taka lán til viðbótar við útflutningsbætur á fjárlögum, en þar er ekki um neina lögleysu að ræða, eins og hv. þm. leyfir sér að kalla það, heldur samkv. heimildum í lögum. Þarna er í raun og veru um að ræða vanda sem kemur upp á árunum 1979, 1980, 1981 og 1982, og það er verið að dreifa vandanum á nokkur ár. Þessar lántökur hafa yfirleitt verið miðaðar við 5 ára tímabil. Hv. þm. var hins vegar alveg upp í skýjunum þegar hann var að býsnast yfir þeim hrikalegu lánum sem þarna væru á ferðinni og talaði um hverjir ættu að borga þau. Hverjir eiga að borga þetta? spurði hv. þm. Það eru börnin okkar og það eru barnabörnin okkar. — Ég á tvö börn, en engin barnabörn, en ég verð að segja að jafnvel þó að ég eignist barnabörn geri ég ekki ráð fyrir að þau þroskist svo ört að það sé nokkur von til þess að þau taki þátt í að greiða þetta lán innan 5 ára. Auðvitað er þetta hin mesta fjarstæða.

Um verðbólguna má margt segja, en það er kannske sýnishorn af málflutningi hv. þm., að þegar hann talar um hver hækkun framfærsluvísitölu sé verður hann að segja: Hún er milli 9 og 11%. Það er alveg útilokað fyrir hv. þm. að nálgast neitt sannleikann eða staðreyndir málsins þegar hann er að ræða um hver sé hækkun framfærsluvísitölu á hverju þriggja mánaða tímabili. Hann veit að 1. júní hækkaði framfærsluvísitala um liðlega 8, — ekki milli 9 og 10, ekki milli 9 og 11,— og 1. sept. hækkaði framfærsluvísitala um 8.9. Það er þó dálítið lægra en hann nefndi. 1. des. — eða 1. nóv. — er gert ráð fyrir að hækkanir verði innan við 9%. Þannig er auðvitað fjarstæða að tala í þessu tilviki um 9–11%. Ég býst við að meðalhækkunin á þessu tímabili hafi verið einhvers staðar nálægt 8.5–8.6%.

Þegar við svo veltum því fyrir okkur, hver er verðbólguhraðinn á þessu augnabliki, er það rétt, að ef við miðum við 12 mánaða tímabil er í augnablikinu um að ræða tölu sem er í kringum 48–49%. Hann vildi að vísu hafa það yfir 50, sem er sama ónákvæmnin og að öðru leyti einkenndi hans málflutning, en látum það vera. Það er rétt hjá honum, að þetta fer ekki niður í 40% fyrr en í árslok. En ef við lítum hins vegar á þann verðbólguhraða sem ég var að tala um, 8.7 eða 8.8% á hverju þriggja mánaða skeiði, hvað mundi það vera ef það væri reiknað heilt ár? Það getur hv. þm. gert. Ef við t. d. tökum töluna 8.8% fáum við nákvæmlega 40% verðbólgu, 40% verðbólguhraða. Þær hækkanir, sem hafa átt sér stað í tvö skipti og eiga sér stað væntanlega eftir næstu vísitölumælingu, eru mjög nærri því að gera verðbólguhraðann 40%.

Hitt var þó öllu lakara, þegar hv. þm. fór að tala um tilflutning á fyrirtækjum og kostnaði fyrirtækja úr A-hluta í B-hluta og B-hluta í A-hluta. Það var eins og hv. þm. hefði verið með vax í eyrunum þegar ég fjallaði mjög ítarlega um þetta mál í framsöguræðu minni. Hann tók ekkert tillit til þeirra röksemda, sem ég hafði þar fært fram, og gerði yfirleitt ekki minnstu tilraun til að svara þeim ábendingum sem þar komu fram. Ég nefndi í dag tvö dæmi um fyrirtæki sem hefðu verið flutt úr A-hluta í B-hluta, en svo aftur þrjú dæmi um fyrirtæki sem hefðu verið flutt úr B í A, en hv. þm. hagræddi þessu auðvitað eins og hentaði honum best með því að ræða um aðra hlið málsins og alls ekki hina sem ekki var hagstæð hans málstað. Lítum á þessi mál enn einu sinni. Það er hárrétt hjá hv. þm. að Krafla hefur núna verið flutt í B-hluta. Hún er raunar eina áberandi dæmið um slíkan tilflutning. Eins og ég benti á áður voru Kröfluvirkjun og útgjöld hennar vegna öll í B-hluta á árunum 1974–1978. Þegar verður algjör stöðvun á framkvæmdum við Kröflu, það er ekkert gert þar, þar er ákaflega lítil orkuframleiðsla, er ákveðið í nokkur ár að taka virkjunina inn í A-hluta. En nú, þegar útlit er fyrir að orkuöflun aukist þar verulega og engin ástæða er til að ætla annað en virkjunin standi undir þeim kostnaði sem búið er að leggja í hennar vegna, er hún flutt aftur í B-hluta og á að standa undir þessum útgjöldum.

Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. segði það í raun og veru alveg blákalt áðan að það væri í raun og veru eðlilegt að t. d. virkjunarkostnaður væri færður á viðkomandi virkjanir og þær væru látnar standa undir þeim kostnaði. Þegar við litum á virkjunarkostnaðinn, sem hann nefndi hérna líka, er nefnilega afar eftirtektarvert að öll árin 1980, 1981 og 1982 hefur virkjunarkostnaður verið í B-hluta, en það var greinilegt að hv. þm. gerði sér ekki grein fyrir því. Hann vitnaði að vísu í grg. frv., þar sem bent er á að ákveðinn liður hjá Orkusjóði lækki vegna þess að sá kostnaður lendir nú í B-hluta. Skýringin á því er sú, að virkjunarrannsóknir voru árið 1980 í B-hluta, árið 1981 eru þær að mestu leyti í B-hluta, en afborganir af ákveðnum lánum runnu gegnum A-hlutann í fyrra, eina árið sem það hefur gerst. Þessu er aftur breytt núna þannig að þetta er sameinað allt undir einn fjárlagalið sem heitir Virkjunarrannsóknir. Það er talið rökréttast að meðhöndla þetta allt á einn veg. Það, sem um er að ræða nú, er að þetta er allt á einum stað í B-hluta og viðkomandi virkjanir, Blönduvirkjun og Fljótsdalsvirkjun, verða látnar standa sjálfar undir virkjunarkostnaði sem hv. þm. raunar taldi eðlilegt, að því er mér heyrðist. Þarna skeikaði hv. þm. nokkuð þar sem hann áttaði sig ekki á því, að þessi kostnaður hefur undanfarin árverið að miklum meiri hluta í B-hlutanum.

Ekki batnaði málið þegar kom að sveitarafvæðingunni sem hv. þm. nefndi áðan og átti að vera sérstakt dæmi um að það væri verið að flytja úr B-hlutanum í A-hlutann. Hann áttaði sig nefnilega ekki á því, að sveitarafvæðingin er í A-hlutanum að talsverðu leyti. Hún er að vísu bæði í B-hluta og A-hluta. Það er framlag í gegnum ríkissjóð upp á 2.7 millj. (SighB: 2.7?) Já, 2.7. (SighB: Var áður 5.) Var áður 5. (SighB: Það lækkaði um 2.3.) Já, en hvernig var það þar áður í B-hluta og hvernig var það í frv. Sighvats Björgvinssonar sem hann flutti sjálfur árið 1980? Maður skyldi halda, úr því að hann er að hneykslast stórkostlega á því nú að hluti af þessum kostnaði skuli vera færður í B-hluta, að hann hefði sjálfur gætt þess að hafa þetta í A-hlutanum þegar hann réð fjárlagafrv. árið 1980 og lagði það fram hér fyrir hönd sinnar stjórnar. En það þarf ekki annað en að fletta upp í frv. hans sjálfs til að sjá að þar er þessi kostnaður færður í B-hluta. Mér finnst að hann hafi fyrir fram stungið algerlega upp í sjálfan sig hvað þetta atriði snertir. Það er alveg rétt, að ekki er eðlilegt að hafa þennan kostnað í B-hluta eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson gerði alfarið árið 1980. Þess vegna tek ég á árinu 1982 þennan kostnað að hluta til inn í A-hlutann og að hluta held ég honum áfram í B-hluta. Ég er sem sagt raunverulega að færa þarna kostnað inn í A-hluta miðað við það sem áður var. Þetta dæmi, sem hv. þm. nefnir, er einmitt dæmi um hið þveröfuga, að það er verið að taka meiri útgjöld á ríkissjóð, útgjöld sem voru í tíð Matthíasar Á. Mathiesens og í tíð Sighvats Björgvinssonar færð í B-hlutann og tekin lán fyrir.

Enn eitt dæmi get ég nefnt. Það er styrking dreifikerfis í sveitum. Hvernig var þessi liður, styrking dreifikerfis í sveitum, færður þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sendi frá sér fjárlagafrv.? Hann var færður í B-hluta. Hvernig var þetta í tíð Matthíasar Á Mathiesens? Jú, líka í B-hluta. Hann var raunar í B-hluta líka í mínu fyrsta fjárlagafrv., en í fyrra er þessi kostnaður í fyrsta sinn færður í A-hluta, 17 millj. í núverandi mynt og 21 millj. á þessu ári. Þarna er um að ræða stóran kostnaðarlið á þessu ári, upp á 21 millj., sem hafði í mjög mörg ár verið í B-hlutanum. Með nákvæmlega sömu rökum og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson var með áðan, að þarna er um að ræða kostnað sem ekki er hægt að segja að bændastétt landsins standi undir, er eðlilegt að taka þetta inn í ríkissjóðsdæmið og borga þetta úr ríkissjóði. Það er gert, en var ekki gert áður.

Við skulum nefna enn eitt dæmi sem hv. þm. nefndi ekki. Það er flugmálastjórn. Flugmálastjórn var B-hluta stofnun, tók lán t. d. til malbikunarframkvæmda og sérstaklega til kaupa á ýmiss konar öryggisútbúnaði og hafði gert það í mörg ár aftur í tímann. Þessi kostnaður var allur í B-hluta. Hann er núna færður í A-hluta. Þannig tekur ríkissjóður á sig kostnað sem áður var tekið lán fyrir í B-hlutanum.

Ég nefndi í ræðu minni að þarna væri fyrst og fremst eitt stórt dæmi, Krafla, og hún væri færð yfir í B-hlutann með ákveðnum rökum, en dæmin um hið gagnstæða væru miklu fleiri, að það væri verið að flytja kostnaðinn aftur yfir í A-hlutann. Ég vona að þessi orð mín hafi enn frekar staðfest það sem ég sagði í framsöguræðu, að að þessu leyti er auðvitað um miklu rökréttara frv. að ræða en var á fyrri árum.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv., enda verður nægur tími til þess við 2. og 3. umr. málsins.