25.03.1982
Neðri deild: 58. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3262 í B-deild Alþingistíðinda. (2903)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Með hliðsjón af því, sem formaður fjh.- og viðskn. sagði áðan, vil ég óska eftir því við hann sérstaklega, að hann taki til athugunar milli 2. og 3. umr. hvort ekki sé rétt að taka samsvarandi ákvæði þessu inn varðandi trjákvoðuverksmiðju við Húsavík. Ég vil svo biðja hæstv. fjmrh. um að sjá svo til milli 2. og 3. umr.þm. fái í hendur nauðsynlegar skýrslur og gögn um þetta ylræktarver til þess að þeir geti betur áttað sig á málinu. Við höfum fengið í hendur fjölmargar skýrslur um ýmsar verksmiðjur sem ekki er leitað heimildar fyrir að megi hefja byggingu á, en hér er sem sagt um að ræða verksmiðju sem ástæða þykir til að biðja um lánsheimild fyrir. Ég óska eftir að við fáum upplýsingar um þær hagkvæmniathuganir sem fram hafa komið, hvaða menn eigi hér hlut að máli, skýrslu um á hvaða rökum hæstv. ríkisstj. byggir þá beiðni sína, að þessi lánsfjárheimild sé veitt, og annað af því tagi. (Gripið fram í: Þetta er ekki lánsfjárheimild.) Þetta er lánsfjárheimild. (Gripið fram í: Nei.) Ég biðst afsökunar. Mér varð nú á. Þetta er heimild til að fella niður innflutningsgjöld. Ég óska eftir að nauðsynleg gögn um þetta mál verði send þm. svo að þeir geti áttað sig á þeim yfir helgina, áður en 3. umr. um lánsfjárlög fer fram. Á meðan þetta liggur ekki fyrir og meðan ég fæ ekki um þetta fullnægjandi upplýsingar treysti ég mér ekki til að taka afstöðu til málsins og greiða því ekki atkv.