25.03.1982
Sameinað þing: 69. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3280 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

201. mál, málefni El Salvador

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd þingflokks Alþb. lýsa yfir stuðningi við fram komna þáltill. hv. þm. Alþfl., þó að við áskiljum okkur rétt til að leggja fram brtt. þegar málið kemur til nefndar. Þá höfum við fyrst og fremst í hyggju að minna á tillögu Frakka og Mexíkana um leiðir til að finna pólitíska lausn á borgarastyrjöldinni í landinu, en eins og kunnugt er hafa Mitterand og Portillo lýst því yfir, að El Salvador verði ekki stjórnað án þátttöku og samvinnu við lýðræðislegu byltingarhreyfinguna FDR og Farabundo þjóðfrelsishreyfinguna. Ástæða væri einnig fyrir Alþingi að taka undir þessa yfirlýsingu og viðurkenna áðurnefnd samtök sem réttmæta fulltrúa alþýðunnar í EI Salvador. Og ekki væri síður eðlilegt að Íslendingar hétu því að taka þátt í þeirri aðstoð sem Norðurlöndin og þá sérstaklega Svíþjóð hafa veitt pólitískum flóttamönnum frá El Salvador.

Hér er búið að halda langar ræður um ástandið í þessu hrjáða landi. Í Suður-Ameríku er nú herforingjaeinræði í Argentínu, Chile, Uruguay, Bolivíu, Honduras, Guatemala og El Salvador, ógnarstjórnir sem njóta fulltingis og efnahagsaðstoðar Bandaríkjastjórnar og bandarískra auðhringa. Herforingjaklíkur hafa stjórnað EI Salvador frá 1931 þegar síðasta kjörna forsetanum var steypt af stóli. Farabundo Marti, sem þjóðfrelsishreyfingin í EI Salvador er kennd við, var myrtur 1932, um leið og fjöldamorð á bændum og verkamönnum áttu sér stað í San Salvador og um alla landsbyggðina. Alls voru þá drepnir um 30 þús. manns. Árið 1979 tók herforingjastjórn Napoleons Duartes við völdum. Hún er studd af Bandaríkjastjórn og í henni sitja einnig fulltrúar Kristilega hægri flokksins. Duarte hefur reynt að vera einhverskonar miðjuafl í EI Salvador, en flestir eru þeirrar skoðunar að í kosningunum 28. mars muni hægri öflin að sjálfsögðu fara með sigur af hólmi, þar sem stjórnarandstöðuöflin taka ekki þátt í kosningunum, enda þúsundir manna dauðadæmdar sem þeim tilheyra. Frá 15. okt. 1979 til síðustu áramóta hefur mannréttindanefnd EI Salvador staðfest 34 123 morð sem framin hafa verið af her og dauðasveitum hægri manna. Skipulagðar pyntingar og ógnanir gagnvart starfshópum og skipulögð morð ráðandi afla á konum og börnum hafa verið sönnuð. Þetta er okkur öllum allt af vel kunnugt.

Á árinu 1980 sameinuðust andstöðuöflin í EI Salvador í lýðræðislegu byltingarhreyfinguna FDR sem einbeitir sér að pólitískum og diplómatískum samskiptum og Farabundo Marti þjóðfrelsishreyfinguna sem er leiðandi afl í hinum pólitísku baráttu. Alþýðan í EI Salvador greip ekki til vopna fyrr en þrautreyndar höfðu verið allar leiðir til friðsamlegra lausna.

Ég harma mjög að hv. þm. Pétur Sigurðsson skuli ekki sitja hér í salnum á meðan ég flyt ræðu mína. Ég hef ýmislegt að athuga við hans ræðu. Mundi forseti kannske fara þess að leit við hann að vera hér inni? (Forseti: Ég skal athuga málið.)Það er þess vegna ekki um það að ræða að hér sé — eins og hv. þm. Pétur Sigurðsson gaf í skyn í ræðu sinni áðan — hver að drepa annan, eins og gerist í ýmsum löndum, en þannig talaði hann hér í langri og mikilli ræðu. Við erum nefnilega komin að því atriði sem skiptir hér höfuðmáli og við könnumst við frá Víetnam-styrjöldinni og átökunum þar í áratugi. Tvisvar sinnum á 50 ára tímabili hafa lýðræðisöfl sigrað í þingkosningum, en í bæði skiptin hrifsaði herinn völdin og blóðbað og aftökur fylgdu í kjölfarið. Þetta skiptir hverja lýðræðisþjóð höfuðmáli. Þess vegna er ósiðlegt að tala hér um þessi mál eins og hér sé bara eitthvert fólk að finna upp á því að slást hvað við annað. Þannig tölum við ekki á Alþingi Íslendinga, svo fjarri okkur er slík hugsun. Ég verð að biðja þingverði um að skila þessu til hv. þm. Péturs Sigurðssonar. (Forseti: Hv. 1. landsk. þm. er ekki í húsinu sem stendur.) Jæja, ég ætlast þá til að honum verði afhent ræða mín þegar hún kemur úr vélritun á morgun.

Andspyrnuhreyfingin í EI Salvador hefur lýst sig reiðubúna til pólitískra samninga við stjórnvöld um friðsamlega lausn. Hún yrði að sjálfsögðu fólgin í því að komið yrði á tvíhliða viðræðum með þátttöku áheyrnarfulltrúa frá öðrum ríkisstjórnum. Þetta fólk treystir auðvitað engum frá núverandi yfirvöldum EI Salvador. Til grundvallar slíkum viðræðum nægir stefnuskrá stjórnarandstöðunnar sem byggir á eftirfarandi meginatriðum sem við mundum varla treysta okkur hér á Alþingi Íslendinga til að vera á móti. Það er í fyrsta lagi viðurkenning á þjóðlegu sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti, virt verði trúfrelsi í landinu, framkvæmdar verði róttækar umbætur í landbúnaði og eigur fjölþjóðafyrirtækja verði þjóðnýttar, en það skyldi nú aldrei vera að þeir hagsmunir séu þarna á ferðinni, gamalkunnugt vandamál. Í fimmta lagi að búið verði við þrenns konar eignarform: einkaeign, ríkiseign og sambland þessara tveggja. Í sjötta lagi að EI Salvador gangi í samtök óháðra ríkja. Og í sjöunda lagi að nýr her verði myndaður með þátttöku byltingarhersins og þess hluta stjórnarhersins sem ekki er ábyrgur fyrir stríðsglæpum.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þessa ræðu mjög langa, en ég hlýt að koma hér inn á örfá önnur atriði. Allar tilraunir Bandaríkjastjórnar til þess að sanna, að andófið í EI Salvador sé runnið undan rótum Sandinista í Nicaragua eða Castros á Kúbu, hafa farið út um þúfur, enda ætti það ekki að koma þeim við. Stjórnin í EI Salvador er rúin trausti hinnar fátæku alþýðu og lifir eingöngu á efnahags- og hernaðaraðstoð Bandaríkjastjórnar. Alþýðan styður einhuga baráttu þjóðfrelsishreyfingarinnar og í þeim stuðningi felst að lýðræðislega byltingarhreyfingin telur sig geta unnið hernaðarlegan sigur þó að hún vilji binda enda á blóðbaðið sem fyrst með pólitískri lausn.

Það hefði verið gaman að hv. þm. Pétur Sigurðsson hefði setið hér. Ég ætlaði nefnilega að segja honum það, ef hann veit það ekki, að 86 bandarískir þingmenn hafa lýst yfir að ástandið í EI Salvador eigi ekki rót sína að rekja til kommúnísks samsæris, heldur sé orsakanna að leita í djúpstæðu og langvinnu óréttlæti og kúgun, sem fámenn yfirstétt landeiganda og leiguþýja auðhringa hefur staðið fyrir áratugum saman með stuðningi spilltra herforingja, og allt hafi þetta verið látið viðgangast af Bandaríkjastjórn. Manni er innanbrjósts eins og maður sé kominn 15 ár aftur í tímann og sé farinn að tala um Víetnam að nýju.

Þingmennirnir 86 segja hernaðaraðstoð Bandaríkjastjórnar til herforingjaklíkunnar í El Salvador sé sú mesta sem nokkurt ríki í Suður-Ameríku hafi notið. Þeir fullyrða að hernaðaraðstoð leysi engan vanda í El Salvador vegna þess að vandamálið sé pólitískt í eðli sínu. Það skyldi þó aldrei vera. Þeir fullyrða að það sé Reaganstjórnin, sem viðhaldi hinu bitra og órökrétta borgarastríði í landinu, og það er álit þingmannanna, að hernaðaraðstoðin frá Washington sé ónauðsynleg, óréttlætanleg og hrein mistök. Með hliðsjón af þessum vitnisburði og fjöldamörgum öðrum er full ástæða til að taka undir kröfu Alþfl. af fyllsta þunga um að Bandaríkjastjórn láti af hernaðarstuðningi sínum við ríkisstjórn landsins sem situr í skjóli bandarísks hervalds. Þetta er sérstaklega mikilvægt nú þegar sannkallaðar skrípakosningar fara í hönd í EI Salvador þar sem pólitískir leiðtogar stjórnarandstöðunnar eru landflótta, eru réttdræpir ef þeir láta sjá sig í landinu. Sérstaklega ber að vara við því, að Bandaríkjastjórn noti þessar kosningar til þess að réttlæta það þjóðarmorð, sem nú fer fram í EI Salvador, og haldi áfram hernaðaraðstoð við Duarte og hægri öfgamenn.

Hingað til hafa bandarísk stjórnvöld skellt skollaeyrum við öllum tilraunum til samningaumleitana. M.a. hafa þau hafnað tilboði Alþjóðasambands jafnaðarmanna um að Willy Brandt yrði skipaður sáttasemjari í fyrirhuguðum viðræðum samkvæmt tillögu Mexíkana og Frakka. Við þurfum ekki að fara mörgum orðum um það hér, hversu hrikalegt ástand er í þessu landi Þar búa nú um 4 millj. manna — kann vel að vera að ræðumaður hafi haft rétt fyrir sér áðan þegar hann talaði um 41/2 millj. og eru flestir landbúnaðarverkamenn af kynstofni indíána. Bandaríkjamenn ættu reyndar ekki að kippa sér upp við að ganga frá örlítið fleiri indíánum eins og þeir gerðu í eigin landi. Um 6% þjóðarinnar búa við allsnægtir og lifa í vellystingum — 6% sagði ég — og eiga mikinn meiri hluta alls jarðnæðis í landinu. Þessi landeigenda- og forréttindaaðall hefur neitað að fallast á allar umbætur í landbúnaði, sem bætt gætu hlut bænda og landbúnaðarverkamanna, og má ekki heyra minnst á uppskipti jarða. Ég skil ekki hvaðan hv. þm. Pétri Sigurðssyni er sú vitneskja komin, að verið sé að vinna að uppskiptingu jarða í EI Salvador. Ég tel mig hafa lesið töluvert mikið um þessi mál í hinum ýmsu tímaritum hinna ýmsu landa og alls staðar hefur verið tekið fram að það sé alls ekki verið að gera hið minnsta átak til að vinna að uppskiptingu jarða.

Þjóðartekjur á mann í þessu landi eru meðal þess lægsta sem þekkist í Suður-Ameríku og er þá langt til jafnað. Um 600 þús. EI Salvadorbúar eru núna landflótta af völdum borgarastyrjaldar og búa flestir í ömurlegum flóttamannabúðum í næstu nágrannaríkjum. Hernaðarleg lausn er því ekki til á vanda þessa fólks. Það er engin lausn á þessu máli önnur en pólitísk, og ekkert annað ern félagslegt réttlæti getur bjargað þessari þjóð.

Það er auðvitað skylda okkar að taka þátt í þeirri alþjóðlegu hreyfingu sem nú styður alþýðuna í EI Salvador og fordæmir hernaðarstefnu Bandaríkjamanna. Það má ekki láta Bandaríkjamönnum haldast uppi að fórna heilli smáþjóð, þurrka hana út af kortinu í ímyndaðri baráttu við heimskommúnisma, sem hvergi er til nema í höfðinu á Reagan og hans kumpánum.

Það er undarlegt siðferði sem kom fram í ræðu hv. þm. Péturs Sigurðssonar. Hann talaði um að okkur sé nú skyldast að líta næst okkur. Við, þetta forréttindafólk, sem býr í hinum eina sæmilega siðmenntaða hluta heimsins, eigum að sjá hvert um annað. Minnist ég þá enn ræðu minnar um aðild Íslendinga að Alþjóðaorkustofnun. Þessar ríkustu þjóðir heims eiga að sjá um að þær haldi áfram að vera ríkustu þjóðir heims á kostnað hinna fátæku, hinna ólæsu, hinna sveltandi. Þetta þætti ekki góð siðfræði ef hún væri kennd í barnaskóla.

Við þm. Alþb. höfum ævinlega og ávallt stutt frelsisbaráttu hvers þess ríkis sem gengið er á og kúgað er. Menn tala hér um eitthvert afmarkað fyrirbæri sem kallað er mannréttindi. Hvernig dettur mönnum í hug að tala yfirleitt um mannréttindi í EI Salvador? Þar er ekki um að ræða nem mannréttindi. Þarna er erlent stórveldi í krafti peninga, í krafti hervalds að kúga bláfátækt bændafólk, myrða það og skjóta eins og hunda hvar sem til þess næst. Og svo eru menn að tala um einhverjar nefndir sem eiga að fara að ræða um mannréttindi í þessu landi.

Ég vildi benda hv. þm. Pétri Sigurðssyni á tvær bækur sem hann ætti að Iesa. Bandarískur félagsfræðingur, Oscar Lewis, hefur skrifað tvær mjög merkilegar bækur sem eru félagslegar rannsóknir á lífi manna í Mið-Ameríku. Önnur heitir La Vida og fjallar um líf fátæklinga í Puerto Rico. Hin heitir Börnin í Sanche og fjallar um líf fátæklinga í Mexíkó. Ég er hrædd um að sá heimur, sem hv. þm. Pétur Sigurðsson dró upp áðan, eigi litið skylt við það. Ég hef enga ástæðu til að halda að Oscar Lewis, sá merki fræðimaður, hafi haft í huga að gera hlut eins eða annars meiri en hann er. Hann rannsakaði staðreyndir eins og þær eru.

Það þarf töluverða hreysti til þess hér á Alþingi Íslendinga að leggja að líku ástandið í Póllandi og ástandið í EI Salvador, og þar með er ég ekki að fagna ástandinu í Póllandi. En það er æðimikill munur á því, hvort fólk er drepið í hundraða- og þúsundatali, tugþúsundatali, nýtur ekki minnstu mannréttinda, kann hvorki að lesa né skrifa, hefur hvorki föt, mat né húsaskjól, og hins vegar átökum eins og eru að eiga sér stað í Póllandi. Mér varð einu sinni á sjálfri að tala svona. Ég fékk þá lexíu sem ég gleymi aldrei. Ég ætla að segja þeim fáu hv. þm. sem mál mitt heyra hvernig það gerðist.

Ég var einu sinni á alþjóðaþingi suður í Rúmeníu. Ég kom frá mínu góða landi með ræðu að heiman. Þá stóð yfir umræðan um rétt Solzhenitsyns til að skrifa bækur í Sovétríkjunum. Ég fordæmdi auðvitað ritskoðun og hélt fram tjáningar- og skoðanafrelsi á þessari ráðstefnu háu og skýrt og þóttist meiri að, og ég get staðið við þá ræðu enn í dag. En í viðræðum við fólk frá Afríku, fólk frá Mið-Ameríku, fátæklinga frá Bandaríkjunum varð ég þess vör, að ræða mín hafði haft afar lítil áhrif á þetta fólk. Og ég hreinlega spurði hvort mönnum fyndist ég hafa verið að segja einhverja vitleysu. Nei, nei, því fannst það ekki. En þetta fólk sagði bara: Okkur kemur þetta skelfilega lítið við. Ef þið hafið ekkert annað að hugsa um upp á Íslandi en hvort einhverjir Rússar megi skrifa bækur, þá skuluð þið gera það. Við höfum við alvarlegri vandamál að stríða. Og það er hræðilegur sannleikur í þessu.

Kona ein, sem gerði mesta hríð að mér um þetta, sagði mér að maður hennar, hún var frá Búrúndí, hefði verið hálshöggvinn, þrjú börn hennar af fimm voru dáin úr hungri. Ég skildi mætavel að henni væri nokkuð sama um Solzhenitsyn. Hún sagði einfaldlega: Í Sovétríkjunum hafa þó allir eitthvað að borða, þeir kunna að lesa og skrifa. Ef við værum komin svo langt, þá skyldum við fara að taka þátt í þessari umræðu ykkar þarna norður frá.

Við skulum ekki gera okkur sek um — eins og ég gerði þarna og skal aldrei gera aftur — þennan hlutfallarugling, að rugla því saman hvort fólk hefur að borða, hvort fólk er skotið og myrt eins og hundar eða hvort menn deila um ákveðin mál, eins og gert er í Póllandi. Skal ég þó vera fyrst til að fordæma það ofbeldi stjórnvalda að grípa til valdbeitingar gagnvart frjálsum verkalýðssamtökum. En á þessu tvennu er sá reginmunur sem menn verða að hafa í huga.

Hv. þm. Pétur Sigurðsson talaði um að stjórnvöld væru tilbúin að semja við skæruliða. Hvílíkur barnaskapur. Þeir eru allir löngu, löngu komnir á lista yfir þá sem verða skotnir hvar og hvenær sem þeir finnast. Það verður ekki um nema samninga að ræða þar. Það, sem EI Salvadorbúar eru hræddir við á þessari stundu, er að Bandaríkin geri innrás í landið og hlutist til um innanríkismál EI Salvador með vopnavaldi eins og þau gerðu í Víetnam. Hvað eigum við lengi að horfa upp á þessa atburði gerast með þessi eilífðarbláu augu á ágæti Bandaríkjamanna? Hversu lengi eigum við að ræða heimsmál hér á Alþingi Íslendinga á þeim nótum að aldrei sé hægt að tala um Bandaríkin án þess að fara að tala um Sovétríkin líka. Þetta er eins og að halda á spili þar sem öðrum megin er svart og hinum megin er hvítt og alltaf verður að setja út hvort tveggja í einu.

Í byrjun níunda áratugs aldarinnar hljótum við að verða að fara að breyta þessari umræðu. Framtíð mannkynsins er undir því komin að allar þjóðir komist á það stig sem verður að teljast mannsæmandi á 20. öldinni. Við hin förum með þeim ef til alvarlegra átaka kemur. Lífríki heimsins er ógnað ef heilum löndum er eytt, eins og nú er t.d. verið að gera í Amazonhéruðunum. Það er verið að kippa undan okkur öllum skilyrðum til lífs á jörðinni. Og svo standa menn hér og lesa einhvern þvætting upp úr einhverjum skýrslum þar sem ekkert er hugsað í samhengi, sömdum handa einföldum stjórnmálamönnum til að lesa yfir þjóðþingum. Ég lýsi því yfir, að ég frábið mér að sitja undir svona lesningum.

Ég skal ekki hafa ræðu mína lengri, herra forseti. Hér hafa allir talað of lengi. En þetta mál er vissulega þess virði. Ég tek ekki undir að það sé neitt vafamál að við eigum að álykta um slík mál. Sannleikurinn er sá, að við eigum alltaf að álykta um þessi mál. Við eigum að álykta í hverju einasta slíku máli, hvar og hvenær sem er. Þess vegna vil ég fyrir hönd þingflokks míns lýsa eindregnum stuðningi við þessa till. En eins og ég minntist á áðan tel ég að hún mætti vera ákveðnari. Ég geri mér ljóst að flytjendur hafa eflaust verið að leita eftir samkomulagi. Ef ræða hv. þm. Péturs Sigurðssonar var fyrir hönd þingflokks Sjálfstfl., þá hef ég ekki mikla von um að við getum komist að samkomulagi, nema hann ætlist til þess, að við leggjum að jöfnu það sem er að gerast í Póllandi og það sem er að gerast í El Salvador. En við skulum sjá hvernig þessu reiðir af.

Ég skora á hv. utanrmn. að afgreiða þessa till. á þessu þingi og mun okkar fulltrúi þar beita sér fyrir því.