03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

1. mál, fjárlög 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að benda á eitt atriði sem sýnir fram á hvort það er rétt hjá hæstv. fjmrh. að tilfærslan á fjármagnsútgjöldum Kröfluvirkjunar yfir í B-hluta sé í framhaldi þess að tekin hafi verið ákvörðun um að virkjunin fari sjálf að standa undir fjármagnsútgjöldum af rekstri sínum. Í B-hluta, þar sem Krafla er færð í fjárlagafrv., er hvorki gert ráð fyrir að komi fram rekstrarútgjöld né rekstrartekjur. Eins og hæstv. fjmrh. veit er rekstur Kröfluvirkjunar í höndum Rafmagnsveitna ríkisins. Í B-hlutanum, þar sem Kröfluvirkjun er færð með fjármagnsútgjöld og stofnkostnaðarútgjöld, er því ekki gert ráð fyrir nemum rekstrartekjum né rekstrargjöldum. Það er því alls ekki að sjá af þessu að farið sé að taka þá ákvörðun að Krafla eigi með einhverjum hæti að fara að standa undir þessu sjálf, heldur er beinlínis stefnt að því að áfram verði haldið þeim sið, sem haldist hefur um nokkurt skeið, þegar séð var að Krafla mundi á engan hátt geta staðið undir sér, að þetta sé greitt úr ríkissjóði með lántökum.

Ég vildi vekja athygli á þessu: Ef ákvörðun hefði verið tekin um að Kröfluvirkjun ætti að fara að bera fjármagnskostnaðinn myndi að sjálfsögðu hafa komið fram í B-hlutanum að færð væru þar rekstrargjöld og tekjur.