29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3297 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Ég held að ég muni það rétt, að ég hefi talað tvisvar við þessa umr., og hef fengið leyfi forseta til að gera hér aths. Ég bjóst hins vegar við að hæstv. dómsmrh. mundi kveðja sér hljóðs og svara ýmsum af þeim spurningum, sem til hans hefur verið beint í þessari umr., og tjá sig um þær brtt. sem hér liggja fyrir. Það liggja fyrir fimm brtt. við þetta frv.: þrjár frá mér, ein frá hv. þm. Eiði Guðnasyni og ein frá hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni og Eiði Guðnasyni. Ég tel nauðsynlegt að hæstv. dómsmrh. geri rökstudda grein fyrir afstöðu sinni til þessara brtt. áður en atkvgr. fer fram í deildinni.

Ég ítreka það sem ég hef sagt hér áður, að ég tel að frumvörp um eina af þremur meginstofnunum í stjórnkerfi landsins, Hæstarétt, sem er þriðja megingreinin í okkar stjórnkerfi, séu á ýmsan hátt alvarlegri og viðkvæmari frumvörp en ýmislegt annað sem við erum hér að fjalla um. Það vill hins vegar svo til, að stjórnarskrá Íslands er mjög rýr að ákvæðum hvað dómsmál snertir, en væru hliðstæð ákvæði um dómsskipunina, dómsvaldið, í stjórnarskránni og eru um löggjafarvaldið sérstaklega og framkvæmdavaldið er alveg ljóst að það frv., sem við erum hér að fjalla um, og a.m.k. nokkrar af þeim brtt., sem hér eru fluttar, væru tillögur um stjórnarskrárbreytingar. Það er þess vegna öll efnisástæða til þess, að hæstv. dómsmrh., flm. þessa frv., geri grein fyrir afstöðu sinni til þessara brtt. svo að hún liggi fyrir á rökstuddan hátt, hvort sem hann er sammála þeim eða ósammála.

Enn fremur vakti ég athygli á því við síðustu umfjöllun málsins í deildinni í fyrri hluta 2. umr., að hvort sem mönnum líkar það betur eða verr hafa nokkrir prófessorar í lögum við Háskóla Íslands, þar með talinn forseti lagadeildar, og ýmsir virtustu dómarar við dómstóla hér í Reykjavík sent frá sér greinargerð og er nú bráðum hálft ár síðan sú greinargerð kom fram. Í þeirri greinargerð er að finna ítarlegan rökstuðning gegn ákvæði til bráðabirgða, sem í þessu frv. er. Látið er að því liggja, eins skýrt og nánast hægt er að gera með öllum rökstuðningi og ályktunum þeirrar greinargerðar, að þeir telji að stjórnarskrárlegri stöðu Hæstaréttar sé stefnt í hættu með því að samþykkja ákvæði til bráðabirgða í þeim búningi sem það er nú.

Ég er þeirrar skoðunar, að þegar forseti lagadeildar Háskóla Íslands, nokkrir prófessorar aðrir í lögum við Háskóla Íslands og ýmsir þeirra, sem lengst hafa starfað við æðstu dómstigin sem eru hér í höfuðborg landsins, senda frá sér slíka greinargerð um Hæstarétt Íslands, þá sé lágmarkskrafa að flutningsaðilar frv. sendi frá sér skriflegt svar við þessum rökstuðning svo að.það liggi alveg ljóst fyrir skriflega í þskj. hver eru rök dómsmrn. eða þá annarra aðila, sem hlut eiga að máli, fyrir því að hafna eða vísa til hliðar þessari álitsgerð prófessora í lögum við Háskóla Íslands og dómara við æðstu dómstigin hér í höfuðborginni. Það hefur verið venja hér varðandi ýmis minni háttar frv. í þinginu að leita álits lagadeildar Háskóla Íslands, og sú venja hefur skapast hér í þinginu, að það álit er talið mikilvægur úrskurður varðandi ýmis viðkvæm deilumál. Nú vill svo til, að þótt ekki sé um formlegt álit frá lagadeildinni sem stofnun að ræða eru það ýmsir einstaklingar, sem hana skipa, og aðrir háttsettir dómarar sem hafa sent þessa ályktun frá sér.

Ég var ekki að gagnrýna það í sjálfu sér í minni síðustu ræðu fyrir nokkrum vikum að nefndin hefði ekki krafist þess að fá skriflega greinargerð frá Lögmannafélaginu. Ég hefði hins vegar talið það æskilegt og vil nefna í því sambandi að þegar verið er að fjalla hér um efnahagsmál, eins og gert er hvað eftir annað í þinginu, er yfirleitt, eftir að fulltrúar Seðlabanka, Þjóðhagsstofnunar og ýmissa aðila koma á fund nefnda, óskað eftir skriflegum álitsgerðum þessara aðila um þessi efni svo að það liggi fyrir skýrt í nál. eða öðrum þskj. hver afstaða þessara stofnana hefur verið. Ég hefði talið að fyrst þessi greinargerð liggur á annað borð fyrir um Hæstarétt væri alveg nauðsynlegt að einhver aðili treysti sér til að svara þeirri greinargerð skriflega, vegna þess — ég endurtek það — að hvort sem mönnum líkar betur eða verr hefur þessari hv. deild fyrir nokkrum mánuðum verið send þessi skriflega álitsgerð frá þeim hópi manna, sem hér hefur verið vitnað til, og við henni hefur ekki borist neitt svar, skriflegt eða munnlegt, úr ræðustól Alþingis varðandi afstöðu rn. eða annarra aðila til þessara röksemda.

Ég vil þess vegna formlega óska eftir því við hæstv. dómsmrh., að áður en þetta frv. verður afgreitt frá þessari deild leggi dómsmrn. fram skriflega greinargerð þar sem rök séu flutt fyrir því, hvers vegna dómsmrn. kýs að vísa til hliðar eða hafna þeim röksemdafærslum sem þessi títt nefndi hópur prófessora í lögfræði og dómara í höfuðborg landsins hefur sent frá sér. Ég tel það ekki sæmandi málsmeðferð, hika ekki við að segja það, að þegar verið er að fjalla um Hæstarétt Íslands og við erum að gera breytingu á dómsvaldinu í landinu, sem er í reynd stjórnarskárígildi ef horft er til ákvæða stjórnarskrárinnar um löggjafarvaldið, þá liggi ekki fyrir skýrt og greinilega röksemdafærsla dómsmrn. gagnvart því, hvers vegna það hafnar þeim röksemdafærslum sem þessi hópur fremstu lögfræðinga landsins hefur sent frá sér. Ég tel a.m.k. að Hæstiréttur Íslands sé svo alvarlegt umræðuefni og þær ásakanir, sem fram hafa komið í þessari grg., séu þess eðlis, að þeim beri að svara með þessum hætti.

Ég vil þess vegna, herra forseti, ítreka þá ósk mína til hæstv. dómsmrh., að hann í fyrsta lagi lýsi rökstuddri afstöðu sinni til þeirra brtt. sem hér hafa komið fram, bæði frá mér og hv. þm. Eiði Guðnasyni og Karli Steinari Guðnasyni, og í öðru lagi að áður en atkvgr. fer fram í þessari deild um þessar brtt. og frv. leggi dómsmrn. fram skriflegt svar sitt við þeirri álitsgerð lögfræðinga sem hv. Ed. Alþingi barst fyrr í vetur.