29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3298 í B-deild Alþingistíðinda. (2925)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Ég hafði vænst þess að hv. Ed. færi að taka endanlega afstöðu til þessa frv. Að mínum dómi hefur frv. verið skilmerkilega rökstutt. Það hefur fengið mjög ítarlega umfjöllun og vitna ég þar í orð hv. formanns allshn., 5. þm. Vesturl. Dómsmrn. hefur lagt sig fram um að svara öllum fsp. sem borist hafa um þetta frv. Hvað eftir annað hefur verið mætt á fundum hv. allshn. Ed. til að gefa skýringar um þetta mál. Ég kannast ekki við að ég eigi eftir að svara nokkurri fsp. sem beint hefur verið til mín í þessu máli, nema þá þeirri sem hv. 11. þm. Reykv. beindi til mín í síðustu aths. sinni, sem hann hefur nú nýflutt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að tefla máli þessu í tvísýnu með því að fara að skrifa nýja greinargerð um þetta mál. En til að lýsa afstöðu minni svo að enginn fari þar villur vegar get ég gjarnan rifjað upp, úr hvaða jarðvegi þetta frv. er sprottið, og minnst á helstu rök sem liggja að þessum tillögum.

Um þær er það að segja, að í fyrsta lagi eru í ríkisstjórnarsáttmálanum ekki mörg orð um dómsmál, en þar er þó tekið fram að unnið skuli að því að hraða meðferð dómsmála. Allir þeir, sem eitthvað fylgjast með í þessum efnum, vita að full þörf er á að hraða meðferð dómsmála, ekki síst þar sem það er ljóst að sú töf, sem verður á því að menn fái endanlega úrlausn í sínum málum, er einkum í Hæstarétti af því að þar vinnst ekki tími til að ganga nógu greitt eða á nógu skömmum tíma frá málum.

Það var einhvern tíma sem hv. 11. þm. Reykv. vildi fá að vita hvort þetta frv. eða ýmis ákvæði þess væru frá dómsmrh., hæstaréttardómurum, einhverjum mönnum í dómsmrn. eða hvort allir hæstaréttardómarar væru sammála. Ég held að hv. dm. í Ed. hljóti að vera nokkuð vissir um það nú orðið að hæstaréttardómarar eru ekki ævinlega sammála. Það kemur mjög oft fyrir að þeir skiptast í afstöðu til hinna mikilvægustu mála og sér enginn neitt athugavert við það, nema hvað það er kannske óæskilegt að Hæstiréttur klofni, eins og það er kallað, mjög oft.

Þær tillögur, sem bornar eru fram í þessu frv. um Hæstarétt Íslands, eru auðvitað sprottnar upp úr ýmsum hugleiðingum, ekki hvað síst milli mín og forseta Hæstaréttar, og á ég þá ekki hvað síst við fyrrv. forseta Hæstaréttar sem jafnframt var formaður réttarfarsnefndar frá upphafi, frá því að hún var stofnuð 1972, því það er tiltölulega nýlega búið að skipta um formann í réttarfarsnefndinni. (ÓRG: Ármann Snævarr?) Nei, það var Björn Sveinbjörnsson. Hann er þar af leiðandi einn af aðalhöfundum lögréttufrv. svo að hann þekkir þetta mál mjög vel frá öllum hliðum.

Vitanlega var það það fyrsta, sem ég tók til athugunar til að framfylgja ákvæðinu í stjórnarsáttmálanum, að skoða þær leiðir sem helst kæmu til greina. Eftir ítarlegar umræður við hina færustu menn á þessu sviði, þ. á m. hæstaréttardómara og þáv. forseta Hæstaréttar, get ég gjarnan rifjað upp hvaða leiðir komu helst til greina að okkar dómi til að hraða meðferð mála í Hæstarétti.

Þær leiðir, sem helst koma til greina til að stuðla að skjótari úrlausn mála fyrir Hæstarétti, eru þessar:

1. Hækkun áfrýjunarfjárhæðar í einkamálum. Þessa leið verður að fara varlega. Áfrýjunarfjárhæð er nú 2 þús. kr. og e.t.v. mætti hækka hana í 4–5 þús. kr. Þetta leysir þó tæplega mikinn vanda að því er greiðari meðferð mála snertir í Hæstarétti.

2. Fela mætti Hæstarétti vald til að ákveða hvort áfrýja megi máli eða ekki. Slíkar reglur eru í gildi sums staðar á Norðurlöndum. Þess er þó að gæta að þar eru alls staðar a.m.k. þrjú dómstig, en hér á landi aðeins tvö. Telja verður að fara verði með mikilli gát í því að takmarka rétt borgaranna til að skjóta málefni sínu til æðri dóms til endurskoðunar. Það eru mannréttindi sem varasamt er að skerða til muna. Við vitum að Íslendingar eru yfirleitt þannig gerðir að þeir telja vart kominn endanlegan dóm í máli sínu fyrr en um það er genginn hæstaréttardómur.

3. Millidómstig sem yrði áfrýjunardómstóll í minni háttar málum. Á undanförnum árum hefur nokkrum sinnum verið lagt fyrir Alþingi frv. til l. um lögréttu, en ekki fengið afgreiðslu. Í því frv. er gert ráð fyrir millidómstigi milli héraðsdóms og Hæstaréttar sem yrði að jafnaði endanlegur áfrýjunardómstóll í þeim málum, þ. á m. kærumálum, sem héraðsdómur dæmdi í á fyrsta dómstigi, en fyrsta dómstig í öllum stærri málum. Þeim málum mætti síðan áfrýja til Hæstaréttar. Með stofnun slíks dómstóls yrði létt miklu álagi af Hæstarétti og þörf fjölgunar hinna reglulegu dómara þar yrði tæpast nauðsynleg fyrst um sinn. Einhvern veginn þyrfti þó að leysa úr þeim vanda sem steðjar nú að vegna hins mikla fjölda óafgreiddra mála, jafnvel þótt lögréttuleiðin væri farin.

4. Mjög mikil nauðsyn er á að Hæstiréttur fái að ráða sérfróða menn dómnum til aðstoðar, eins og tíðkast alls staðar annars staðar á Norðurlöndum. Slíkt mundi mjög auðvelda störf dómaranna og auka vinnuafköst þeirra. Sem stendur eru engir slíkir sérfróðir aðstoðarmenn við réttinn, en gert er ráð fyrir þeim í þessu frv. og er þegar samþykkt fjárlagaheimild fyrir a.m.k. einn aðstoðarmann, ef ég man rétt.

5. Fjölgun reglulegra dómara í Hæstarétti. Árið 1973 var hæstaréttardómurum fjölgað úr fimm í sex, með lögum nr. 42 frá 1973, og úr sex í sjö 1979, með lögum nr. 24 frá 1979. Vissulega kæmi mjög til álita að fjölga dómurum í 10–11, en þá gæti rétturinn starfað í tveimur fimm dómara deildum. Það er þó tæpast tímabært meðan ekki er ráðið hver örlög lögréttufrv. fær. Hins vegar væri ugglaust rétt að fjölga dómurum strax í átta, en þá gæti dómurinn starfað í tveim deildum í senn, sem þriggja manna dómur, er dæmdi kærumál og minni háttar áfrýjunarmál, og fimm manna dómur, er dæmdi meiri háttar mál. Reynt hefur verið, eftir því sem hægt hefur verið talið, að dæma sem flest mál af þrem dómurum eftir að það var heimilað með lögum frá 1973. Hin síðari ár hefur um helmingur af málum verið dæmdur af þrem dómurum og eru þá öll mál meðtalin, einnig útivistardómar.

6. Sú leið, sem einna helst kæmi til greina til að hraða úrlausn þeirra mála sem nú bíða dóms fyrir Hæstarétti, væri líklega sú að lögleiða heimild til að setja 3–4 eða 2–3 varadómara um stuttan tíma í einu til að reyna að ljúka þessum málum eða a.m.k. fækka þeim. Gæti þetta orðið með þeim hætti, að slíkir varadómarar yrðu settir um þriggja eða fjögurra eða sex mánaða skeið á ári. Dómurinn mundi þá starfa í tveim deildum þann tíma og hinir föstu dómarar yrðu í meiri hluta í báðum deildunum. Svipað fyrirkomulag og þetta hefur tíðkast um nokkurn tíma í Finnlandi og var einnig í gildi í Noregi um skeið eftir stríðið. Þetta fyrirkomulag er að ýmsu leyti gallað. T.d. hafa settir hæstaréttardómarar ekki sama starfsöryggi og hinir skipuðu og þeir eru ekki jafnóháðir framkvæmdavaldinu og hinir skipuðu vegna þess að þeir þurfa aftur að hverfa að fyrri störfum eða öðrum störfum er setningu lýkur. Nokkrir annmarkar eru á því, að Hæstiréttur starfi í tveim deildum, a.m.k. til langframa. T.d. kynni þá að verða meiri hætta á ósamræmi í dóminum en ella. Samt sem áður verður að telja að þetta sé eina færa leiðin til að leysa úr þeim vanda sem Hæstarétti er nú á höndum. Þess ber að geta, að talsverð reynsla er hér á landi af setningu hæstaréttardómara, bæði í einstökum málum og um tiltekinn tíma, jafnvel svo árum skiptir. Sýnir sú reynsla að hinir settu dómarar hafa rækt starf sitt með miklum ágætum.

Ég geri réð fyrir að þær staðreyndir, sem hér eru yfir hafðar, séu flestum hv. dm. nokkuð kunnar eftir svo langvarandi umfjöllun þessa frv. Ég taldi þó rétt að rifja þær upp við þessa umr. Ég er ekki að segja að þessi leið, sem bent er á í frv., sé sú eina rétta, enda sést það best á þeim atriðum sem ég hef nú nefnt. En það er eins og oft áður, að þegar um fleiri en eina leið eða margar leiðir er að tefla verður að velja eina leiðina ef eitthvað á að komast áfram. Og þá leið, sem valin er í frv., tel ég sæmilega góða miðað við allar aðstæður.

Ég tel svo ekki ástæðu til að ræða miklu meira um frv„ svo mikið er búið að fjalla um það. Ég tel ekki heldur ástæðu á þessu lokastigi við 2. umr. í hv. Ed. að gera grein fyrir hverri einstakri af þeim brtt. sem fyrir liggja. Ég vil þó segja að ég er andvígur þeim öllum, mundi ekki greiða þeim atkv., nema tveim.

Fyrri brtt. er sú, að frv. taki gildi 1. júlí 1982. Ég óska þess, að þetta frv. fái sem allra fyrst efnislega afgreiðslu hér í hv. Ed. Ég tel að það sé búið að þvælast fyrir því nógu lengi af vissum mönnum. Ég leyfi mér að segja það. Það er þegar búið að tefja þetta um hálft ár því að ætlunin var fyrst að það tæki gildi um s.l. áramót.

Í öðru lagi gæti ég í sjálfu sér verið fylgjandi varatill. hv. 11. þm. Reykv. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Frá upphafi ársins 1983 skal Hæstiréttur skipaður 11 dómurum og skal skipan nýrra dómara vera samkv. 2. gr. laga nr. 24/1979. Nú losnar staða fasts dómara í Hæstarétti eftir þennan tíma og skal þá hvorki skipa né setja dómara í hans stað. Þetta gildir þó aðeins um fjórar fyrstu stöðurnar sem þannig losna.“

Þetta er í sjálfu sér að mínum dómi mjög frumleg till. sem ég hef varla efni á að mæla gegn, því að vissulega er lagt mikið vald í hendur dómsmrh. að skipa þegar í stað fjóra nýja hæstaréttardómara. En ég bið menn þó að velta ýmsu fyrir sér í sambandi við þessa varatill. hv. þm. Í fyrsta lagi: Ímynda menn sér að þessi till. mundi hraða athugun á lögréttufrv. eða ígildi þess? Mundu menn ekki frekar telja að það legðist þá til hliðar, a.m.k. um allmörg ár? Í öðru lagi: Eru menn ekkert ragir við að leggja svo mikið vald í hendur dómsmrh.? Og í þriðja lagi: Vildu hv. þm. hugleiða hvort þetta er ódýr lausn? Ég ætta ekki að segja meira um þessa varatill., sem vissulega er þó athyglisverð.

Ég held að ég hafi svo ekki fleiri orð um þetta frv., en ítreka aðeins óskir mínar þess efnis, að hv. Ed. sjái sér sem allra fyrst fært að afgreiða það frá sér.