03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

1. mál, fjárlög 1982

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm., að rekstur Kröfluvirkjunar er ekki sérgreindur í frv. Ég vil ekkert um það fullyrða að hve miklu leyti Krafla borgar á næsta ári fjármagnsútgjöld sín. Það mun vafalaust verða eitthvað þó að það sé ekki tilgreint. Það hefur enn ekki verið áætlað, en verður kannske gert fyrir 3. umr. frv. Eins og hv. þm. veit vafalaust um er það svo, að B-hluta stofnanir eru yfirleitt teknar til nánari athugunar fyrir 3. umr. í ljósi þess rekstrar sem á þeim hefur verið á liðnu ári. Það gildir um allar B-hluta stofnanirnar, að það eru yfirleitt nokkuð gamlar rekstraráætlanir settar inn í frv. þegar það er lagt fram. Þess vegna er það rétt, að um tekjur af rekstri Kröfluvirkjunar hafa ekki verið settar fram tölur eða áætlanir á næsta ári. Þegar frv. var sett saman lágu ekki fyrir nægilega góðar upplýsingar um það atriði.

Þetta skiptir kannske ekki öllu máli. Það, sem skiptir máli, er að á næstu árum, ég vil ekki endilega segja á næsta ári, en á næstu árum er gert ráð fyrir að tekjur Kröflu af raforkusölu muni fara það vaxandi að hægt sé að gera ráð fyrir að virkjunin borgi þennan kostnað í vaxandi mæli. Við vitum t. d. að Hrauneyjafossvirkjun borgar ekki nema lítinn hluta af fjármagnskostnaði við Hrauneyjafoss á fyrsta ári sínu, vafalaust ekki nema mjög lítinn hluta, og þá verður að velta því áfram með lántökum, eins og ævinlega er gert í slíkum tilvikum. Það er sem sagt tekin ákvörðun um að Krafla eigi á næstu árum að standa á eigin fótum og þess vegna er talið eðlilegt að færa þetta inn í B-hlutann, enda þótt það sé alveg rétt ábending hjá hv. þm. að ekki sé búið að taka inn í B-hlutann nákvæma greinargerð fyrir rekstri virkjunarinnar á næstu árum. Það hefur ekki heldur verið slík grg. í seinustu fjárlagafrv., en ég vænti þess, að hægt verði að ganga frá því atriði áður en frv. verður að lögum.

Varðandi hitt atriðið, fyrirvarann sem enn er þráspurt um, sagði ég ósköp einfaldlega að allir ráðh. hafa að sjálfsögðu fyrirvara um að þeir mundu vilja hafa eitt og annað með öðrum hætti. Einstakir menn hafa líka þann fyrirvara, að þeir áskilji sér rétt til að athugað verði, meðan frv. er til meðferðar á Alþingi, hvort ástæða sé t. d. til að hækka fjárveitingu til þessa liðar eða hins. Ég minnist þess, að allmargir liðir voru þannig afgreiddir í ríkisstj. að menn áskildu sér rétt til að taka málið upp til nánari athugunar meðan frv. væri til meðferðar í fjvn. En ég tel að það sé engin ástæða til þess fyrir mig að fara að gefa hér einhverja skýrslu um þá fyrirvara sem einstakir ráðh. kunna að hafa haft. Ég held að það sé best að viðkomandi ráðh. svari því sjálfir hvaða fyrirvara þeir vilja kannast við og hverja ekki.