29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3303 í B-deild Alþingistíðinda. (2930)

90. mál, Hæstiréttur Íslands

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hv. Ed. Alþingis hefur borist ítarleg álitsgerð frá kennurum í lögfræði við Háskóla Íslands og hópi dómara við æðstu dómstigin hér í höfuðborginni. Þar er því haldið fram með greinargóðum rökum, að að öllum líkindum fell þetta ákvæði í sér brot á stjórnarskránni. Það hefur komið rækilega fram, að hvorki dómsmrn. né nokkur annar aðili hefur treyst sér til að setja fram skriflega greinargerð þar sem rökum þessa hóps lögfræðinga væri hnekkt. Þótt hv. þm. Eiður Guðnason segi að í meðferð nefndarinnar hafi ekki verið fullyrt að hér væri um brot á stjórnarskránni að ræða, þá er það ekki rétt orðalag varðandi það álit sem hér hefur verið sett fram, vegna þess að það hefur falið í sér varkára fullyrðingu fræðimanna í lögfræði um að að öllum líkindum væri hér um brot á stjórnarskránni að ræða. Afstaða mín hefur byggst á því, að þegar Alþingi væri að breyta skipan Hæstaréttar Íslands ætti það að gerast á þann hátt, að enginn vafi, ekki nokkur minnsti vafi væri á því, að sú breyting væri í samræmi við stjórnarskrá lýðveldisins. Ég hefði kosið að fara aðra leið í þessum efnum, og það hefur komið fram í umr. í dag að hæstv. dómsmrh. hefði getað fellt sig við þá leið. Það er því ljóst að hægt er að fara leið sem leysir vanda Hæstaréttar án þess að stjórnarskrárlegri stöðu réttarins sé þar með teflt í hættu. Allir þeir hv. þm., sem hér í dag segja já við þessu ákvæði til bráðabirgða, eru að ljá því atfylgi sitt, að stjórnarskrárlegri stöðu réttarins sé stefnt í hættu. Það er athyglisvert, herra forseti, hverjir taka þátt í þessu nafnakalli og hverjir taka ekki þátt í því og eru fjarverandi við atkvgr. þótt þeir hafi hlýtt á alla umr. málsins. Ég segi nei.