29.03.1982
Efri deild: 61. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3305 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

37. mál, söluskattur

Frsm. minni hl. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði rétt áðan, að þetta mál hefur fengið allgóða meðferð í nefndinni, a.m.k. hefur talsvert mikill tími farið í að ræða við ýmsa aðila um málið og reyna að komast til botns í því, hvernig hugmyndin sé að framkvæma þessa væntanlegu löggjöf.

Þeir, sem voru kallaðir á nefndarfund utan embættismannakerfisins, gerðu ýmist heldur litið úr frv. eða andmæltu því og bentu á marga ágalla og einna dýpst tók í árinni fulltrúi Sambands ísl. samvinnufélaga sem taldi að þarna væru ekki nein nýmæli sem væru til bóta, heldur þvert á móti, en að hinu leytinu væri þetta hálfgert viðrinisfrv., og lagði á það ríka áherslu að bókhaldslög t.d., eins og þau nú eru, væru nægileg og þyrfti ekki sérákvæði um bókhald í söluskattslögin.

Að því er varðaði Kaupmannasamtökin bentu kaupmenn sérstaklega á það, sem þeir hafa raunar gert áður, að þeir ættu rétt á því, a.m.k. siðferðilegan rétt, að fá einhverja greiðslu fyrir þá fyrirhöfn sem þeir hafa af innheimtu söluskatts,. ekki síst ef allt kerfið yrði gert miklu dýrara fyrir þá og flóknara, eins og að er stefnt með þessu frv.

Sá galli er á gjöf Njarðar, að þegar við ræddum við embættismennina fengust eiginlega engar upplýsingar um hvernig fyrirhugað væri að framkvæma þessi væntanlegu lög. Við bentum sérstaklega á 7. gr. frv., þar sem á að binda í lögum að fjmrh. fái mjög miklar heimildir, nánast ótakmarkaðar, til að setja reglugerðir um hvað eina er varðar framkvæmd þessara væntanlegu laga. Er þar um að ræða gífurlega mikið vald sem honum yrði fengið. Ég leyfi mér, herra forseti, að lesa upp síðustu mgr. þeirrar greinar. Hún er svohljóðandi:

„Fjmrh. getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara, þ. á m. reglur um sérstakt bókhald, fylgiskjöl þess og færslu, þar með talið birgðabókhald fyrir alla söluskattsskylda aðila, skráningu í bókhald, á reikninga, strimla, staðgreiðslusölulista og önnur gögn til sönnunar færslum, löggildingu bóka og gagna, færslu þeirra og geymslu.“

Í þessu felst að ráðh. gæti t.d. fyrirskipað svonefnda stimpilkassa, innsiglaða stimpilkassa, sem eru í fyrsta lagi dýrir og yrðu þar að auki sjálfsagt að vera með tvöföldum strimlum, þar sem í sömu verslununum er höndlað bæði með vörur, sem söluskattur er á, og eins aðrar, sem enginn söluskattur er greiddur af, og ætti þá afgreiðslufólkið væntanlega að skilja þar á milli. Þetta yrði auðvitað mjög erfitt í framkvæmd. Það hefur raunar líka verið upplýst af þessum embættismönnum, sem á fund okkar komu, að hvergi á Norðurlöndum a.m.k. væri lögskylda að nota kassa, og því jafnvel haldið fram, að það muni hvergi vera í víðri veröld, þó að söluskattar séu í flestum vestrænum löndum og raunar víst fyrir austan járntjald líka.

Spurt var að því í nefndinni, hvernig fara skyldi með í sjoppum, sem kallaðar eru, ef maður keypti þar einn sígarettupakka og eina karamellu, því að söluskattur er innreiknaður í tóbaksverð, eins og kunnugt er, en hins vegar ekki af karamellunni. Þá hefði væntanlega, ef þar hefði verið stimpilkassi, átt að stimpla karamelluna inn sérstaklega og sígarettupakkann eða eina sígarettu sérstaklega. Þetta er auðvitað nánast óframkvæmanlegt.

Þá var að því vikið, að líka væri hugsanlegt að hafa löggiltar bækur í minni fyrirtækjum og að afgreiðslumaður ætti að skrifa hverju sinni inn afgreiðslu á vöru í þessar bækur og það ætti að vera eitthvert öryggi fyrir því; að um réttar söluskattsgreiðslur yrði að ræða. Í fyrsta lagi hygg ég að það mundi enginn, sem væri að versla þar, taka sérstaklega eftir því, hvað maðurinn skrifaði inn í þessa bók eða í hvaða dálk hann skrifaði. En hitt er kannske verra, að svona ákvæði mundu áreiðanlega fremur verka til þess, að þvermóðska og kannske jafnvel löngun til að snuða ríkið, e.t.v. meiri en ella, mundi fæðast hjá ýmsum mönnum a.m.k. því að ekki eru allir svo skapgóðir að þeir mundu una slíkum hætti í viðskiptum.

Það er rétt, sem frsm. meiri hl. sagði, að ef við hefðum hér virðisaukaskatt yrði þetta allt saman auðveldara viðureignar og vafalaust mundi hann innheimtast betur en söluskatturinn. Ég er ekki í nokkrum vafa um það og við sem skilum minnihlutaáliti, að undanskot er að því er söluskatt varðar þegar hann er orðinn svo gífurlega hár sem raun ber vitni, því að freistingin er þá mikil. Eftir því sem við komumst næst í viðræðum við ýmsa þá sem til nefndarinnar komu er þetta einna hættulegast í litlum fyrirtækjum, ýmiss konar þjónustufyrirtækjum t.d., en í stærri fyrirtækjum virðist okkur ekki um mikla hættu að ræða, nema helst það, sem hér á að setja betur undir lekann en áður, að menn færi eitthvað milli mánaða söluskattsgreiðslurnar. Þar er líka veruleg freisting, sérstaklega í lánsviðskiptum, því að mönnum finnst það ekki ósanngjarnt, þegar þeir fá ekki vöruna greidda fyrr en einum eða tveimur mánuðum eftir afhendingu, að þeir greiði ekki heldur söluskattinn fyrr en þeir fá fjármagnið í hendur. Vissulega má segja að það væri sanngjörn regla, sérstaklega þegar vextir eru jafngífurlega háir og nú er og fjárskortur mikill.

En okkur skilst að það sé ákvörðun hæstv. ríkisstj. að keyra þetta mál í gegn. Ég hef fyrir mitt leyti aðvarað hv. formann fjh.- og viðskn. um það og reynt að leiðbeina honum og þeim stjórnarsinnum, eins og oft áður, að gera nú ekki neitt það sem kynni að torvelda mönnum að standa í störfum sínum. En ég er hræddur um að á það verði litið sem æðimikla ofstjórnartilburði ef farið er inn á aðra hvora þá leið sem embættismennirnir nefndu; annaðhvort þennan stimpilkassa, þar sem þeir eru mjög dýr verkfæri og erfitt með þá að fara, eins og ég sagði áðan, þar sem bæði er um að ræða söluskattsskyldar vörur og vörur án söluskatts í sömu fyrirtækjunum, eða þessar löggiltu bækur sem ætti að skrifa inn í hvert tangur og tetur sem afgreiða þyrfti. Mér finnst nærri því að þegar svo væri komið yrði að greiða mönnum fyrir þá miklu vinnu sem af þessu skapast.

Þeir bentu á það í Kaupmannasamtökunum, að það getur verið eðlilegt að reyna að hafa áhrif á það, jafnvel lögbinda, að nótur, sem kæmu frá heildsölum eða innflytjendum, væru t.d. í tveimur litum þannig að menn sæju strax hvaða vörur það væru, sem ætti að greiða af söluskatt, og hverjar ekki. Þetta er allt saman í belg og byðu núna og veldur verulegum vandkvæðum við að skilja í sundur veltu fyrirtækjanna. Það væri miklu frekar ástæða til að reyna að greiða fyrir mönnum með einhverjum slíkum hætti en fara að þyngja refsingar og skapa bæði gífurleg óþægindi og mikinn kostnað. Að vísu minnist ég þess, að hæstv. fjmrh. sagði úr þessum ræðustól þegar hann fylgdi máli þessu úr hlaði, að til greina gæti komið að ríkissjóður lánaði mönnum andvirði þessara kassa einhvern tíma eða hluta þess andvirðis ef þeir verða teknir upp. En ég hygg að með hliðs jón af því, að hvergi í veröldinni mun hafa verið tekið upp þetta kerfi — áreiðanlega vegna þess að menn hafa óttast erfiðleika í framkvæmdinni — þá sé ráðlegt fyrir hæstv. ríkisstj. að fara sér hægt í því að gera eitthvað það sem mundi valda megnri óánægju hjá þeim mönnum sem framkvæma eiga þetta mál og eiga að innheimta skattinn. Þeir mundu beinlínis af þeim sökum kannske reyna að skjóta undan meira en þeir ella hefðu gert, ef þeim fyndist ríkisvaldið koma fram við þá af sanngirni og skilningi.