29.03.1982
Neðri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (2937)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hefur gert Alþingi grein fyrir nokkrum þáttum varðandi það frv. til lánsfjárlaga, sem hér liggur fyrir, og eyddi mestum tíma sínum í að ræða um erlendar lántökur. Það er mjög skiljanlegt að hæstv. ráðh. eyði tíma í að reyna að skýra út fyrir hv. Alþingi og þjóðinni þá miklu aukningu sem orðið hefur á erlendum lántökum undir stjórn hans. Það verður hins vegar að segjast eins og er, að þrátt fyrir þær skýringar, sem hann hefur hér flutt, er það mjög gagnrýnivert hver þróunin hefur orðið í þeim efnum og hvert enn stefnir varðandi erlendar lántökur undir stjórn hæstv. ríkisstj.

Hæstv. fjmrh. vildi sérstaklega gera að umtalsefni hlut stjórnarandstöðunnar í þessu máli og taldi að það vantaði tillögur frá henni, bæði um niðurskurð framkvæmda og aukinn innlendan sparnað, en þetta hvort tveggja væri grundvallaratriði þegar og ef meta þyrfti þörf á erlendum lántökum. Þetta eru mjög ódýrar áróðursaðferðir sem hæstv. fjmrh. hefur uppi þegar hann lýsir eftir slíku frá stjórnarandstöðunni.

Grundvallaratriðið í þessum efnum, sem stjórnarandstaðan hefur að sjálfsögðu margoft haldið fram og flutt um tillögur, er stefna núv. hæstv. ríkisstj., í efnahags- og fjármálum. Ég skal koma nánar að því á eftir, en við sjáum mörg dæmi um það í því frv. til lánsfjárlaga sem hér liggur fyrir, að auknar erlendar lántökur eiga sér stað vegna efnahagsstefnu ríkisstj. hvernig öllu atvinnulífi hér á landi er haldið í kreppu þannig að taka þarf sérstök erlend lán, sérstök erlend kreppulán til þess að greiða fyrirtækjum sem vegna stefnu ríkisstj. hafa verið rekin með stórkostlegu tapi á s.l. ári.

Það er líka ódýrt hjá hæstv. fjmrh. að auglýsa eftir tillögum um aukinn innlendan sparnað af hálfu stjórnarandstöðunnar. Hér er á ferðinni fjmrh. sem hefur gengið lengra en nokkur annar, sem þetta embætti hefur setið áður, í skattheimtu bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Okkar hugmyndir og tillögur hafa m.a. verið þær að létta af sköttum, að draga úr skattheimtu hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum, til þess m.a. að hægt sé að örva innlendan sparnað sem nýta megi til ýmislegra gagnlegra framkvæmda. En hæstv. fjmrh. sér greinilega ekki samhengið þarna á milli því að hann kemur hér fram hvað eftir annað með nýjar tillögur um stóraukna skatta í einu eða öðru formi.

Sannleikurinn er sá, að hvað sem hæstv. fjmrh. segir um þetta efni, þá eru erlendar lántökur nú eitt mesta áhyggjuefni í íslensku efnahagslífi. Hæstv. ríkisstj. hefur algjörlega brugðist í stjórn þessa mikilvæga þáttar í íslenskum efnahagsmálum, því að þrátt fyrir stóraukna skattheimtu, eins og ég sagði áðan, eykst fjárvöntunin stöðugt og þessi fjárvöntun er brúuð með auknum erlendum lántökum.

Hæstv. fjmrh. dreifði hér frá Seðlabanka Íslands yfirliti um stöðu erlendra lána í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Þetta er reiknað út á tvennan hátt: Annars vegar með því að taka löngu erlendu lánin eingöngu og reikna þau sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Hins vegar er það sem kallað er nettóstaða erlendra lána. Þá eru tekin bæði stutt vörukaupalán svo og það sem ógreitt er af útflutningi og gjaldeyriseignin eins og hún er á hverjum tíma.

Auðvitað fást mismunandi tölur eftir því hvor aðferðin er notuð. Þó er alveg sama hvor aðferðin er notuð í þessu efni, það sést mjög glögglega í báðum þessum þáttum hver tilhneigingin er undir stjórn núv. hæstv. fjmrh.

Ef við tökum árið 1979 og tökum löngu erlendu lánin eingöngu, þá voru þau 34.4% af þjóðarframleiðslu það ár, árið 1980 34.7%, 1981 37.2%, en sú tala er áætluð. En árið 1982, sem hæstv. fjmrh. sleppti í ræðu sinni áðan, er áætlað að þetta hlutfall muni fara upp í 39% af þjóðarframleiðslu. Við sjáum á því hversu hér er um gífurlega hækkun að ræða undir stjórn hæstv. fjmrh.

Ef við tökum hina reikningsaðferðina, það sem kallað er nettóstaða á þessu greiðslujafnaðaryfirliti, kemur í ljós að 1979 var nettóstaðan 32%, 1980 31.8%, 1981 31.8%. Hér er þó um bráðabirgðatölur að ræða — það er rétt að hafa í huga — sem geta breyst. Og sannast sagna er sú tala, sem ég hef fengið frá Seðlabankanum fyrir árið 1981, hærri en þarna er gefið upp, en ég skal ekki um það segja. En síðan er áætlað, sem hæstv. fjmrh. nefndi ekki í sinni ræðu áðan, að þessi nettóstaða muni fara upp í 34.9% á árinu 1982. Það er því alveg sama hvora reikningsaðferðina við notum, við sjáum að tilhneigingin er mjög ört upp á við í báðum tilvikum. Og sannast sagna er hér stefnt í hættuástand að því er snertir erlendar lántökur fyrir íslenskt þjóðarbú.

Það er alveg rétt hjá hæstv. fjmrh. að við Íslendingar njótum trausts á erlendum lánamörkuðum. Hingað liggja leiðir margra erlendra bankamanna, sem bjóða lán á hagstæðum kjörum, og það er vissulega freisting fyrir stjórnmálamenn, sem eyða meira en þeir afla, að kasta sér í fang hinna erlendu bankamanna til þess að láta þá sjá um þann vanda sem að steðjar hverju sinni. En við skulum hafa það í huga líka, og hæstv. fjmrh. ýjaði að því í ræðu sinni áðan, að það getur fljótt skipast veður í lofti í þessum efnum, bæði ef eitthvað bjátar á varðandi framleiðslu þjóðarbúsins, varðandi almenna stöðu okkar efnahagsmála svo og geta erlendar lántökur farið yfir ákveðin mörk þannig að okkar staða á erlendum lánamörkuðum verði mun verri en hún hefur verið. Hæstv. fjmrh. nefndi einmitt dæmi frá Danmörku í því sambandi. En það væri illt verk og óafsakanlegt ef núv. hæstv. ríkisstj. héldi þannig á okkar málum að lánstraust 'okkar rýrnaði. Við Íslendingar þurfum á lánsfé að halda á næstu árum til margra arðbærra framkvæmda. Við eigum eftir að virkja mikið, bæði vatnsföll og jarðhita, og við eigum eftir að byggja og reisa atvinnufyrirtæki í tengslum við okkar raforkuver. Til slíkra framkvæmda þurfum við erlent lánsfé og það er vel réttlætanlegt að taka erlent lánsfé í því skyni. En að taka lán til daglegrar neyslu og eyðslu, það hlýtur þegar til lengdar lætur að rýra okkar lánstraust.

Hæstv. fjmrh. gat þess áðan, að stór hluti af okkar erlendu lánum færi í orkuframkvæmdir. Það er rétt, þannig hefur það verið um allmörg undanfarin ár. En á þessu ári eru orkuframkvæmdir að dragast mjög verulega saman. Og þrátt fyrir það að orkuframkvæmdir dragist saman stórhækka erlendar lántökur á því ári sem nú er að líða. Samkv. þeim upplýsingum, sem fram koma í fjárfestingar- og lánsfjáráætlun sem hæstv. fjmrh. ber ábyrgð á og við þm. fengum í hendur, er gert ráð fyrir að raforkuframkvæmdir muni á þessu ári dragast saman um 8.5%, aðallega vegna þess að Hrauneyjafossvirkjun er að ljúka og ekki hafin vinna við neina virkjun í hennar stað. Gert er ráð fyrir að hitaveituframkvæmdir dragist saman um 32% vegna þess að lokið er framkvæmdum að mestu við Hitaveitu Suðurnesja, Hitaveitu Borgarfjarðar og Hitaveitu Akureyrar. Hér er um mikinn samdrátt að ræða í þessum mikilvæga framkvæmdaflokki sem hefur notið erlendra lána að mestu leyti undanfarin ár. Þegar svo mikill samdráttur verður sem raun ber vitni hefði átt að vera hægt, ef vel hefði verið að málum staðið, að draga saman erlendar lántökur að sama skapi.

Sannleikurinn er sá, að það er allt of mikið um það í þeirri lánsfjáráætlun, sem hér liggur fyrir, og í þeim upplýsingum, sem við höfum undir höndum um lántökur á árinu 1981, að um hrein eyðslulán sé að ræða, lán sem ekki skila sér aftur í arðbærum framkvæmdum. Ég skal nefna nokkur dæmi um það.

Í fyrsta lagi á Sementsverksmiðja ríkisins að taka lán vegna taprekstrar á árinu 1981. Hæstv. fjmrh. gat reyndar um það sjálfur í ræðu sinni, en vildi gera lítið úr því og taldi að það væri ekki stórt lán í samanburði við önnur þau lán sem hér er verið að tala um. Vel kann það að vera. En það er þó ljóst að það er vegna vísvitandi taprekstrar, það er vegna stefnu hæstv. ríkisstj. í verðlagsmálum sem Sementsverksmiðja ríkisins neyðist nú til að taka erlent lán til að greiða niður halla vegna ársins 1981.

Í öðru lagi skulum við taka fyrirtækið Siglósíld. Þar var einnig um að ræða taprekstur og er gert ráð fyrir að fyrirtækið taki erlent lán til að fjármagna þann taprekstur. Ekki er þar vel að málum staðið.

Í þriðja lagi — og hæstv. fjmrh. gat reyndar um það líka — eru byggðalínur enn að fullu fjármagnaðar með erlendu lánsfé og ríkið tekur á hverju ári ný erlend lán til að greiða afborganir og vexti af þeim lánum sem fyrir voru, þannig að lán vegna byggðalínanna velta stöðugt upp á sig. Nú eru byggðalínur búnar að vera í notkun í nokkuð mörg ár svo að hér er auðvitað um hrein eyðslulán að ræða. Hér er ekki lengur um lán að ræða sem ætluð eru til arðbærra framkvæmda, eins og hugsanlega mátti halda fram þegar þessi lán voru upphaflega tekin til að reisa þessar byggðalínur.

Í fjórða lagi gætum við líka nefnt Kröfluvirkjun. Kröfluvirkjun var byggð eingöngu fyrir erlent lánsfé. Ekkert hefur verið greitt niður af þeim lánum með sérstökum framlögum úr ríkissjóði eða annars staðar frá, heldur eru stöðugt tekin ný lán fyrir afborgunum og vöxtum. Talið er að lánsfjárþörfin vegna fjármagnskostnaðarins eins sé á þessu ári 71.5 millj. kr. Þessi lán velta stöðugt upp á sig, aukast frá ári til árs vegna þess að engin tilraun er gerð til að taka á þessum málum.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir því í frv. til lánsfjárlaga, að Framkvæmdasjóður Íslands annist erlenda lántöku að fjárhæð 20 millj. kr. fyrir Framleiðsluráð landbúnaðarins til greiðslu útflutningsuppbóta landbúnaðarafurða vegna verðlagsársins 1980–1981. Ekki er hér um að ræða arðbæra framkvæmd sem líklegt er að skili arði svo að þjóðarbúið sé betur í stakk búið til að greiða niður þessar erlendu lántökur.

Ég skal í sjötta lagi nefna enn eitt dæmi sem fram kom í umr. hér á Alþingi ekki alls fyrir löngu þegar viðskrh. upplýsti að á haustmánuðum hefðu verið gefnar tvær heimildir til erlendrar lántöku vegna sölu á fiskiskipum milli staða hér innanlands. Hann upplýsti að Hraðfrystihús Patreksfjarðar hefði fengið erlent lán vegna kaupa á togskipinu Sigurey frá Siglufirði. Hæstv. viðskrh. upplýsti líka að Glettingi hf. í Þorlákshöfn hefði verið heimiluð erlend lántaka að upphæð 2.5 millj. dkr. vegna kaupa á ms. Ísleifi frá Vestmannaeyjum. Auðvitað er hér um að ræða hrein eyðslulán. Meðan verið er að selja verðmæti milli staða innanlands er kaupendum heimilað að taka erlend lán til að standa undir sínum hluta af kaupverðinu. Hér eru engin ný verðmæti að myndast, heldur um hrein eyðslulán að ræða.

Í sjöunda lagi, svo að ég nefni enn eitt dæmi, fær Byggðasjóður verulega hækkaða lánsheimild til þess að taka lán og endurlána síðan ýmsum fyrirtækjum, aðallega í sjávarútvegi, sem hafa verið rekin með tapi á s.l. ári. Þessi lán eru í daglegu tali okkar á milli nefnd kreppulán. Auðvitað er hér um hrein eyðslulán að ræða. Hér er verið að heimila erlendar lántökur til þess að greiða niður taprekstur sem m.a. stafar af þeirri stefnu sem hæstv. ríkisstj. hélt uppi í efnahagsmálum á s.l. ári. Þessi upphæð gæti raunverulega orðið nokkru hærri en rætt er um í þessari lánsfjáráætlun eftir þeim upplýsingum sem við þm. höfum fengið.

Það er hægt að nefna enn fleiri dæmi um slík eyðslulán.

Ýmis opinber fyrirtæki ríkis og sveitarfélaga þurfa að taka mun hærri lán en ella hefði verið vegna stefnunnar í verðlagsmálum. Ég nefni t.d. bæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur. Þessi fyrirtæki eru raunverulega knúin til þess að fara út í erlendar lántökur vegna þess að þau hafa ekki fengið að haga ákvörðunum í verðlagsmálum í samræmi við sínar þarfir. Þá er þeim gefin ávísun á erlend lán í stórum stíl sem auðvitað eru hrein eyðslulán. Sama má segja um Landsvirkjun. Landsvirkjun tekur mun hærri erlend lán á þessu ári og síðasta ári en nauðsynlegt hefði verið ef fylgt hefði verið eftir þeirri stefnu sem fyrirtækið sjálft vildi hafa í sínum verðlagsmálum. Þegar farið er að taka erlend lán í hreinan rekstrarhalla er að sjálfsögðu augljóst að hér er um hrein eyðslulán að ræða.

Ég hef hér nefnt allmörg dæmi um það hvernig brugðið er út af þeirri stefnu, sem sjálfsögð er, að erlend lán séu fyrst og fremst tekin til þess að standa undir arðbærum framkvæmdum svo að þjóðarbúið sé betur undir það búið eftir en áður að greiða af slíkum lánum þegar þau koma til afborgunar. Frá þessari stefnu er nú brugðið í ríkara mæli en nokkru sinni fyrr og erlend lán tekin til margs konar eyðslu sem óþarfi væri ef eðlilegri stefnu hefði verið haldið uppi í efnahags- og fjármálum þjóðarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar og vil ítreka það sem ég sagði áðan, að þróunin í hinum erlendu lántökum er mikið áhyggjuefni. Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að koma hér upp og reyna að draga úr áhyggjum manna út af því. Við höfum þegar hlýtt á aðvörunarorð ýmissa manna sem fara með stjórn ýmissa fjármálastofnana. Ég nefni t.d. formann bankaráðs Seðlabankans sem ítrekað hefur í greinum í Fjármálatíðindum varað við þeirri stefnu að fara í of ríkum mæli út á braut erlendra lántaka eins og við erum að gera. Þess vegna er að mínu mati þessi stefna um erlendar lántökur einhver sú allra varhugaverðasta og hættulegasta sem núv. ríkisstj. heldur uppi og er þó af nógu að taka varðandi stjórn hennar á efnahagsmálum.