29.03.1982
Neðri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3323 í B-deild Alþingistíðinda. (2940)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Mér finnst furðulegt það háttalag hæstv. fjmrh. að ryðjast inn í umr., þegar nokkrir þm. eru á mælendaskrá, eftir að hafa flutt hér þriggja kortera ræðu áðan, — mér finnst það ósmekklegt af hæstv. ráðh. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem hann gerir þetta. Þetta er a.m.k. í annað eða þriðja skipti sem hann finnur hvöt hjá sér til að gera þetta með þessum hætti líklega vegna þess að hann finnur hvað hann stendur höllum fæti í málflutningnum. Ég taldi ástæðu til að gera athugasemd við þetta og vænti þess, að það séu ekki fleiri hv. þm. því marki brenndir, eins og hæstv. fjmrh., að haga sér með þessum hætti.