29.03.1982
Neðri deild: 59. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3324 í B-deild Alþingistíðinda. (2942)

55. mál, lánsfjárlög 1982

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég sé ástæðu til að drepa nokkuð á þrjá málaþætti sem hæstv. fjmrh. taldi sig gera grein fyrir í ræðu sinni við upphaf 3. umr. um lánsfjár- og fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Fyrsti málaþátturinn er varðandi erlenda skuldasöfnun, annar málaþátturinn er varðandi afkomu ríkissjóðs og þriðji málaþátturinn eru fá orð varðandi þær efnahagsráðstafanir eða svokallaðar sparnaðartillögur sem hæstv. fjmrh. taldi sig hafa gert grein fyrir.

Um erlenda skuldasöfnun hefur mikið verið rætt og ekki að ófyrirsynju, svo ört sem þær vaxa og einkum svo þung sem greiðslubyrði vaxta og afborgana erlendra lána er í hlutfalli af gjaldeyristekjum okkar á yfirstandandi ári. En hæstv. fjmrh. vildi gera lítið úr þessu öllu og sló sér á brjóst og sagði: Verðgildi íslensku krónunnar minnkar meira en erlendar lántökur vaxa. Það var sem sagt verið að afsaka eina vitleysuna, sem hæstv. ríkisstj. er sek um, með annarri engu minni. Það á að afsaka vöxt erlendra lána með því að verðgildi íslensku krónunnar hafi minnkað meira. Verðbólgan er sem sagt skálkaskjól ríkisstj. einnig að því er varðar vöxt erlendra lána.

Nú er það svo, að ein skýringin á vexti erlendra skulda er auðvitað að ríkisstj. er að fela raunverulegan verðbólguvöxt hér innanlands. Hv. 6. þm. Reykv., Birgir Ísl. Gunnarsson, gat um nokkur dæmi þessa. Það er t.d. alveg ljóst að neitun ríkisstj. á réttmætum og nauðsynlegum gjaldskrárhækkunum Landsvirkjunar, hitaveitu, rafmagnsveitna, Pósts og síma, Sementsverksmiðju — allar þessar synjanir á verðhækkunum þjónustu eða framleiðslu þessara fyrirtæk ja eru til þess gerðar að leyna fyrir landsmönum hver verðbólguvöxturinn er í raun, og þá er flúið á náðir erlendra lána og tekin erlend lán til að standa undir taprekstri eða nauðsynlegum útgjöldum þessara fyrirtækja. Hv. 6. þm. Reykv. greindi mjög skilmerkilega frá þessu.

En það er ekki eingöngu að þessi fyrirtæki verði að taka erlend lán fyrir þeim útgjöldum sem þau hingað til hafa staðið undir með tekjum af sölu þjónustu sinnar og framleiðslu, heldur er alveg horfið frá þeirri stefnu sem fylgt var í orkumálum varðandi orkuframkvæmdir fyrr á árum, þ.e. að orkuöflunarfyrirtæki eins og Landsvirkjun átti helst að geta fjármagnað nýjar virkjanir að 1/4 til 1/3 með eigin fjármagni. Nú er því þannig háttað, að Landsvirkjun verður að taka erlend lán fyrir öllum stofnkostnaði nýrra virkjunarmannvirkja og auk þess verður Landsvirkjun að taka viðbótarlán fyrir greiðsluhalla þar sem er um að ræða raunverulegan taprekstur vegna synjana á gjaldskrárhækkunum. Hitaveita Reykjavíkur hefur nær sömu sögu að segja. Gagnstætt því, sem áður var um dreifingarkerfi raforku á þéttbýlissvæðum, að þau fyrirtæki ættu að standa undir fjárfestingarkostnaði ef ekki var um óvenjulegan kostnað að ræða sem eingöngu kæmi fyrir á tiltölulega löngu árabili, þá áttu þessi fyrirtæki að standa undir þessum fjárfestingarkostnaði, en þeim er nú ætlað að taka erlent lán fyrir þessum kostnaði eða fresta framkvæmdum og eiga þá á hættu að þjónustunni við almenning verði í hættu stefnt.

Við Reykvíkingar fengum aðeins aðvörun nú í vetur í kuldakastinu í janúarmánuði hvað hitaveituna snertir þegar byrjað var að kynda upp varastöð hitaveitunnar með olíu, innfluttum orkugjafa, í stað þess að það hefði verið óþarfi hefði fyrirhyggju þeirrar verið gætt er forráðamenn hitaveitunnar kröfðust af hæstv. ríkisstj., en ríkisstj. skellti skollaeyrum við. Þá fóru um 80% á dagstekjum Hitaveitunnar í að hita upp með olíu, og má af því marka að fjárhag þess orkufyrirtækis hefði fljótt verið stefnt í voða ef slík stefna hefði verið og væri við lýði og kuldakastið hefði verið langvarandi.

Það er þess vegna ljóst að hæstv. ríkisstj. hefur í raun reynt að leyna menn raunverulegri verðbólgu í landinu með því að leita á náðir erlendra lána og stofna til greiðslubyrða vaxta og afborgana sem eru að verða óbærilegar.

Þá hefur enn fremur komið fram að fjármagnskostnaður byggðalínanna, vextir og afborganir, er fjármagnaður með nýjum erlendum lánum, að ekki sé minnst á fjármagnskostnað Kröflu.

Í þriðja lagi má svo undirstrika það, sem einnig kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv., að lán eru tekin í erlendum gjaldeyri til að greiða útflutningsuppbætur vegna útflutnings íslenskra landbúnaðarvara. Það er sem sagt ekki eingöngu verið að flytja út íslenskar landbúnaðarvörur langt undir framleiðslu- og kostnaðarverði, heldur eru einnig tekin erlend lán til að greiða bændum mismuninn á útflutningsverði og framleiðslukostnaðarverði.

Í fjórða lagi nefndi þm. erlend lán vegna fiskiskipakaupa hér innanlands milli staða, en því til viðbótar má og nefna að þau erlendu lán, sem tekin eru vegna kaupa á fiskiskipum erlendis frá, eru auðvitað að hluta til eyðslulán þar sem fiskiskipastólinn er þegar svo stór sem raun ber vitni og ekki þörf á stærri flota til að ná sama aflamagni á land nema síður sé þar sem fiskveiðibann ríkir marga daga ársins, eins og á þorskveiðum.

Í fimmta lagi hefur svo verið nefnt að Byggðasjóði er vísað á erlend lán til að standa undir lánveitingum til framleiðslufyrirtækja innanlands, sem rekin eru með tapi, til að greiða tap þessara innlendu framleiðslufyrirtækja. Í þessu felst fyrst og fremst gagnrýni okkar stjórnarandstæðinga, en ekki í hinu, að ekki séu tekin enn meiri erlend lán til að fjármagna framkvæmdir. Við höfum engar tillögur um það flutt og gagnrýni okkar hefur alls ekki beinst að því, að nauðsynlegt sé að taka fleiri og hærri erlend lán til að auka framkvæmdir innanlands.

En það var eftirtektarvert, bæði í málflutningi hæstv. fjmrh. og raunar í þeirri skýrslu sem hann lét dreifa um stöðu þjóðarbúsins út á við, að þar var farið fljótt yfir sögu að því er greiðslubyrði erlendra lána varðar. Í skýrslu Seðlabanka Íslands um stöðu þjóðarbúsins út á við er alls ekki nefnt einu orði hver greiðslubyrðin er. Það vantar algerlega þann dálk í þá yfirlitsskýrslu. Hér hefur komið fram að þessi greiðslubyrði verður 19–20% af gjaldeyristekjum á yfirstandandi ári, þ.e. að fimmta hver króna, sem við vinnum okkur inn í erlendum gjaldeyri, fer í að borga afborganir og vexti af erlendum lánum.

Ég skal út af fyrir sig ekki gagnrýna að þessi skýrsla Seðlabanka Íslands og hæstv. fjmrh. miðast við svokallaða nettóstöðu við útlönd, þótt við höfum yfirleitt látið okkur fyrst og fremst nægja að fylgjast með löngum erlendum lánum í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Ef við lítum á þann dálk fer staðan ört versnandi. Varðandi nettóstöðu við útlönd, þar sem stutt vörukaupalán, ógreiddur útflutningur og gjaldeyrisstaða eru tekin með í reikninginn, voru þær tölur, sem gefnar voru upp, að því er mér hefur verið tjáð í fjh.- og viðskn., nokkru hærri þó í þær væru miðaðar við 15. mars s.l., en nýrri tölurnar við 26. mars s.l. En þessar tölur voru að því er varðar árið 1981, sem er bráðabirgðatala, 33.7% í stað þess að hér segir í framlagðri skýrslu 31.8% og á yfirstandandi ári 34.9%. Ég vildi þess vegna að þessu gefna tilefni fá fram skýringu á því frá hæstv. fjmrh. annaðhvort nú eða síðar, eftir að hann hefur aflað gagna um það hjá Seðlabankanum, hvað ber á milli þeirra talna, sem gefnar voru upp 15. mars s.l. og nú standa með dagsetningunni 26. mars. Hér getur verið um það að ræða að einstök lán eða birgðir séu flutt á milli ára, og má af því marka að nettóstaðan er mun óábyggilegri en sú staða sem byggist á löngum erlendum lánum þó ég sé mjög fylgjandi því, að þm. hafi hvort tveggja fyrir framan sig og geri sér grein fyrir heildarmynd að þessu leyti.

Hæstv. fjmrh. vildi afsaka hækkandi greiðslubyrði afborgana og vaxta af erlendum lánum með því að mikil verðbólga hefði verið erlendis og vextir hækkað. Ég held að hækkandi vextir geti að vissu leyti verið skýring þarna, en þó eru háir vextir ekki algert nýmæli erlendis. Hins vegar held ég ekki að vaxandi verðbólga erlendis sé hér skýring vegna þess að verðbólgan hefur þó heldur farið minnkandi í þeim löndum þar sem við skuldum, eins og í Bandaríkjunum. Þar kemur auðvitað sem skýring, að dollarinn hefur hækkað í verði miðað við íslensku krónuna, og enn fremur kemur sú skýring, sem er e.t.v. sú uggvænlegasta, að útlit er fyrir að úr þjóðarframleiðslu og þjóðartekjum okkar dragi og þá mun þessi greiðslubyrði hækka óðfluga.

Það er e.t.v. ástæða til þess að við Íslendingar gerum okkur grein fyrir því, þegar löng erlend lán eru 39% í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, að þessi tala mun ekki vera nema u.þ.b. 25% í Danmörku og gera menn sér þar þó mjög miklar áhyggjur af erlendri skuldaaukningu. Hins vegar er þessi tala í Póllandi komin nálægt 100%, að því er ég þykist hafa lesið eða heyrt einhvers staðar, en hins vegar er skuld miðað við hvern íbúa Póllands lægri en skuld hvers íbúa hér á landi er í erlendum lánum. Það, sem bjargar okkur, er að þjóðarframleiðsla miðað við hvern mann hér á landi er hærri og þess vegna er greiðsluþol okkar meira. En vel getum við staðíð í þeim sporum að þessi tala fari að nálgast meir en helming framleiðslu og þá er voðinn vís.

Hæstv. fjmrh. sagði, að eina ráðið til að draga úr erlendum lántökum væri að auka innlendan sparnað, og nefndi þá að stjórnarandstaðan væri andvíg því að lífeyrissjóðirnir stæðu undir lánveitingum til þeirra þarfa sem lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir nauðsyn erlendra lána til. Ég vil segja það mjög skýrt og skilmerkilega, að auðvitað viljum við auka innlendan sparnað, en við aukum ekki innlendan sparnað með því að vísa á lífeyrissjóðina í landinu. Við aukum aðeins innlendan sparnað með því að gera það aðlaðandi fyrir landsmenn að geyma fé sitt. Það er ekki aðlaðandi fyrir landsmenn að geyma fé sitt nema þeir geti gengið út frá því, að það sé jafnverðmætt þegar sparnaðartímanum lýkur og þegar sparnaðurinn hefst, að þeir geti gert sér vonir um og verið vissir um að eiga a.m.k. jafnmikið þegar þeir þurfa á peningum að haldá og þegar þeir lögðu þá til hliðar. Lífeyrissjóðirnir byggja fjármagnsöflun sína á skyldusparnaði og þar er ekki um frjálsan sparnað að ræða. Þar greinir okkur hæstv. fjmrh. ekki á um að rétt sé að lífeyrissjóðirnir ávaxti fjármagn sitt með þeim hætti að fjármagn þeirra standi undir þeim skuldbindingum að sjá félagsmönnum fyrir lífeyri þegar aldur færist yfir þá. Ég held að hæstv. fjmrh. hafi sannfærst um að það væri nauðsynlegt að lífeyrissjóðirnir verðtryggðu fjármagn sitt í útlánum. Að þessu leyti hefur hæstv. fjmrh. horfið frá lágvöxtunarstefnu fjármagns, þar sem hann var lágvaxtamaður í eina tíð. Það, sem okkur greinir á um að þessu leyti, er að hæstv. fjmrh. vill skylda lífeyrissjóðina til að lána til hins opinbera og til ákveðinna sjóða hins opinbera, en við sjálfstæðismenn viljum takmarka þessa skyldu lífeyrissjóða við að ávaxta fjármagn sitt með verðtryggðum hætti. Raunar var sú krafa, er við gerðum í þeim efnum í þeirri ríkisstjórn er ég veitti forustu, eingöngu að a.m.k. 40% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna væru ávöxtuð með verðtryggðum hætti. Ég held þess vegna að það sé nauðsynlegt að hæstv. fjmrh. geri sér grein fyrir því, að hann eykur ekki innlendan sparnað með núverandi stefnu ríkisstj.

Það hefur verið bent á, að innlendur sparnaður hafi aukist á s.l. ári, og bent á upplýsingar bankanna þar að lútandi. En ég hygg að ef frjáls sparnaður er tekinn í heild sé vafasamt að um nokkra aukningu sé að ræða. Og víst er um það, að sú aukning hverfur eins og dögg fyrir sólu ef svo heldur fram sem horfir varðandi efnahagsstefnu hæstv. ríkisstj. Upplýsingar, sem ég hef aflað mér varðandi þróun yfirstandandi árs, benda því miður til þess, að tekið sé að halla undan fæti varðandi sparnað í landinu á þessu ári.

Varðandi annan þáttinn sem minnst var á, stöðu ríkissjóðs og yfirlit það sem hæstv. ráðh. gaf, þá vil ég spyrjast fyrir um hvenær hæstv. ráðh. ætlar að gefa Alþingi skýrslu um afkomu ríkissjóðs, sem mig minnir að fjmrh. geri gjarnan einmitt fyrir lok marsmánaðar, eða svo var áður gert a.m.k. Ég tel að þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf nú, geti alls ekki komið í stað þeirrar skýrslu vegna þess að upplýsingar hæstv. fjmrh. voru mjög yfirborðslegar.

Hann hrósaði sér af 72 millj. kr. greiðsluafgangi þegar fjárlög hefðu aðeins gert ráð fyrir 27.7 millj. kr. greiðsluafgangi, ef ég tók rétt eftir. Ég held að þetta sé ekki hrósvert þegar við tökum með í reikninginn að ríkissjóður hefur vikið af borði sínu ýmsum útgjöldum, bæði eigin útgjöldum og annarra sjóða sem ríkissjóður ber ábyrgð á, eins og t.d. Byggðasjóðs og Byggingarsjóðs ríkisins, en hvorir tveggja þessir sjóðir voru með bráðabirgðalán hjá Seðlabankanum svo milljónatugum skiptir um síðustu áramót. Það er þess vegna ekkert að marka þótt skuld ríkissjóðs sjálfs við Seðlabankann lækki þegar slík skuldasöfnun á sér stað samhliða.

Sannleikurinn er sá, að hæstv. fjmrh. og núv. hæstv. ríkisstj. hafa staðið fyrir þeim blekkingaleik sem einsdæmi er. Það er e.t.v. unnt að ná á pappírnum batnandi stöðu ríkissjóðs, en það er gert með þeim hætti í fyrsta lagi að skattheimta er aukin. Frá 1977 nemur aukin skattheimta líklega um 1000 millj. nýkr. eða yfir 4 þús. kr. á hvert einasta mannsbarn í landinu; í vöggu, í starfi eða á dvalarheimilum aldraðra. Það er þess vegna ekkert sérstaklega hrósvert með slíku auknu umráðafé að geta sýnt aðeins betri afkomu ríkissjóðs sjálfs. En þetta er ekki eina ástæðan, þessi aukna skattheimta, til þess að ríkissjóður sýnir betri afkomu. Í öðru lagi er þannig farið að, að markaðir tekjustofnar, sem áttu að fara í tilteknar framkvæmdir eða þjónustu fyrir borgara landsins, eru notaðir í almenn rekstrargjöld. Þannig er t.d. farið með launaskattinn sem átti sérstaklega að ganga til Byggingarsjóðs ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna að miklu leyti, og fleiri dæmi má nefna um þessa aðferð núv. hæstv. ríkisstj. (Forseti: Á hv. ræðumaður langt mál eftir?) Nei, ég skal stytta mál mitt. — Í þriðja lagi fer hlutfall útgjalda ríkissjóðs og ríkisfyrirtækja, sem fjármagnað er með lánum, þ. á m. erlendum lánum, ört vaxandi. Ég hygg að það séu ekki ýkjur, þótt ég hafi ekki við höndina nákvæmar tölur um það, að 1977 hafi þetta hlutfall verið um eða rétt rúmlega 6%, en sé núna á milli 13 og 14%.

Það er sem sagt aukin skattheimta, það er eyðsla markaðra tekjustofna í almenn rekstrargjöld og það eru auknar lántökur sem gera það að verkum að hæstv. fjmrh. þykist geta skreytt sig með betri afkomu ríkissjóðs. Allt þetta hefnir sín innan skamms í minna gjaldþoli þegnanna, í minni framkvæmdum á þeim sviðum, eins og íbúðabyggingum, sem nauðsynlegt er að fram verði haldið, og í aukinni greiðslubyrði afborgana og vaxta af lánum sem hljóta að falla á ríkissjóð. Hér eins og annars staðar er hæstv. ríkisstj. að velta vandanum á undan sér og blekkja landsmenn. En það er komið að skuldadögunum þegar og slíkum starfsaðferðum verður ekki beitt lengur.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, aðeins fara fram á það, áður en þessari umr. lýkur, að þm. verði gefin nákvæmari skýrsla um þann niðurskurð sem hæstv. ríkisstj. hyggst gera á útgjöldum ríkisins. Sú skýrsla, sem hæstv. fjmrh. lofaði við 2. umr„ er enn ekki komin fram. Svo yfirborðsleg og ónákvæm og ruglingsleg var sú skýrsla, sem hæstv. fjmrh. gaf að þessu leyti í upphafi þessarar umr., að hún fullnægir alls ekki því, sem þingheimur á kröfu á, né heldur fullnægir hún því að geta kallast efndir á loforði fjmrh. við 2. umr.

Ég skal ekki að sinni orðlengja þetta frekar, þar sem komið er fram á þingflokkstíma, en tel að hæstv. fjmrh. skuldi bæði fjh.- og viðskn. og þingdeildinni miklu greinilegri upplýsingar og eigi að breyta um málflutning sinn, því slíkur blekkingarleikur sem hann viðhafði í upphafi umr. dugir hvorki innan þings né utan.