30.03.1982
Sameinað þing: 70. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 3328 í B-deild Alþingistíðinda. (2944)

367. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Fyrirspyrjandi (Karl Steinar Guðnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 2. þm. Reykn. að leggja fram eftirfarandi fsp.:

„1. Hvað líður störfum nefndar þeirrar er ráðh. skipaði 13. nóv. s.l. vegna nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli?

2. Hefur verið ákveðið hvernig og hvort lántaka til byggingarinnar verður nýtt?

3. Hefur verið tekin ákvörðun um áfangaskiptingu byggingarinnar?

4. Hafa verið gerðar breytingar á hönnun byggingarinnar?“

Ég tel ástæðulaust að fara mörgum orðum um þessa fsp. Hún skýrir sig sjálf. Það hefur komið fram hér á Alþingi að stjórnarsáttmálinn gerir ráð fyrir að allir samstarfsflokkar ríkisstj. samþykki að af þessari byggingu verði, og nú er svo málum komið að líklega er skammt þess að bíða að frestur sá, sem fyrir hendi er til að ákveða þessa byggingu, renni út. því er hér spurt.