03.11.1981
Sameinað þing: 12. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1982

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Miðað við pólitískt ástand í landinu mundi ég frekar kalla það eldingarvara en fyrirvara sem þeir framsóknarmenn voru að lýsa áðan. Það væri kannske ástæða til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort flokksbræður hans í ríkisstj., þeir tveir ráðh. sem gegna ráðherrastöðum í iðnrn. og félmrn., hafi ekki slíka eldingarvara líka.

Ég vil enn fremur benda hæstv. ráðh. á hvað lítið er nú orðið að marka hvernig ríkisreikningurinn er settur upp og áætlun fjárlaga. Undir liðnum Landbúnaðarmál. ýmis starfsemi, er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði lántökukostnað að fjárhæð 2 milljarðar gkr. vegna lántöku sem aldrei hefur komið fram, hvorki á A-hluta né B-hluta fjárlaganna. (Fjmrh.: En í lögum?) En í lögum? Það skiptir engu máli. Þarna er um að ræða að þarna er lántaka, sem búið er að taka þrjú ár í röð og annar aðili en ríkissjóður er skrifaður fyrir, í þessu tilviki Framleiðsluráð landbúnaðarins. Það gæti alveg eins verið Jón Jónsson úti í bæ. Þarna er að sjálfsögðu ekki spurning um hver sé skrifaður fyrir láninu, heldur hver greiði það.

Auðvitað á að skrifa lánið hjá þeim aðila sem ætlast er til að greiði afborganir og vexti. Þetta tiltekna lán hefur aldrei komið inn, hvorki í A-hluta né B-hluta, þegar það var tekið, heldur komið fram í lánsjáráætlun sem lántaka fyrir þriðja aðila úti í bæ, en það er ríkissjóður sem greiðir afborganirnar og vextina. Síðan er þessu haldið áfram í lánsfjáráætlun núna. Þá er gert ráð fyrir að það sér tekið enn nýtt lán upp á 2 gamla milljarða fyrir þennan aðila úti í bæ sem þegar hefur í höndunum tvö lán sem hann getur ekki greitt af, heldur ríkissjóður. Þarna sjá menn hvernig er hægt að leika sér með að skrifa einhvern Jón Jónsson úti í bæ fyrir lánum sem ríkissjóður ætlar sér að greiða þannig að aldrei komi fram að þau séu tekin af greiðandanum. Það er þetta sem ég leyfði mér að benda á áðan. Hæstv. ráðh. leikur í þessu frv. þann leik. Ef hann ætlar að bera saman, eins og hann gerir, fjárlagafrv., sem hann leggur fram nú, við fjárlögin, sem afgreidd voru í fyrra, og skýra fyrir þingheimi að breytingin hafi orðið svona og svona, þá má hann auðvitað ekki breyta um uppsetningu á milli samanburðanna. Þá verður hann annaðhvort að setja inn í A-hlutann sambærilegar færslur við þær sem voru í A-hlutanum í fyrra ellegar þá að taka út úr A-hlutanum í fyrra þær færslur sem hann tekur út af A-hlutanum nú. Þetta er kannske ekki stórvægilegt atriði. Þetta sýnir bara að það er hægt að færa svona hluti til innan fjárlaganna þannig að samanburður á milli ára gefi ekki rétta mynd.

Ég vil svo ekki lengja þetta mál frekar. En ég ætlaði raunar að segja það í framsöguræðu minni áðan, en gleymdi því og get þá alveg eins látið þess getið núna, að ég er ekkert feiminn við að lýsa því yfir og viðurkenna að hæstv. fjmrh., Ragnar Arnalds, hefur á margan hátt staðið sig mjög vel í starfi og að ég held miklu betur en menn áttu von á eftir þá reynslu sem má segja að hæstv. ráðh. hafi fengið í embætti menntmrh., þar sem hann var allra manna aðgangsharðastur. Ég vil líka segja það, að ég öfunda hann ekki af að þurfa að standa í því erfiða hlutverki, sem hann stendur í, og þá síst að þurfa að gegna því hlutverki í ríkisstj. Það hlýtur oft að vera erfitt fyrir hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds að reyna að koma samráðh. sínum og flokksbræðrum í ríkisstj. í skilning um hvaða tökum þurfi að beita ríkisfjármálin, skilning sem hans flokkur hafði ekki til að bera, hvorki flokkurinn sem heild né einstakir þm. í þeim flokki, fyrr en þá að hæstv. fjmrh. Ragnar Arnalds tók við því embætti.